07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sakna þess mjög, að ekki skuli vera fleiri þm. viðstaddir þá umr. sem hér á sér stað. Ég er þeirrar skoðunar, að hér sé á ferðinni eitt almerkasta mál sem þetta þing hefur tekið til umr. yfirleitt. Hér er um að ræða grundvallarspurningu gagnvart launþegahreyfingunni, gagnvart verkalýðshreyfingunni í heild. Mér finnst þó að menn hafi farið kringum aðalatriðið eins og köttur í kringum heitan graut í þeirri umr. sem hér hefur farið fram.

Frumskilyrðið til þess að hægt sé að stytta vinnudag verkafólks er að dagvinnutekjur nægi því til lífsviðurværis. Til þess að geta rætt slík mál verðum við að leggja höfuðáherslu á það, að kaupmáttur dagvinnutekna aukist mjög verulega frá því sem nú er. Sú mikla yfirvinna og næturvinna, sem almenningur á Íslandi leggur á sig, er komin til af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi má kannske segja að við höfum gert ákveðnar kröfur til lífsgæða sem ekki eru raunsæjar. Í öðru lagi kemur í ljós, að lægstlaunuðu stéttirnar í landinu, þurfa að vinna mikla yfir- og næturvinnu eingöngu til þess að hafa í sig og á.

Ég ætla að þetta mál verði varla leyst í þingsölum, heldur þurfi verkalýðshreyfingin og viðsemjendur hennar að leysa það í fyrstu umferð.

Mig langar að minna á að yfirvinna er að verða eitt almesta böl í íslensku þjóðfélagi, og þarf varla að rekja það hér. Sú vinnuþrælkun, sem á sér stað t.d. í sjávarþorpum víða úti um land, nær ekki nokkurri átt. Fólk bæði ofbýður heilsu sinni með þessari miklu vinnu og raunverulega heggur að rótum þess heimilislífs sem það vill lifa.

Hér hefur verið talað um að það sé ekki hægt að koma í veg fyrir mikla yfirvinnu t.d. í sjávarplássum þegar aflahrotur eru miklar. Ég held að þetta sé alrangt. Það er núna verið að gera mjög merkilega tilraun hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur með sérstaka kæligeyma þar sem hægt er að geyma fisk í nokkra daga og vinna hann eftir hendinni eða eins og eðlilegt getur talist.

Ég held að í þessu máli þurfum við að gera okkur fyrst og fremst grein fyrir því sem er aðalatriðið, en það er einfaldlega að kaupmáttur launa á Íslandi nægir ekki venjulegri fjölskyldu til þess að framfleyta sér á þann hátt sem þau lífskjör, sem við höfum búið okkur til, kalla á eða gera kröfu til. Þetta er aðalatriði þessa máls, og ég tel að þetta mál eigi að ræða í viðræðum ríkisvalds við aðila vinnumarkaðarins og þar eigi að tryggja að fólk geti yfirleitt notið sómasamlegs lífsviðurværis af sínum dagvinnutekjum.