11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4701 í B-deild Alþingistíðinda. (3902)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. fyrrv. landbrh. hefur nú gert allítarlega grein fyrir þróun þessa máls í hans tíð sem ráðh. og hef ég þar engu við að bæta, en vil segja örfá orð um það, sem gerst hefur síðan, og þá um leið gera grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Ég vil segja í upphafi, að meðan ég hef einhver áhrif á þessi mál mun ég fara mjög að tillögum fisksjúkdómanefndar. Ég mun ekki taka neina umtalsverða áhættu á því að þessi sjúkdómur dreifist um fiskvegi þessa lands, og ég trúi ekki að nokkur hv. þm. vilji gera það, enda er út af fyrir sig ekki verið að deila um það. En þetta vil ég að komi fram.

Ég vil þá geta þess í því sambandi, að nú hefur Skúli Pálsson farið fram á að mega flytja sótthreinsuð hrogn regnbogasilungs í stöðina á Þóroddsstöðum. Fisksjúkdómanefnd hefur um það fjallað. Nefndin leggur reyndar til sem fyrsta kostinn að eldi silungsins .verði haldið áfram að Laxalóni, en getur þó eftir atvikum fallist á að hitt verði gert, enda þá vandlega fylgst með því og fallist á skilyrði sem n. setur. Eftir atvikum og að fenginni þessari niðurstöðu hef ég ákveðið að rn. heimili það með þeim skilyrðum sem fisksjúkdómanefnd setur. Þar er m. a. að með þessu fylgist sá sérfræðingur, sem færastur er í öllum þessum málum, og að sjálfsögðu allt sótthreinsað og einnig þess vandlega gætt að ekki sleppi frá þeirri stöð á Þóroddsstöðum seiði í fiskvegi og vatnavegi þar.

Þess vil ég jafnframt geta, að samkv. veiðilöggjöfinni er óheimilt að reka, getum við sagt, fiskræktarstöð nema aðbúnaður hafi verið samþykktur af Veiðimálastofnun. Og rn. hefur nú ítrekað farið fram á að sótt verði um slíkt. Þetta er í lögum og hjá því verður að sjálfsögðu ekki gengið. Því verða eigendur að senda inn nauðsynleg gögn og fá þau samþykkt eins og lögin krefjast. Á því mun ekki standa að sjálfsögðu ef stöðin fullnægir þessum reglum.

Ég vil jafnframt geta þess, sem mér þóttu heldur slæm tíðindi, að líklega mun hafa verið dreift seiðum frá þessum stofni í Laxalóni á 44 staði á þessu landi eftir að sjúkdómurinn kom upp, en áður en hann uppgötvaðist. Fundist hafa m, a. sýkt seiði í einni á þar sem dreift var. Við skulum vona að meginþorri þessara seiða hafi ekki verið sýktur, og ég er ekki að segja með þessu að svo hafi verið. En þarna sjá menn hvað nærri fór stórslysi.

Ég vil segja að ég hef mjög mikla samúð með Skúla Pálssyni og með brautryðjandastarfi hans og ég vil leyfa mér að segja hans óbilandi kjarki að halda þessu áfram við erfið skilyrði. Hann á heiður skilið fyrir það og sannarlega bætur, eins og hann hefur reyndar fengið töluverðar eins og rakið var af fyrrv. landbrh. Ég vil jafnframt upplýsa að landbrn. hefur skipað þrjá menn til að athuga þetta mál, kanna hvers virði telja megi að sá regnbogasilungsstofn sé, sem þarna er, og hvert tjón hljótist af þeirri meðferð sem krafist er, þ. e. a. s. að stofninum verði eytt og alinn upp nýr stofn. Það tekur nokkurn tíma, nokkur ár. Athugað verður hvort eðlilegt væri á þeirri forsendu að mæla með frekari aðstoð af hendi ríkisvaldsins í þessu sambandi. Því má segja að annar liður þáltill. sé þegar í athugun.

Hins vegar vil ég segja það um þriðja lið: að meta verðmæti stöðvarinnar að Laxalóni með það fyrir augum að Alþ. samþ. að ríkið festi kaup á henni, að mér þykir þar um heldur vafasama hugmynd að ræða og e. t. v. til eftirbreytni þannig að mönnum þætti nóg um. Auk þess er svo, að stöðin að Laxalóni á sér að öllum líkindum ekkí nema örstutta framtíð. Vatnið fer minnkandi þar því að Reykjavíkurborg tekur meira og meira af því. Mér er sagt að svo gæti farið eftir örfá ár, þegar byggðin vex á svæðum sem nú eru skipulögð, að stöðin verði lögð niður. Ekki vil ég ríkinu það að sitja uppi með vatnslausa fiskræktarstöð.

Hins vegar sýnist mér vel koma til greina að byggja upp fiskræktarstöð á Þóroddsstöðum og ekkert óeðlilegt að eigendur fái aðstoð til þess með lánsfé og öðru sem tiltækt er og veitt í þessu skyni. Hins vegar held ég að það hljóti að vera hlutverk þeirra sjálfra að skipuleggja þá stöð, enda hafa þeir góða þekkingu til að bera. Vafasamt er að opinber nefnd fái það verkefni að skipuleggja stöð fyrir einkaaðila.

Þessum upplýsingum vildi ég koma á framfæri. Ég vil jafnframt geta þess, að fyrir nokkrum árum og reyndar hygg ég aftur nýlega hafa veiðiréttareigendur á Suðurlandi varað við því að flytja fisk á þeirra svæði. Þetta var þó því miður þegar gert árið 1977, eins og ég sagði áðan. Þetta andmæli eru fyrst og fremst á því byggð, að menn eru hræddir við þennan sjúkdóm og ekki síður að fá regnbogasilung í vatnið. Hann er að sjálfsögðu keppinautur um þau lífsgæði sem eru í hverju veiðivatni, og menn meta það, hvort þeir vilja heldur íslenska bleikju eða erlendan regnbogasilung. Ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um hvað ég vildi heldur.

Þetta er merkileg starfsemi og sjálfsagt að veita þá aðstoð sem hægt er. Rn. mun hafa að leiðarljósi þetta tvennt: að forðast í lengstu lög að sjúkdómurinn berist út og gera allt til þess að sporna gegn því, en hins vegar gæta réttlætis gagnvart Skúla Pálssyni.