07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

34. mál, framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Þau uppýsa málið verulega. Ég vil taka fram að það liggur fyrir, að einstaka sjúkrasamlög í landinu greiða nær allan rekstrarkostnað heilsugæslunnar á viðkomandi heilsugæslusvæði án athugasemda frá Tryggingastofnun ríkisins, en önnur fara í öllu eftir fyrirmælum Tryggingastofnunarinnar og greiða aðeins hlut læknastöðvanna. En læknar taka 60% samkv. gjaldskrá Læknafélags Íslands auk fastra launa. Þarna virðist vanta tilfinnanlega samræmingu á túlkun í starfsemi sjúkrasamlaga og Tryggingastofnunar ríkisins. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga lagði til ákveðnar breytingar á lögunum við setningu þeirra á þessu ári til þess að lagfæra þessa aðstöðu að nokkru. T.d. — með leyfi hæstv. forseta — við 20. gr. frv., að hún orðist þannig:

„Sérhæft starfslið í heilsugæslustöðvum, svo sem lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, sjúkraliða og meintækna, skal skipa af ráðh., enda sé skipun þessi í samræmi við reglugerð, sem ráðh. setur samkv. 19. gr. Ríkissjóður greiðir laun sérhæfðs starfsliðs og skulu föst laun þess og yfirvinnugreiðslur vera í samræmi við gildandi kjarasamninga. Viðhalds- og endurnýjunarkostnaður fasteigna og tækja heilsugæslustöðva greiðist af eigendum stöðvanna í hlutfalli við eignaraðild þeirra. Annar rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva greiðist af hlutaðeigandi sjúkrasamlagi eða sjúkrasamlögum.“

Þetta er allviðamikil breyting, sem því miður náði ekki fram að ganga.

Ég vil geta þess í sambandi við hönnunarkostnað að það hefur komið fram, að t.d. er byggingarkostnaður eins læknisbústaðar úti á landi áætlaður 55–60 millj. kr. Þarna. hlýtur að þurfa visst aðhald. En ég endurtek, að ég tel lögin um heilbrigðisþjónustu hina merkustu löggjöf, sem hefur skapað nýtt viðhorf til þessa mikilvæga málaflokks og þegar fært okkur verulega nær því takmarki, að allir landsmenn eigi kost á fullkominni heilbrigðisþjónustu, enda þótt stór verkefni séu enn óleyst á þessu sviði. T.d. vil ég vekja athygli á því, að finna þarf lausn á læknaskorti, sem nú er mjög vaxandi víða úti í dreifbýlinu.

Heilbrigðismálin eru nú þegar fyrirferðarmesti út gjaldaflokkur í þjóðfélaginu. Er gert ráð fyrir að um 65 millj. króna fari í þennan lið á næsta ári. Það hlýtur því að vera brennandi mál, að sífellt fari fram endurskoðun opnum huga á öllum þessum málaflokki, þar með talið tryggingalöggjöfinni í heild, til að ná fram mestri hagkvæmni í öllum rekstri og þess verði jafnan gætt að saman fari stjórn og fjármálaleg ábyrgð, umfram allt að árangur af heilsugæslustarfinu skili sem bestum árangri fyrir þjóðina í heild. Ég mæli eindregið með því, að endurskoðun fari fram á lögunum sem fyrst, og vænti þess, að hæstv. heilbrrh. taki þessi mál öll fastari tökum.