10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3766)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til vegna þeirrar till., sem komið hefur fram hjá hv. þm. Matthíasi Mathiesen, — hann er nú að vísu farinn héðan — að beina þeirri spurningu til hans, hvers vegna hann sá ekki ástæðu til eða gerði till. um að vísa frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, þegar það var til umfjöllunar í Nd., til fjh.- og viðskn. Þar var um markaðan tekjustofn að ræða, en hér er um mörkuð útgjöld að ræða. Þetta er ótvírætt hluti af félagslegu frv. og á því ótvírætt heima í félmn.

Ég vil eindregið taka undir ummæli hv. þm. Einars Ágústssonar um að fjh.- og viðskn. ætti ekki að hafa meira vald í slíku félagslegu máli en hv. félmn. Og ég tel hv. félmn. ekkert vanbúnari eða vanhæfari en fjh.- og viðskn. til að draga réttmætar ályktanir í þessu efni og skila þeirri ályktun sem hún vill gera í þessu máli og telur réttmæta. Ég endurtek, að ég tel hana ekkert vanbúnari eða vanhæfari til að draga réttmætar ályktanir um málið.