10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

189. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, til breytinga á lögum nr. 30 frá 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er ekki stórt mál sem þarfnast ítarlegrar framsögu. Ég ætla því ekki að hafa mörg orð um það.

Tilefni þessara breytinga er að fram til síðustu áramóta hafa lánveitingar til nýbygginga og til endurbyggingar íbúðarhúsnæðis verið í höndum tveggja aðila.

Stofnlánadeild landbúnaðarins annaðist slíkar lánveitingar til húsnæðis í sveitum, en Húsnæðismálastofnun ríkisins aðrar. Á síðasta áti var tekin ákvörðun um að breyta tilhöguninni og færa allar lánveitingar til eins aðila, þ, e. Húsnæðismálastofnunar. Varð af þeim sökum nauðsynlegt að breyta lögum um báða aðila. Lögum um Stofnlánadeild landbúnaðarins var breytt 16. maí s. l. með lögum nr. 60 frá 1978 og þá felldar niður heimildir Stofnlánadeildarinnar til íbúðarhúsalána. Tók sú breyting gildi um síðustu áramót.

Nú er lagt til að gera tilsvarandi breytingar á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, nr. 30 frá 12. maí 1970. Að vísu hefur ekki verið talin þörf á að breyta 4. gr. þeirra laga, sem fjallar um hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins, því að þar er honum falið að annast allar lánveitingar til íbúðabygginga annarra en þeirra sem Stofnlánadeild landbúnaðarins veitir lán til. Það leiðir því af sjálfu sér, að þegar lánveitingar Stofnlánadeildarinnar falla niður tekur Byggingarsjóður ríkisins sjálfkrafa við.

Hins vegar er nauðsynlegt að gera beinar breytingar á kaflanum um sparnað til íbúðabygginga, þar sem fjallað er um sérstakar innlánsdeildir á vegum Byggingarsjóðs og Stofnlánadeildar og um skyldusparnað, til þess að sá sparnaður færist allur til Byggingarsjóðs ríkisins um leið og verkefnið flyst til hans.

1. gr. frv. gerir ráð fyrir að 3. mgr. 10. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins falli niður, en þessi mgr. hljóðaði svo: „Tilsvarandi ákvæði gilda um þá menn utan kaupstaða og kauptúna, sem leggja á þennan hátt fé í Stofnlánadeild landbúnaðarins við Búnaðarbanka Íslands.“

2. gr. frv. gerir ráð fyrir þeirri einu breytingu á 1. mgr. 11. gr. laga um Húsnæðismálastofnun, að niður falli fyrirmæli um að skyldusparnað þeirra, sem búsettir eru í sveitum, skuli ávaxta í Stofnlánadeild landbúnaðarins við Búnaðarbanka Íslands. Verður allur skyldusparnaður eftir þessa breytingu ávaxtaður í Byggingarsjóði ríkisins.

3. gr. frv. gerir svo ráð fyrir að 2. mgr. 13. gr. laga um Húsnæðismálastofnun ríkisins breytist á þann veg, að sérstakt gjald, sem skattyfirvöld geta ákveðið á hendur þeim sem vanrækja sparimerkjakaup, skuli renna óskipt til Byggingarsjóðs ríkisins, en ekki til Stofnlánadeildar jafnframt eins og nú er.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til félmn. þessarar hv. d. og til 2. umr.