07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mér fannst gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar í sambandi við tekjur eða kaup sjómanna. Ég tók það einmitt fram í framsöguræðu minni, að sjómennska og búrekstur féllu auðvitað ekki undir þetta, því að þar er launum háttað á nokkuð annan hátt en í sambandi við það sem venja er með ákveðin launaform eins og hjá opinberum starfsmönnum eða verkafólki. Hann þurfti ekki að nefna skipstjórana, vegna þess að það var greinilega tekið fram í framsöguræðu minni, að ég leyti ekki svo á að þetta næði yfir þann hóp manna sem sjómenn eru eða bændur. Hins vegar benti ég á í framsöguræðu minni, að augljóst væri að ekki hefði launasemjendum tekist að koma sér saman um hvar kanturinn ætti að vera ofan á launum og það gæti verið hagræðing fyrir þessa aðila, þegar þeir væru að semja, að hafa þessar hliðar ákveðnar. Það var líka greinilegt á minni ræðu, að ég ætti við laun, sem kölluð eru, þ.e. umsamin laun, en ekki tekjur, sem geta verið allt aðrar en kemur fram í laununum. En það sem ég var umfram allt að undirstrika í tillöguflutningi mínum og ræðu var þetta, að hagræðing gæti verið að því fyrir þá, sem eru að fjalla um þessi launasamningamál, að hafa ákveðið form sem þeir gætu svo fyllt inn í, ekki mæti fara neðar og ekki skyldi fara ofar.

Ég hef ekki trú á því, sem kom fram hjá einum ræðumanna, að um meiri undirborðsgreiðslur yrði að ræða þó að þetta kerfi væri tekið upp. En vel má vera að fleira þyrfti að koma til en þetta, og ég hef ekki út af fyrir sig neitt á móti því. En þessi rammi held ég að væri mikilsverður fyrir þá sem um þessi mál fjalla hverju sinni, hvar sé neðsta markið og hvar sé efsta markið.

Hér var komið inn á atriði sem mig langar til að fjalla ögn um. Það er í sambandi við stórvirkjanirnar. Þær hafa farið þannig fram hér á landi, að þær hafa valdið geysilegri launasprengingu hvað eftir annað. Það gerðist með Búrfellsvirkjunina, það gerðist með Kröfluvirkjunina og það gerðist með Sigölduvirkjunina. Sú launasprenging varð með þeim hætti, að yfirvinnan var svo ofboðsleg í þessum greinum að þeir, sem horfðu á það utan frá hvað þessir menn gátu haft mikið upp með yfirvinnu, — sem oft var kannske engin vinna, heldur lagðist þetta svona saman vegna taxtanna, að menn gátu sofið á launum jafnvel, — þeir menn fóru að heimta miklu meira kaup en annars hefði kannske verið. Það var einmitt verið að taka fram áðan, að eitt af því, sem þyrfti að gæta mjög vel í framkvæmdum hérlendis, væri að þær færu ekki fram í eins miklum bylg um eða stökkum og hefur verið við stórvirkjanirnar. Ég vil taka undir það. Ég tel einmitt að eins og stórvirkjanirnar hafa verið framkvæmdar hjá okkur eigi þær ekki minnsta sök á hinni miklu verðbólgu, sem orðið hefur í landinu á ýmsa lund.

Ég endurtek það, að ég hef ekki trú á því, að það mundi verða til skaða, heldur miklu frekar til bóta, að þeir, sem eru að semja um laun hverju sinni, hefðu eitthvað við að miða neðst og efst og það væri rammi sem þeir gætu fyllt út í. Það væri mikið svigrúm eftir sem áður á milli þeirra talna sem ég nefndi áðan — allt frá 200 þús. á mánuði og upp í 600 þús. — og hindraði ekki menn að geta sett inn í það allmismunandi kaup.