07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft brýnu og nauðsynlegu máli, að setja ákveðin hámarks- og lágmarkslaun, og tel að sá munur, sem ráð er gert fyrir í þáltill., sé ekki fjarri því sem réttlátt er. En ég tel að þó að það sé tvímælalaust mikil nauðsyn að setja ákveðin lög um hámarks- og lágmarkslaun til að tryggja að misrétti og óhóflegur launamismunur sé ekki milli hárra og lágra launa, þá muni þau ekki koma í veg fyrir yfirborganir og launagreiðslur undir borðið, jafnframt því sem stundum eru vinnutímar greiddir, en jafnframt ekki unnir, heldur gæti það einmitt haft í för með sér, ef þetta yrði samþ., að slíkt mundi aukast. Því held ég að þarft væri að gerð yrði úttekt á því, hverjar raunverulegar launagreiðslur eru í landinu, bæði duldar greiðslur og yfirborganir, og mun flytja um það þáltill. síðar meir á þessu þingi. En ég vil lýsa stuðningi mínum við meginefni þessarar þáltill.