10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4634 í B-deild Alþingistíðinda. (3781)

238. mál, námsgagnastofnun

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Sjálfstfl. á sér háleita hugsjón sem felst í því að selja ríkisfyrirtæki, og ég veit að hv. þm., sem hér lagði orð í belg, er einn af háleitustu baráttumönnum flokksins fyrir þeirri hugsjón. En ég verð að segja alveg eins og er, að ég held að það sé álíka vonlaust og fráleitt að ætla að fara að selja þessa starfsemi í hendur einkaatvinnurekendum og að selja skólana sjálfa, því hér er um að ræða starfsemi í eins nánum tengslum við skólastarfið sjálft og hugsast getur. Ég vil benda hv. þm. á að hér er um að ræða framleiðslu skólagagna og svonefndra nýsigagna, eins og það er nefnt á nútímamáli, og þó alveg sérstaklega skólabóka fyrir grunnskóla, og þær bækur er gefnar grunnskólanemendum. Ef þá starfsemi ætti að leggja niður yrði að sjálfsögðu að taka afstöðu til þess, hvort nemendum yrðu á ný seldar kennslubækur, því ef einstakir bókaútgefendur eiga að annast námsbókaútgáfu geri ég ráð fyrir að þeir vilji fá eitthvað fyrir sinn snúð og varla verður það hlutverk þeirra að dreifa þessum bókum og ríkið borgi brúsann. Það getur varla verið neinn tilgangur í breytingum af því tagi, nema útgefendunum sé beinlínis ætlað að selja bækurnar, og þá yrði um gagngera stefnubreytingu að ræða frá því sem verið hefur um nokkurra áratuga skeið. Ég vil sem sagt benda hv. þm. á að ef þetta ætti að gerast, að starfsemi ríkisins væri lögð niður að þessu leyti og afhent einkaframtaki, yrði að sjálfsögðu að breyta algerlega frá þeirri venju sem ríkt hefur í þessum efnum. Er hann þá tilbúinn að marka þá stefnu? Væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.

Ég þekki allvel hugmyndir hv. þm. um sölu ríkisfyrirtækja í hendur einkaframtaki. Ég er hins vegar sannfærður um að í mörgum tilvikum eru örlítið meiri rök fyrir slíkri stefnu en í þessu tilviki. En ég fagna því, að hv. þm. gerir sér fulla grein fyrir að hér er verið að sameina stofnanir og í því er fólgið mikið hagræði, og þess vegna vænti ég þess eindregið að hann styðji frv.