11.05.1979
Neðri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4682 í B-deild Alþingistíðinda. (3870)

294. mál, almannatryggingar

Flm. (Bjarnfríður Leósdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. trmrh. fyrir orð hans hér og að hann hefur sýnt þessu máli áhuga og mun sýna því stuðning. Það, sem ég vildi aðeins taka betur fram, var það sem ég hélt reyndar að ég hefði gert í framsöguræðu minni að ég hefði verið að reikna út hvað þetta væri mikill hluti af launagreiðslum, og þá hafði ég auðvitað í huga að staðið yrði að því nákvæmlega eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði, — alls ekki að atvinnurekendur greiði hver fyrir sig þetta kaup konu sem vinnur hjá honum, heldur fari það í gegnum almannatryggingar. Ég skil ekki í þeim misskilningi sem hv. þm. Friðrik Sophusson hefur getað lagt í þetta, því að auðvitað á það á þann hátt að fara í gegnum almannatryggingar.

Til frekari upplýsinga vil ég endurtaka það, að á s. I. ári fæddust um 4000 börn. Ef Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir fullar bætur, þá er þetta innan við hálfa millj. fyrir hverf barn, eða 483 þús. kr., minnir míg. Þar að auki af því að þetta er í gegnum atvinnuleysisbætur, fær einstæð móðir fyrir barnið alveg nákvæmlega eins og atvinnuleysisbætur eru greiddar. Ef þetta væri þannig að meðaltali fyrir hvert barn, um 500 þús. kr., þá eru þetta tveir milljarðar og mér finnst það engin ósköp. Og þá er ég að reikna með fullum bótum. En nú eru margar konur sem vinna hluta úr starfi og fengju þar af leiðandi aðeins hluta af þessu — eða það gæti verið þannig.

Ég held að ég vilji ekki vera að tefja þetta meira. Ég vil aðeins endurtaka það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði. Hann sagði að oft hefði verið rætt um þetta af miklum tilfinningahita. Ég er ekkert hissa á að tilfinningahiti komi í svona mál, vegna þess að við finnum auðvitað öll hversu mikið réttlætismál þetta er.

Ég skal ekki að svo komnu máli tefja þetta lengur og þakka fyrir.