11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4681 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

294. mál, almannatryggingar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er sannarlega með hálfum huga að ég kem hér í ræðustól núna. Ég get ekki neitað því, að það fer alltaf um mig hálfgerður hrollur þegar farið er að tala um fæðingarorlof héðan úr ræðustólnum. Þetta er alveg viss liður á hverju þingi eða hér um bil hverju þingi, að eyða í það dýrmætum tíma að tala um fæðingarorlof. Þær umr. geta menn lesið sér til fróðleiks og skemmtunar í Alþingistíðindum undanfarinna þinga. Þar hefur margt verið sagt af tilfinningu og skaphita og raunar skynsemi líka stundum. Það hafa verið viðraðar ýmsar hugmyndir. Sumar hafa verið samþykktar, en þrátt fyrir það raunar ekki náð fram að ganga, ekki komist út í veruleikann, og enn eru menn að bisa með þetta vandamál. Allra verst hafa farið út úr þessu aumingja sveitakonurnar sem alþm. hafa borið mjög fyrir brjósti og ég man eftir allnokkrum till. um fæðingarorlof þeirra.

Ég nefni umr. sem urðu á 96. löggjafarþingi um frv. til l. á þskj. 414,1. flm. var Ragnhildur Helgadóttir. Það eru a. m. k. þrjú mál á yfirstandandi þingi, sem snerta þessar greiðslur, og ég vil taka það fram, að ég styð að sjálfsögðu hugmyndina um að þetta verði allt saman greitt af almannatryggingum. Mér finnst að það liggi í augum uppi að það sé það fyrirkomulag sem heppilegast sé að hafa á þessu, en ekki það fyrirkomulag sem lagt er til í till. til þál. á þskj. 63, um fæðingarorlof kvenna í sveitum, flm.: Árni Gunnarsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Finnur Torfi Stefánsson og Eiður Guðnason, þar sem í grg. er sagt, með leyfi forseta:

„Samtök bænda hafa ekki getað tryggt þessum hópi kvenna fæðingarorlof. Hér verður enginn dómur á það lagður hvort ástæðan er áhugaleysi eða fjárskortur. Hins vegar er ljóst að stofna hefði átt sjóð til greiðslu fæðingarorlofs og í hann hefði átt að renna fjármagn frá bændum sjálfum, sbr. greiðslur félaga í verkalýðsfélögum og að hluta fjármagn frá viðskiptaaðilum bænda.“

Ég er sem sagt ekki samþykkur þessari hugmynd. Ég er enn fremur andvígur því að Atvinnuleysistryggingasjóður sé látinn bera þessa byrði. Ég vil minna á þáltill. á þskj. 371, sem 1. flm. er hv. þm. Alexander Stefánsson. Meðflm. eru Páll Pétursson, Jón Helgason, Vilhjálmur Hjálmarsson og Ingvar Gíslason.

Þessi till er flutt til að reyna að fá viljayfirlýsingu Alþ. til að minna á nokkur atriði sem við viljum hafa í huga við undirbúning löggjafar um almannatryggingar. Okkur er kunnugt um að það er verið að vinna þetta starf í rn., en til þess að ítreka skoðanir okkar á því, hvaða hluti við vildum hafa þarna inni, settum við fram þessa till. og hugsuðum okkur að fá fram viljayfirlýsingu Alþ. og vinnuplagg fyrir nefndina. En í c-lið þessarar till. á þskj. 371 segir:

„Fæðingarorlof greiðist af almannatryggingum til allra fæðandi kvenna í landinu, hvort sem þær eru útivinnandi eða við heimilisstörf.“

Ég held, að við komumst aldrei út úr þessu máli með skaplegum hætti með öðru heldur en þessu. Og þó að ég styðji í huga mínum frv. á þskj. 621, það frv. sem hér er til umr. nú, þá hygg ég að það væri eðlilegra, vegna þess hvernig störfum er háttað í rn. og stjfrv. væntanlegt áður en mjög langt um líður, eins og hefur komið fram í þessum umr., að láta við það sitja að fá þessa viljayfirlýsingu fram með samþykkt þeirrar þáltill. sem ég var að geta um, frá Alexander Stefánssyni o. fl., hún yrði nægileg viljayfirlýsing Alþ. um hvern hátt við óskuðum eftir að hafa á þessu í framtíðinni.