11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4659 í B-deild Alþingistíðinda. (3833)

177. mál, húsaleigusamningar

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Félmn. hefur rætt þetta frv. ítarlega og fengið um það umsagnir frá ýmsum aðilum. Er það einróma álit n. að leggja til að frv. verði samþ. með brtt. sem n. flytur á sérstöku þskj. Auk þess hef ég á þskj. 658 flutt brtt. um húsaleigunefndir. Rétt er að taka það fram, að ástæðan fyrir því, að ég er þar einn talinn flm., er að á síðari stigum, þegar var verið að ganga frá nál. í þskj.-form, var einn nm. ekki alveg reiðubúinn að standa að brtt. án nánari athugunar, þó ekki fælist í því nein andstaða, og ekki vannst tími til þess að hafa samband við aðra nm., sem þó höfðu lýst yfir stuðningi sínum við þessa hugmynd, svo sem ég mun koma nánar að síðar. Í raun og veru stendur því allur þorri nm. að baki þessari brtt., en ég gekk í það síðla kvölds til að flýta fyrir afgreiðslu málsins að gera kleift að dreifa brtt. sem þskj., svo ekki þyrfti að koma til afbrigða, án þess að hafa getað haft samband við alla samnefndarmenn mína, sem ég veit þó að standa að þessari hugmynd í reynd. Ég vil þess vegna taka alveg skýrt fram, að ég er ekki í sjálfu sér einn flm. að þessari brtt. þó að svo sé að forminu til eingöngu. Það er ljóst af þeim umsögnum sem n. fékk, bæði frá Húseigendafélagi Reykjavíkur og Leigjendasamtökunum, sem reyndar áttu bæði ásamt fulltrúum frá rn. aðild að samningu þessa frv., að hér er á ferðinni frv. sem allir aðilar telja mjög nauðsynlegt og þarft. Hér er fjallað um mjög mikilvægan þátt í félagslegum samskiptum í þjóðfélagi okkar, samskipti leigutaka og leigusala hvað húsnæði snertir, einkum íbúðarhúsnæði. Það hefur verið talið nauðsynlegt að formbinda slík samskipti og kveða nánar á um réttindi og skyldur aðila. Þær brtt., sem n. flytur, eru því fyrst og fremst til þess að snyrta nánar, ef orða má það svo, ýmsa hugsun sem í frv. felst, kveða nánar á um einstök atriði og taka tillit til sanngjarnra ábendinga sem okkur fannst koma fram hjá báðum aðalumsagnaraðilum: Leigjendasamtökunum og Húseigendafélagi Reykjavíkur, því að sjálfsagt má í löggjöf af þessu tagi, einkum og sér í lagi þegar hún er sett í fyrsta sinn, ýmislegt betur fara. Ég ætla þess vegna í örstuttu máli að víkja að meginhugsuninni í ýmsum þeim brtt. á þskj. 657 frá félmn.

1. brtt., við 8. gr., felur í sér að kveðið er nánar á um að leigutaki, sem að ósk leigusala hafi leigt húsnæðið tvö ár í röð eða tvö leigutímabil í röð, ávinni sér vissan rétt í þeim samskiptum til ótímabundins samnings. Teljum við eðlilegt, að þegar reynslan hefur sýnt, að báðir aðilar una vel þessum víðskiptum, sé rétt að skapa möguleika á þeim réttindum sem hér er kveðið á um.

Enn fremur er í b-lið till. tengdaforeldrum bætt inn í þá skyldmennaupptalningu sem þar er að finna.

2. brtt. og reyndar 10. brtt. snerta tryggingafé svonefnt. Fannst okkur nauðsynlegt að kveða nánar á um það sérstaklega í 10. brtt. að varðveisla þess væri í banka eða sparisjóði á hæstu mögulegum vöxtum, þannig að tryggt væri að tryggingafé rýrnaði ekki við geymslu. Ýmis önnur ákvæði hér kveða nokkru skýrar á um hvernig með tryggingafé skuli fara og hvernig það skuli ákveðið, hvort það skuli lagt fram og með hvaða hætti.

3., 4, 5. og 6. brtt. fela í sér minni háttar breytingar, ýmist að formi eða efni til, á þeim ákvæðum sem í frv. er þegar að finna. Ég sé ekki ástæðu til að lengja tíma d. með því að víkja að þeim nánar.

Ég vek sérstaka athygli á 8. brtt., sem e. t. v. er efnismeiri en hinar fyrrnefndu. Í frv. er gert ráð fyrir, að ef breytingar verði á hitakerfi íbúðarhúsnæðis sem leiða til verulegs sparnaðar, t. d. ef tengt er við hitaveitu eða fjarvarmaveitu, sé leigusala heimilt að hækka leiguna sem nemi þeim sparnaði. Okkur í n. fannst sanngjarnara að leigutaki og leigusali skiptu til helminga þeim ávinningi. Við skulum taka sem dæmi að viða úti um land komi hitaveita í stað hinnar dýru olíukyndingar. Þá á ekki sjálfkrafa að vera heimilt að hækka húsaleiguna algerlega sem nemur þeim sparnaði, heldur komi sparnaðurinn af hina nýja hitakerfi í viðkomandi byggðarlagi leigutaka einnig til góða:

9. brtt. felur í sér skýrari ákvæði varðandi greiðsluform leigunnar, og 11. brtt. felur í sér að við dauðsfall sé það eingöngu á valdi dánarbús leigutaka að segja upp leigumálanum. Í frv. upphaflega var sá réttur einnig í höndum leigusala, en okkur fannst ekki rétt að athuguðu máli eða sanngjarnt að dauðsfall eitt sér gæti verið leigusala nægilegt tilefni til að segja upp samningi.

Ég held að þessar brtt., sem reyndar eru allar gerðar samkv. ábendingum þeirra aðila sem unnið hafa að gerð frv., skýri sig að öðru leyti sjálfar. Þær fela ekki í sér, nein þeirra, eins og ég hef sagt, veigamiklar breytingar á frv., en leiðréttingar og aðeins skýrara orðalag á einstaka stað. Ég hef þó vikið að þeim efnisþáttum í brtt. sem mér finnst helst ástæða til að vekja athygli á.

Á þskj. 658 er hins vegar flutt till. um að í frv. bætist nýr kafli, sem verði XIII. kafli, um húsaleigunefndir. Það ákvæði er ekki í frv., en hefur nokkuð verið rætt við undirbúning þess og aðdraganda. Hugsunin, sem þarna liggur að baki, er sú, að í bæjarfélögunum, einkum og sér í lagi hinum fjölmennari, geti verið nauðsynlegt og hagkvæmt að einhvern stjórnsýsluaðili sinni sérstaklega þessum veigamikla málaflokki íbúanna. Þess vegna er kveðið á um að hlutverk húsaleigunefnda sé að fylgjast með framkvæmd húsaleigumála og afla upplýsinga um þau, hlutast til um að úttektarmenn séu dómkvaddir, en þó einkum og sér í lagi, sem er meginhugsunin í brtt., að gefa aðilum leigumála, sem þess óska, leiðbeiningar um ágreiningsefni og leitast við að sætta slíkan ágreining ef báðir aðilar óska.

Við teljum að reynslan sýni, að ágreiningur milli leigusala og leigutaka stafi oft af því að ekki liggi nægilegar upplýsingar fyrir eða þá að þeir hafi ekki möguleika á að leita til þriðja aðila sem gæti veitt þeim nánari skýringar á grundvelli laga eða venju og geti verið eðlilegt og hagkvæmt einnig að skapa millilið, ef svo má orða það, sem hægt sé að leita til áður en sú þrautalending verður að fara með ágreining til dómstóla. Það er mat okkar og reyndar von einnig, að ef slíkar nefndir væru skipaðar löglærðum mönnum eða gætu eins og aðrar nefndir sveitarfélaga haft löglærða menn í þjónustu sinni mundi reynslan verða sú, að allur þorri ágreiningsmála af þessu tagi væri einfaldlega leystur með sáttagjörð eða upplýsingum frá slíkum aðila í bæjarfélaginu og þannig sé hvatt til þess að aðilar fari ekki fyrir dómstólana strax og það verði væntanlega bæði til þess að draga úr ágreiningsmálum og stuðla að almennari upplýsingu og ekki síður til að draga úr hugsanlegum fjölda mála fyrir dómstólum sem kynnu að rísa út af lögum þessum. Það er skoðun allra í n. að svona kerfi geti verið til bóta, þó, eins og ég segi, ástæður þess að ég flyt brtt. hér að forminu til einn séu þær sem ég gat um í upphafi.

Ég held að þegar á ferðinni er löggjöf af því tagi sem við erum að fást við nú, frv. til l. um húsaleigusamninga, sem samtök beggja helstu hagsmunaaðila á þessu sviði lýsa yfir almennum stuðningi við og n. er sammála um að samþ. með þessum breyt., væri æskilegt ef hv. d. gæti hraðað þannig afgreiðslu málsins að hægt væri að senda það sem fyrst til Nd. svo það gæti orðið að lögum fyrir lok þessa þings. Ég er viss um að það væri öllum þeim aðilum, sem hafa hagsmuni og áhuga á húsaleigumálum, mikið fagnaðarefni ef hægt væri að afgreiða þetta frv. sem lög áður en Alþ. lýkur.