11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4707 í B-deild Alþingistíðinda. (3906)

236. mál, heildarúttekt á fiskiskipaflota landsmanna

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Enda þótt að það sé hálfleiðinlegt að þurfa að flytja mál, er varðar sjávarútveg, án þess að hæstv. sjútvrh. sé viðstaddur, sé ég ekki ástæðu til annars en að verða við því að tala fyrir málinu fyrst það er komið hér á dagskrá.

Ég hef flutt á þskj. 469 till. til þál. um heildarúttekt á fiskiskipaflota landsmanna, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera heildarúttekt á fiskiskipaflota landsmanna, samsetningu hans eftir landssvæðum, aldri skipa, veiðiaðferðum, afkastagetu og efnahagslegu gildi.

Niðurstöður verði lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Í grg. kemur fram, að með tilliti til hins alvarlega ástands fiskstofna við landið hafa umr. farið inn á það svið að fiskiskipafloti landsmanna sé of stór og óhagkvæmur. Háværar raddir heyrast um að tafarlaust verði að minnka fiskiskipaflotann um allt að 20–30 þús. lestir og sumir telja um helming.

Með tilliti til þessara umr. og fullyrðinga hlýtur að teljast nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvernig fiskiskipafloti okkar er samsettur í dag, þar sem fram komi stærð og gerð skipa, aldur og afkastageta við hvers konar veiðar, úthaldsdagar á ári og á hvaða landssvæðum hann er skráður. Þessar upplýsingar hljóta að vera grundvallaratriði þegar rætt er um takmörkun veiða og skynsamlega sókn miðað við afkastagetu fiskstofna og nýtingu. Engar upplýsingar eru aðgengilegar um hversu stór hluti fiskiskipaflotans liggur bundinn í höfn eða stundar veiðar aðeins hluta úr ári.

Það er skoðun mín, að þegar verið er að ræða um takmörkun sóknar í fiskstofna og skipulag og stjórnun fiskveiða þurfi þessar upplýsingar að liggja fyrir svo að hægt sé að gera sér grein fyrir endurnýjunarþörf og ekki síður samsetningu hans og þýðingu miðað við atvinnuuppbyggingu og afkastagetu fiskvinnslustöðva víðs vegar í landinu. Kemur þar til skoðunar staðsetning miðað við nálægð fiskimiða.

Með hliðsjón af ofangreindum þáttum hlýtur að vera eðlilegt að meta efnahagslegt gildi fiskiskipaflotans fyrir viðkomandi byggðarlög og þjóðfélagið í heild.

Viðurkennt er að mestur hluti útflutningsframleiðslu landsins fer fram í hinum mörgu sjávarþorpum og bæjum víðs vegar um land. Víða er framleiðslan svo mikil að miðað við íbúafjölda er hægt að nefna útflutningsverðmæti 2–5 millj. kr. á hvern íbúa staðarins. Það er því ekki ofmælt að tilvera og framtíð þessara byggðarlaga stendur og fellur með fiskveiðum og fiskvinnslu og er um leið undirstaða efnahags þjóðarinnar í heild. Allar ákvarðanir um samdrátt í sjávarútvegi eru því stórmál sem verður að byggja á samræmdum aðgerðum sem byggjast á niðurstöðum sem hefur verið komist að eftir vandlega athugun, þar sem tillit er tekið til ekki aðeins vísindalegra þátta, heldur ekki síður efnahagslegrar og félagslegrar uppbyggingar víðs vegar um landið.

Það er skoðun mín að við eigum að flýta okkur hægt í að minnka fiskiskipaflota okkar, þörf sé á að endurskoða samsetningu flotans, taka tillit til nýrrar tækni og reynslu, sem sífellt er að þróast í tæknivæddum heimi. Benda má á þá staðreynd, að bylting hefur orðið í tæknibúnaði fiskveiða, sem m. a. hefur orðið til þess að íslenski loðnuskipaflotinn afkastar mjög miklu við veiðar. Ef íslenskir útgerðarmenn og sjómenn hefðu ekki verið svo opnir fyrir því að tileinka sér þessar nýjungar og tækni væri floti okkar í dag vanbúinn við þessar veiðar.

Skuttogaravæðingin er mesta framþróun í fiskveiðum okkar fyrr og síðar. Það er skoðun mín að gera þurfi róttækar aðgerðir til að efla skipasmíðaiðnaðinn í landinu, bæði hvað varðar nýsmíði og viðhald skipa. Íslenskir iðnaðarmenn í þessari grein hafa sannað að þeir eru ekki síður færir á þessu sviði en erlendir. Kemur því vel til greina að hefja skipasmíðar fyrir erlendan markað jafnhliða endurnýjun okkar eigin fiskiskipa.

Á þessu þingi hafa komið fram margar þáltill., sem allar fjalla um okkar mesta hagsmunamál, fiskveiðar og fiskvinnslu, en eru ekki útræddar. Það ber að harma. Ég nefni þskj. 39, um skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva, þskj. 113, um aukna nýtingu í fiskvinnslu, þskj. 523, um athugun á hámarksarðsemismöguleikum þorskveiða, þskj. 522, sem er frv. um fiskiverndarsjóð, þskj. 335, um könnun á atvinnu- og efnahagslegum áhrifum takmarkana á fiskveiðum Íslendinga. Allar þessar till. og umr. renna stoðum undir þá skoðun mína og margra annarra að hefja verði tafarlaust samræmda úttekt allra þátta þjóðarbúsins er varða fiskveiðar og fiskvinnslu. Þetta er mikið verk sem kalla þarf til okkar færustu menn. Þessi úttekt verður að vera víðtæk og nákvæm, þar sem hver landshluti er tekinn fyrir og fiskiskipaflotinn, stærð, aldur, veiðiafköst, eins og einhver hefur orðað það: haglýsing fiskiskipaflotans og fiskveiðanna. Miklar upplýsingar liggja fyrir um þessi mál í ýmsum stofnunum, svo sem Fiskifélagi Íslands, Framkvæmdastofnun — byggðadeild, Siglingamálastofnun, sem vissulega auðveldar þessa alhliða úttekt. En það þarf að samhæfa þessar upplýsingar og draga af þeim skynsamlegar ályktanir sem settar séu fram í stefnumótun og umræðum á breiðum grundvelli.

Tillögur fiskifræðinga okkar eru áreiðanlega byggðar á staðreyndum sem við höfum ekki leyfi til að draga í efa. Þess vegna verða stjórnvöld og stjórnmálamenn að hafa yfirlit yfir allar þær staðreyndir sem útgerð okkar og fiskvinnsla byggist á. Öðruvísi er ekki unnt að taka til við skynsamlega stjórn á þessum málum. Ég tel að setja þurfi nú þegar í gang víðtækt samstarf um þetta okkar stærsta mál, samstarf stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila: útgerðarmanna, sjómanna og fiskverkenda, og jafnframt þurfi að fá fiskifræðinga til viðræðufunda með sjómönnum og útgerðaraðilum víðs vegar um landið um hvernig best verði hagað veiðum og vinnslu við þessar aðstæður og í framtíðinni. Ég hef setið slíka fundi og ég veit að þeir hafa áhrif. Fyrrv. sjútvrh., Matthías Bjarnason, boðaði til slíks fundar í Stykkishólmi 1977 með hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, þar sem fiskifræðingar voru einnig. Þar var rætt hispurslaust um vandamálin og komu fram ýmsar fræðandi upplýsingar sem ekki voru öllum kunnar. Ég sat ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands að hluta til nú í vetur um öflun sjófangs. Þar komu fram margir vísindamenn okkar og áhugamenn um sjávarútveg og m. a. aflaskipstjórar. Vil ég fullyrða að allur sá fróðleikur og skoðanir í þeim erindum, er þar voru flutt, er gott innlegg í þá heildarúttekt sem ég tel að verði að gera nú þegar í þessu stærsta máli þjóðarinnar. Við verðum að koma á stefnumótun í fiskveiðum: fiskveiðistefnu. Um það þarf ekki að deila. Þjóð, sem á jafnmikið undir fiskveiðum og við Íslendingar, verður að kunna að stjórna þessum málum.

En málið er ekki einfalt. Það snertir svo til allt okkar efnahagslíf og byggðaþróun. Þess vegna verður að skoða það frá öllum hliðum og vanda betur til en til þessa hefur verið gert. Málið þolir ekki bið. Tillögur og álit fiskifræðinga kalla á raunhæf vinnubrögð sem hæstv. sjútvrh. verður að hafa forustu um með því alhliða samstarfi sem ég hef nefnt. Við erum sjálfsagt öll sammála um nauðsyn þess að takmarka sókn í þorskstofninn með það markmið að byggja hann upp svo að tryggð verði framtíð fiskveiða á Íslandi og um leið framtíð þjóðarinnar. Við verðum að skoða vandlega sókn í aðra fiskstofna. Ég tel nauðsynlegt að fara varlega í síldarstofninn. Við eigum að læra af biturri reynslu fyrri ára. Síldveiðar hafa gífurlegt gildi, ekki síst fyrir bátaflotann. Við þurfum að auka síldarleit og rannsóknir, t. d. á svæðinu fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum. Það er spurning, hvort við eigum ekki svo til eingöngu að veiða síld í reknet. Það tryggir úthald stórs hluta bátaflotans í nokkra mánuði, tryggir gott hráefni og kemur í veg fyrir smásíldardráp.

Hringnótaveiðarnar, ekki síst með loðnunótarveiðarfærum, gáfu ekki góða raun, hafa sennilega valdið meira tjóni í síldveiðum t. d. á s. l. ári en það síldarmagn sem þessi veiðiaðferð kom með að landi, og ber því að takmarka mjög fjölda þeirra í síldveiðum og herða eftirlit. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á athyglisverðar greinar sem birtust í síðasta tölublaði Ægis nú fyrir stuttu, sem ég tel að væri fræðandi fyrir þá menn, sem vilja um þessi mál fjalla, að kynna sér rækilega.

Á undanförnum vertíðum hafa margir fiskimenn verið kvíðnir yfir því, að of geyst hafi verið farið í loðnustofninn. Því miður var þessi kvíði ekki ástæðulaus eins og fiskifræðingar nú hafa tilkynnt um. Mikill vandi er okkur á höndum, en hann er að mínu mati yfirstíganlegur, ef rétt er á haldið. Við ráðum einir yfir fiskimiðunum umhverfis landið. Það er kjarni málsins. Þess vegna getum við leyft okkur hæfilega bjartsýni. Við þurfum að skipuleggja veiðar t. d. bátaflotans. Skoðun mín er sú, að takmarka eigi þorskanetaveiðar miklu meira en nú er gert. Þorskanetaveiðar á svæðinu frá Hornafirði til og með Vestfjörðum ætti aðeins að leyfa frá 20. febr. til 30. apríl ár hvert. Ég tel, að styrkja eigi línuveiðar meira en gert er, og æskilegast, að línuvertíð geti verið óslitið tímabilið sept.–febr. ár hvert. Taka þarf til athugunar að breyta heimildum til togveiða fyrir minni báta á grunnmiðum svæðis- og tímabundið eftir tillögum og undir eftirliti fiskifræðinga. Á þann hátt væri hægt að auka sókn í ýsu og skarkola og um leið gera útgerð smærri bátanna viðráðanlegri og ekki hvað síst tryggja gott hráefni til fiskvinnslu.

Ég fullyrði að bátar á hefðbundnum dragnótasvæðum gætu aflað miklum mun meira en nú er af t. d. skarkola, sem talinn er vannýttur, ef fiskvinnslustöðvar vildu taka á móti því hráefni. Áhugi fiskverkenda og útflutningsaðila hefur ekki verið fyrir hendi og hafa því dragnótabátar sums staðar þurft að forðast skarkolamiðin sem þeir annars mættu veiða miklu meira á. Þessu þarf að breyta með opinberum afskiptum. Það vantar fullkomnar kolaflökunarvélar. Allt ber þetta að sama brunni. Við þurfum skipulag veiða og heildarstjórn sem er grundvölluð af víðtæku samstarfi margra aðila. Á það vil ég leggja höfuðáherslu.

Herra forseti. Við erum fiskveiðiþjóð í fararbroddi. Þess vegna má aldrei draga úr því að við tileinkum okkur þá tækni sem best reynist við fiskveiðar hverju sinni, bæði hvað varðar gerð skipa, tækjabúnað og veiðarfæri. Endurnýjun er nauðsyn, en innan hæfilegra marka. Skip og bátar ganga úr sér á árabili, og er sjálfsagt að meta vandlega hvort hagstæðara er að byggja ný skip frekar en að endurbyggja gömul eða leggja þeim fyrir fullt og allt.

Framkvæmd þessarar þáltill. auðveldar ákvörðun í þessu stóra vandamáli þjóðarinnar. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja hana hér á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég geri að till. minni að eftir þessa umr. verði þessari till. vísað til allshn.