07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

34. mál, framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, virðist skorta nokkuð á um samræmingu. Mun ég beita mér fyrir því, að þar verði gerðar bætur á. Hann minntist líka á læknaskortinn. Hann er alvarlegur, eða réttara sagt: hann lítur út fyrir að verða atvarlegur nú eftir áramótin, það kemur til með að vanta einhvers staðar á milli 10 og 20 lækna úti í dreifbýlinu. Þessi mál eru í stanslausri athugun hjá rn. og m.a. er verið að kanna, að vísu er það bara byrjunarkönnun, hvort tiltækilegt sé að hefja hér heima sérfræðinám við Háskóla Íslands í heimilislækningum. Það er álit margra að við það mundi draga mikið úr læknaskortinum. Auðvitað bætir það ekki ástandið strax, en það gæti batnað fljótlega.

Það er líka rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að miklir peningar fara í heilbrigðis- og tryggingamál. Eigi að síður er upphæðin, sem fer í heilbrigðismál, geysilega mikil, þannig að það er feikilega mikið atriði að þeim peningum sé vel varið. Alltaf eru í gangi kannanir á því, hvernig hægt sé að bæta rekstur og gera hann hagkvæmari. Ég vona að gjaldskráin, sem ég ræddi áðan og á að taka gildi um áramót, og það aðhald, sem þær heilsugæslustöðvar fá, sem eru í sjúkrahúsum, muni jafna aðstöðuna.

Vitanlega kemur til greina að kanna þær hugmyndir, sem hv. 8. landsk. þm. ræddi. Hér er um að ræða geysilega þýðingarmikinn málaflokk og þess vegna þurfa lögin um hann að vera í stöðugri endurskoðun.