11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4676 í B-deild Alþingistíðinda. (3863)

294. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er mörgum þjóðþrifamálum hreyft nú á þessum síðustu dögum og vikum og hér renna útgjaldaaukar á ríkissjóð í gegnum þingið eins og á færibandi, og stjórnarþm. keppast við að segja að þetta sé nú lítið og þetta sé réttlætismál og þetta sé alveg sjálfsagt að fari í gegn. Ráðh. keppast við að hlaupa í ræðustólinn og lýsa yfir að þeir séu alveg sammála og allt sé jafnsjálfsagt að fari hér í gegn. Hins vegar eru þeir ekki eins sammála þegar á að afla tekna til þess að sinna hinum miklu verkefnum, og þeir eru ekki heldur eins sammála um hvernig á að leysa þann alvarlega þjóðfélagsvanda sem nú steðjar að í þessu þjóðfélagi. Þá liggur ekki alveg á hreinu hvernig á að leysa málið. Það er betra að láta hér fara í gegn fjölmörg frv., sem skipta milljörðum fyrir þjóðfélagið, en láta sig engu varða þó að meginhluti atvinnulífsins sé að stöðvast í þessu landi.

Farmannaverkfallið hefur nú staðið alllengi og ráðh., sem var að tala áðan, hefur haft allt sitt hreint og allt á takteinum hvernig eigi að leysa bæði þessi mál og önnur. En það eru samt einhverjar tafir á þeim lausnum. Hvaða stofnun halda hæstv. ráðh. að Alþ. sé? Á ekki að koma neinum vörnum við í þeim útgjaldaflaumi sem veður í gegnum þingið algerlega stjórnlaust? Þessi ríkisstj. er algerlega stjórnlaus. Hún reynir ekki að hafa neinn hemil á neinu. Hún er nýlega búin að heita sér fyrir setningu löggjafar sem heitir: Lög um stjórn efnahagsmála o. fl. Og í þeirri löggjöf, þó að hún sé meingölluð, er margt skynsamlegt. M. a. er í 13 gr. þeirrar löggjafar ákvæði um að fjárlaga- og hagsýslustofnun skuli annast hagsýslustarfsemi_fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og við meðferð opinberra fjármuna. Meðal þess háttar verkefna fjárlaga- og hagsýslustofnunar skulu vera eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð. Síðan er talið upp og í 2. lið í þeirri upptalningu í þessari löggjöf segir að kostnaðarmat á tillögum frv., sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, skuli liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þn. á tilskildum tíma.

Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. —það er víst eftir einn ráðh. inni til svara: Hefur verið farið eftir þessum lögum í sambandi við meðferð þingmála undanfarnar vikur eða frá því að lögin voru sett? Er nokkuð verið að spyrja þegar stjórnarþm. eru hér í kappi að kaupa sér hylli hjá ákveðnum hópum í þjóðfélaginu: Til hvers er verið að setja þessa löggjöf? (Fjmrh.: Það eru þn. sem eiga að sjá til þess að þetta sé gert.) Já, það er ríkisstj. sem á að vera húsbóndi hér á heimilinu, því að það er hún sem er húsbóndi í stjórnarliðinu, og stjórnarliðið æðir áfram. Ég er stjórnarandstæðingur og er að vara við þeirri vitleysu sem hér veður uppi. Aðrir stjórnarandstæðingar á undanförnum árum hefðu tekið undir allt eins og það gerðist. En þetta er komið svo langt út fyrir allt velsæmi að enginn ræður við neitt í þessu þjóðfélagi. Þó að annan daginn sé verið að stofna til einhvers aðhalds og sett löggjöf eins og þessi, þá er ekkert hlustað á það. Um leið og búið er að samþykja þessa löggjöf kemur engum það við, það skal bara haldið áfram að vaða upp fyrir haus í vitleysunni, bara ef menn telja sér það vinsælt. Ef menn telja sig geta fengið einhver atkv. út á það, þá skal það reynt. Hvað varðar þessa sömu menn um loforðin sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar? Og hvar standa þeir þegar þeir eiga að standa reikningsskil gerða sinna í því sambandi? Þetta er ekki eina málið sem verið er að lýsa hér. Það eru mörg mál sem svona hafa gengið fram síðustu daga. Og ég vil nú einu sinni, þó að ég hafi í raun og veru ekkert traust á núv. ríkisstj., biðja ráðh. sem einstaklinga í þessari ríkisstj., sem margir hverjir eru greindir menn, að muna eftir eigin samþykkt og segja: Nú verðum við að hafa eitthvert taumhald á stjórnarliðinu. — Eða hafa allir ráðh. gefist upp og telja ríkisstj. steindauða? En þeir segja auðvitað ekki af sér, það verður þá einhver að bera þá út í stólunum og hvolfa úr þeim. En hver vill taka á sig þá leiðindavinnu?