11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4656 í B-deild Alþingistíðinda. (3825)

243. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið varð landbn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og við, sem eru í minni hl., hv. 5. þm. Norðurl. v. og ég, leggjum til að frv. verði fellt.

Ýmsar ástæður liggja að baki afstöðu okkar. M. a. teljum við að hér sé um eina merkustu löggjöf á sviði landbúnaðarins að ræða sem hugsast getur, eins og hæstv. landbrh. tók fram þegar hann mælti fyrir þessu máli. Við erum honum algerlega sammála um það. En með því að svo er teljum við, að vanda þurfi mjög til allrar gerðar á breytingum á þeirri löggjöf, og leggjum áherslu á að það þurfi að vera gert með hliðstæðum hætti og venja hefur verið, að láta mþn. vinna að því hjá Búnaðarþingi og Búnaðarfélagi Íslands og að bændur ynnu þannig að og stæðu að öllum undirbúningi þessa máls. Það var ekki gert í þetta sinn, heldur var málið sent Búnaðarþingi í frv.-formi. Ég vil taka það fram líka með tilliti til þess, sem frsm. landbn. nefndi oft áðan, að það væri stefna Búnaðarsambands Íslands sem hann var að túlka og brtt., að ágreiningur var á Búnaðarþingi um þetta mál. Þar skiptust menn í tvo hópa. Annars vegar voru þeir, sem töldu rétt að málið næði fram að ganga, og hins vegar þeir, sem töldu rétt að málið næði ekki fram að ganga.

Um einstök efnisatriði frv. skal ég vera fáorður, m. a. vegna þess að ég fór allítarlega út í það við 1. umr. málsins og skýrði afstöðu mína þar. Það er sú afstaða sem liggur að baki till. okkar í minni hl. n. Ég vil aðeins leggja áherslu á að við teljum að ekki sé eðlilegt að veita landbrh. heimild, sem hér er gert ráð fyrir, til þess að ráðskast með þá hluti sem frv. fjallar um. Þetta segi ég ekki með tilliti til þess hver nú gegnir því háa embætti, heldur er þetta skoðun okkar hver svo sem embættinu gegndi.

Í 3. gr. frv. er að finna ýmis ákvæði um breytingar á skerðingarmörkum varðandi framlög til ýmissa framkvæmdaþátta. Við teljum að þau ákvæði leiði til misræmis í þeim efnum og þar sé eiginlega snúið við blaði frá því sem leitast var við að gera við endurskoðun á jarðræktarlögum 1972, en þá var einmitt lögð áhersla á að einfalda alla gerð jarðræktarlaganna og koma á sem mestu samræmi varðandi skerðingarmörkin.

Ég vil svo taka það fram, að ekkert liggur fyrir um hve há upphæð það yrði sem mundi vinnast við að framkvæma þessar till. Enn fremur er það allt of óljóst að okkar áliti, hvernig fer með ráðstöfun þessa fjármagns sem kann að koma til ráðstöfunar fyrir þessar aðgerðir. Því er hætta á að algert handahóf ríki í þeim efnum. M. ö. o. teljum við að þetta frv., í því formi sem það er, skipti ekki miklu í þeim mikla vanda sem nú er við að glíma í landbúnaðarmálunum almennt. Það, sem mestu máli skiptir, er að mótuð sé heitsteypt og samræmd landbúnaðarstefna. Við höfum hana ekki enn þá og því er þetta frv., eins og það liggur hér fyrir, meira og minna út í loftið. Við teljum það gagnslaust.

Hér hafa verið lagðar fram brtt. sem hv. 3. þm. Austurl. hefur skýrt. Ég skal ekki fara að ræða um þær brtt. Ég vil aðeins segja það, að þær eru þess eðlis að þó að samþykktar yrðu breyttu þær ekki afstöðu okkar minnihlutamanna í landbn.