11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4653 í B-deild Alþingistíðinda. (3824)

243. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Landbn. hv. Ed. hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum. Það hefur verið fengin umsögn Búnaðarfélags Íslands um það og einnig fengum við menn til viðtals við n., alveg sérstaklega þá búnaðarmálastjóra sem gaf n. ýmsar upplýsingar sem einstakir nm. og n. í heild höfðu óskað eftir að fengjust.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í hvers vegna þessi breyting á jarðræktarlögum er flutt, vitna aðeins í það, að í samræmi við ákvæði samstarfsyfirlýsingar núv, ríkisstj. varðandi það, að stefnt skuli að því að framleiðsla landbúnaðarvara miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað, verði um sinn úr þeim framlögum dregið samkv. 10. gr. jarðræktarlaga sem mest hvetja til aukningar á nautgripa- og sauðfjárrækt. Það er ekki verið að taka þessa fjármuni frá landbúnaðinum því að með ráðstöfun þessa fjár á að koma þar á betra skipulagi, ef vera mætti að það tækist, eða eins og segir í þeim tölul., sem þarna er vitnað til sérstaklega, „til að styrkja nýjar tekjuöflunarleiðir bænda og auka fjölbreytni í framleiðslu búvara, til að stuðla að bættri heyverkun og til hvers konar hagræðingar sem orðið getur til að bæta tekjur hænda án framleiðsluaukningar í nautgripa- og sauðfjárrækt.“

Lengi má um það deila hvað á að gera. Það hefur komið fram í umr. þegar, frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni sem gerði ýmsar aths. við l. umr., hvað hér ætti að gera í heild og í raun og veru þyrfti stefnumótunin í heild að liggja skýrar fyrir áður en menn færu að gera einstakar breytingar. Ég get verið honum sammála um að æskilegast og hest hefði verið að við hefðum fyrst haft fyrir okkur skýra og ljósa stefnumótun í landbúnaðarmálum í heild, áður en við fórum að gera hinar einstöku breytingar sem við erum nú að gera. Sú stefnumótun er nú til umr. í Nd. og óvíst m. a. s. hvort hún nær þar fram að ganga eða hvaða breytingum hún kann að taka, en engu að síður er þó búið að sýna hana og menn eru þó að vinna að þessu í heild.

Ég ætla ekki að fara út í það heldur, hvernig komið er fyrir landbúnaðarmálum okkar og hverju þar er um að kenna. Fyrst og fremst er um að kenna almennu stefnuleysi eða skipulagsleysi í þessum málum almennt. En ég vil taka það fram líka, af því að þær raddir eru ævinlega hæstar sem tala um skipulagsleysi í landbúnaðarmálum og skipulagsleysi í meðferð fjármuna þar, að persónulega legg ég áherslu á að það þyrfti miklu víðar að huga að fjármunum og hvernig þeim er eytt en í sambandi við landbúnað okkar. Jafnvel í þeirri grein, sem færir okkur t. d. mestar gjaldeyristekjur og við lifum á, sjávarútvegi, er ég hræddur um að mætti huga á ýmsan hátt betur að fjármunum, sumum hverjum, ég tala nú ekki um ýmsar óarðbærar greinar, eins og verslunar- og þjónustugreinar ýmsar, sem væri sannarlega ástæða til að huga að fjármunamyndun í. Þeir, sem oft hafa hæst látið um landbúnaðinn, hafa gleymt fullkomlega að gæti verið um nokkra fjármunasóun að ræða eða skipulagsleysi í fjárfestingum. — Þetta vildi ég aðeins segja almennt um það mál án þess að fara nánar út í umræður um slíkt.

Við fengum álit Búnaðarfélags Íslands á þessu frv. til l. um breytingu á jarðræktarlögum og við urðum sammála um að mæla með tveim brtt. sem frá því komu — raunar þremur. Búnaðarfélagið sætti sig illa við það, eins og stóð í frv. upphaflega, að framkvæmdirnar, sem um væri að ræða og styrkhæfar væru eða framlag skyldi greitt til, væru í samræmi við stærðarmörk í lánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins, þ. e. a. s. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefði ein þar um að segja. Við bentum á það á móti, að forseti Búnaðarfélags Íslands á sæti í stjórn Stofnlánadeildarinnar og túlkar þar vitanlega. sjónarmið Búnaðarfélagsins, og af því að ég sit í þeirri stjórn votta ég að hann getir það mjög rösklega og vel, auk þess sem þar situr einnig formaður Stéttarsambands bænda og heldur þar ekki síður á hlut bænda en formaður Búnaðarfélagsins. En engu að síður töldum við rétt til samkomulags að breyta 2. gr. , þannig að í staðinn fyrir að Stofnlánadeildin hefði þarna alfarið alla stjórn á mundu Búnaðarfélag Íslands og Stofnlánadeild landbúnaðarins koma sér saman um stærðarmörk framkvæmdanna í sambandi við lán og styrkveitingar.

Hér er í raun og veru eingöngu um að ræða f-liðinn, þ. e. a. s. um skert framlög til áburðargeymslna. Sannleikurinn er sá, sem hefur komið fram oftlega áður, að það var talin á sínum tíma mikil ástæða til þess að bændur nýttu húsdýraáburðinn betur en þeir gerðu og til þess væri nauðsynlegt að styrkja þá til að koma á hjá sér góðum áburðargeymslum. Það hefur hins vegar verið gert það rösklega í mörgum tilfellum, að framlög + lán hafa numið yfir 100% af kostnaði. Þess vegna er ekki síst ástæða til að skerða þau framlög nokkuð. Ég vona sem sagt, að þar verði komist að öllu skynsamlegri niðurstöðu en hefur verið í framkvæmd á undanförnum árum. Hins vegar er rétt að geta þess, að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur þegar komið til móts við þessa misnotkun, vil ég segja, á þessari stefnu með því að lækka lán sín til áburðargeymslna mjög verulega, eða um 2/3 frá því sem var. Það má auðvitað ekki ganga of langt í því að skerða framlögin og því von til að Búnaðarfélagið vilji hafa nokkra hönd í bagga þegar komið verður að stærðarmörkum þeirra framkvæmda.

Þeir úr Búnaðarfélaginu óskuðu eftir því, að úr a-lið í fyrri upptalningu félli niður „eða framræst ræktunarland“, því þar væri mjög óglöggt um öll skil og erfitt að dæma um hvað ætti að telja styrkhæft eða ekki. Ekki vorum við fróðari þar um, og þegar sjálfur búnaðarmálastjóri sagði að þetta væri illframkvæmanlegt vorum við auðvitað ekki menn til þess að setja skýrar línur eða skýr mörk og ákváðum að fella orðin brott. Það kom fram í viðtali við búnaðarmálastjóra að meðaltúnstærð, gróft á litið, á landi hér væri í kringum 32 ha. eða tæplega það. Okkur þótti því rétt að fella brott 35 ha. túnstærð, sem er yfir vísitölubúi, yfir meðalbúi, og færa mörkin neðar. Því höfum við gert þá brtt., að í stað „35 ha.“ komi: 30 ha. Teljum við fyllilega koma til greina að upp að því marki verði veittur fullur styrkur, en skerðingin komi þar fyrir ofan.

Að síðustu var svo í frv. landbrh. d-liður í seinni stafliða-upptalningunni: „Til annarra verkefna er stuðla að því að ná framleiðslu- og tekjumarkmiðum.“ Búnaðarfélag Íslands óskaði eftir að fá þann lið felldan niður vegna þess að hann væri það óljós að menn vissu ekki almennilega við hvað væri átt. Okkar kostur hefði getað verið sá að ákvarða þetta nánar, segja ákveðið til um til hvers féð skyldi fara, en ef við miðum við það sem á undan er komið á a-, b- og c-lið teljum við að þar sé um næg verkefni að ræða þótt ekki verði því bætt við sem er í d-liðnum og óskilgreindu þá. Við leggjum því til að d-liður í síðari upptalningu stafliða falli brott.

Aðrar breytingar hefur meiri hl. landbn. ekki gert. Það hefði auðvitað átt að vera skylda mín í upphafi að taka fram, að n. klofnaði um málið og meiri hl. stendur að brtt., en að öðru leyti samþykkt frv. um jarðræktarlög. Minni hl., fulltrúar Sjálfstfl., skilar séráliti, þar sem ég sé að minni hl. leggur til að frv. verði fellt.

Ég hef ekki ástæðu til þess að fara nánar út í málið. Mér skilst að við nánari athugun hafi komið í ljós að það hafi enginn gildistími verið í frv., varðandi það hvenær lögin ættu að taka gildi, þannig að því var bætt við að lög þessi öðluðust þegar gildi, þó að við gerðum okkur grein fyrir því, að auðvitað koma ákvæði frv. ekki til framkvæmda vegna þeirra framkvæmda sem unnar voru á síðasta ári, heldur einvörðungu gagnvart því sem unnið verður í framtíðinni.

Ég skal svo ekki hafa orð mín fleiri. Við í meiri hl. landbn. leggjum sem sagt til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem eru gerðar á þskj. 670.