11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4671 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil gjarnan varpa þeirri spurningu fram til hæstv. fjmrh., hvort búast megi við því að ríkisreikningurinn fyrir 1978 verði lagður fram hér á Alþ. áður en þingi lýkur. Það tókst á s. l. ári að leggja ríkisreikninginn, þann sem nú er verið að fjalla um, fram 4 mánuðum eftir áramótin, áður en þingi lauk, og ég held að það sé mjög til hins betra að alþm. hafi tækifæri til þess að sjá útkomu liðins árs yfir sumarið, áður en komið er svo til þings og fjárlagafrv. fyrir næsta ár er lagt fram, að samanburður og skoðun á fjármálunum geti átt sér stað með þeim hætti. Mig langar aðeins til að vita það, ef hæstv. fjmrh. getur svarað því nú.