10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4642 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég lýsi mig andvígan till. frá hv. þm. Pálma Jónssyni. Það er nýbúið að knýja hér fram 50% hækkun á verðjöfnunargjaldi til að hjálpa þessari vandræðastofnun, Rafmagnsveitum ríkisins, og þegar í viðbót búið að lofa 600 millj. kr. sem ríkið eigi að standa undir. Ég tel vel við þessa stofnun gert. Verðjöfnunargjaldið er lagt á og knúið fram í beinni andstöðu við okkur sem búum hér, og ég tel að það sé nóg í bili og verði að duga. Auk þess vil ég segja að sú lánsfjáráætlun, sem hér er til umr., hljóðar þegar upp á yfir 9 milljarða kr. Ég mun þess vegna vera á móti öllum brtt. til hækkunar, líka til Hitaveitu Vestmannaeyja, þó að það þýði að ég verði ekki talinn heilvita maður.