10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4636 í B-deild Alþingistíðinda. (3786)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í morgun var samþ. till. í ríkisstj. um breytingu á lánsfjáráætluninni og í samræmi við þá samþykkt flytjum við, ég og hæstv. menntmrh., brtt. um frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979, svo hljóðandi:

„Ný grein, er verði 22. gr., hljóði svo:

„Heimilt er fjmrh. f. h. ríkissjóðs að taka lán, innlent eða erlent, að fjárhæð 300 millj. kr. til að greiða framkvæmdakostnað við dreifikerfi sjónvarps á þessu ári.“

Síðan verður gildistökugreinin að sjálfsögðu 23. gr. í staðinn fyrir að hún er nú 22. gr.

Eins og komið hefur fram í umr. um málefni sjónvarps og útvarps var heimild í tollskrárlögum 1964 til að ætla aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum til stofnbúnaðar sjónvarps, þar með talið dreifikerfi. Sú heimild var felld niður úr lögum 1976 svo lítið bar á, að því er virtist, og þess vegna renna nú tekjur af innflutningsgjöldum sjónvarpstækja til ríkissjóðs, en aftur á móti er ákveðið á fjárlögum ríkisins sérstakt framlag til Ríkisútvarpsins, 340 millj. kr., að því er mig minnir, á þessu ári. Á sínum tíma hefur Alþ. metið það svo, að eðlilegt væri að ráðstafa tolltekjum af sjónvarpstækjum til uppbyggingar sjónvarpsstöðva, og sennilega hefur þá Alþ. einnig 10 árum síðar talið að barnsskónum væri svo slitið að sjónvarpsnotendur ættu að standa undir fjárfestingu og rekstri sjónvarpsins, en það yrði ekki áfram gert af tekjum ríkissjóðs. Ég hygg að gert hafi verið óformlegt samkomulag milli fyrrv. menntmrh. og fjmrh. um að sjónvarpið fengi tolltekjurnar áfram árin 1976, 1977 og 1978 þar til annað yrði ákveðið. Á síðari hluta árs 1977 og fyrri hluta árs 1978 varð veruleg seinkun á þessum greiðslum til sjónvarpsins. Veruleg uppbygging í litvæðingu og á dreifikerfi sjónvarps og útvarps átti sér stað á árunum 1977 og 1978 og þessari uppbyggingu þarf að halda áfram. Þess vegna hefur ríkisstj. nú samþykkt þá breytingu á fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni sem felst í þeirri till. sem ég og hæstv. menntmrh. flytjum og ég hef nú gert grein fyrir.