11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4690 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

234. mál, samvinnufélagalög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því fyrir hönd samvinnumanna að rísa úr sæti og þakka hv. alþm. Eyjólfi K. Jónssyni fyrir tillöguflutning þennan. Ég sé í grg. að hann telur sig gera þetta að ósk framkvæmdastjóra Sambands ísl. samvinnufélaga. Nú er mér ekki alveg fyllilega ljóst hvort framkvæmdastjórinn hefur verið að gera að gamni sínu eða hvort hann hefur mælt í alvöru þegar hann nefndi einmitt þennan hv. þm. (EKJ: Honum var bláköld alvara.) Ég sé að hv. flm. hefur tekið þetta svo sem það væri bláköld alvara, og ég reikna með að hv. flm. hafi hugsað sig vandlega um, því að þessi orð framkvæmdastjórans féllu í erindi sem hann flutti á ráðstefnu 2. sept. 1972, og þar með hefur flm. náttúrlega haft góðan umhugsunarfrest.

Ég vil engan dóm á það leggja hvort þeir framkvæmdastjórnin og hv. þm. hafa lög að mæla, að það sé mjög brýnt að endurskoða þessi lög, en vera kann að svo sé. Hitt vil ég taka fram, að ég tel að þarna sé um nokkuð viðamikið mál að ræða, og þar sem till. fer til n., þar sem ég á sæti, vefst það ofurlítið fyrir mér hvort við komum til með að geta afgreitt það á þeim fáu dögum sem eftir eru. Hjá n. liggja mörg mál óafgreidd og það gengur illa að ná saman fundum. Við erum að vísu búnir að halda marga fundi og afgreiða mörg mál, en málafjöldi er mikill og þetta mál seint fram komið.

En allt um það, þá komum við til með að athuga málið í n. Ég tel æskilegt að aðalfundur Sambands ísl. samvinnufélaga fái tækifæri til þess að segja sitt orð um þetta mál, og enn þá meira væri mér í mun að afgreiða það ef slík stofnun bæði um það sérstaklega. Það getur sem sagt verið hentugt að hafa sumarið fyrir sér að hugsa um málið og kynna sér það, og væntanlega koma tímar og koma ráð að líta á það síðar.