07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Það er ljóst að Íslendingar þurfa að leggja mikið á sig við vinnu til að afla nauðsynlegra þjóðarverðmæta, svo að hér megi almenningur búa mannsæmandi lífi. En það er einnig ljóst, að Íslendingar þurfa að leggja mjög mismunandi mikið af mörkum og launin eru æðioft í öfugu hlutfalli við vinnuálag og vinnuframlag. Því fagna ég þeim umr. sem fram fara um þessi mál, till. hv. þm. Braga Sigurjónssonar um lágmarks- og hámarkslaun. Eigi að síður tel ég ástæðu til að taka að nokkru leyti undir skoðanir hv. þm. Braga Níelssonar varðandi það, að íslensk þjóðfélagsgerð sé e.t.v. þannig að hún eigi erfitt með að innihalda ákvæði nákvæmlega af því tagi sem hér er lagt til. Það má segja að íslenskt samfélag sé að nokkru leyti ein gerð veiðimannaþjóðfélags, þar sem uppgrip af einu og öðru tagi eru oft og tíðum grundvöllur þeirra þjóðarverðmæta sem aflað er hverju sinni. Hitt er aftur á móti rétt, sem í þessari till. til þál. er vakin athygli á, að launabilið í landinu á milli starfsfólks er orðið allt of mikið og allt of hátt. Það er ekki óalgengt að bilið sé núna þetta frá 150 þús. upp í 1 millj. kr. á mánuði eða hærra . Sér hver maður að það stefnir í óefni. Allt virðist benda til þess, að launabilið sé fremur að vaxa en minnka. Og það er ástæða til þess, að launabilið vaxi fremur en minnki þegar t.d. sjálft ríkisvaldið stendur að sérsamningum við ýmsa útvalda forstjóra sína, forstjóra nokkurra ríkisstofnana, eins og t.d. í samningum við forstjóra Járnblendifélagsins, sérsamningum sem ná langt út fyrir alla rammasamninga sem hafa verið gerðir um kaup og kjör við starfsfólk í þjónustu hins opinbera. Þarna sýnir ríkisvaldið alls ekki það fordæmi sem þarf til þess að hægt sé að ná árangri í því að minnka það launabil sem um er að ræða.

Það má einnig segja sem svo, að verkalýðshreyfingin hafi líka að nokkru leyti brugðist á þessum vettvangi. Það hefur ekki skort á fagrar yfirlýsingar forustumanna verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum um það, að rétt væri að leggja nú megináherslu í viðkomandi samningum á rétt þeirra lægstlaunuðu og að laun þeirra verði hækkuð eins og kostur er. En oft og tíðum þegar niðurstaðan hefur komið í ljós virðist annað upp á teningnum. Launabilið hefur þá fremur aukist en minnkað, hinir lægstlaunuðu halda áfram að að vera mjög lágt launaðir, en þeir, sem hærra voru launaðir í verkalýðsfélögum, fengu e.t.v. frekari úrbót.

Þá er einnig rétt að benda á það, að í ríkisgeiranum, og þar á ég fyrst og fremst við æðri stöður ríkisgeirans, á sér stað launabil sem rétt er að fara um nokkrum orðum. Þar á ég við að embættismenn á vegum hins opinbera drýgja tekjur sínar oft og tíðum í vinnutíma í þjónustu hins opinbera með nefndarstörfum ýmiss konar sem þeir fá greitt sérstaklega fyrir. Það má segja sem svo, að það skipti þessa háttsettu opinberu starfsmenn raunverulega litlu máli um hvaða laun sé samið í almennum kjarasamningum. Þeirra hlunnindi og þeirra búbót felst fyrst og fremst í þeim aukagreiðslum sem þeir fá fyrir hin ýmsu nefndarstörf sem þeir eru þátttakendur í, oftast í vinnutíma. Ég tel að ástæða sé til þess, og ég boða það hér, að ég kem til með að bera upp till. síðar þess efnis að stemma stigu við slíkum greiðslum í vinnutíma opinberra starfsmanna.

Ég tel að það sé rétt, að þessi sjónarmið komi hér fram, en ég vil nota tækifærið og hvetja verkalýðshreyfingu, ríkisvald og vinnuveitendur til að sameinast nú í einu átaki um að sýna árangur í verki og minnka það launabil sem í landinu er, þannig að þeir lægstlaunuðu megi búa við betri kjör en þeir hafa gert á undanförnum árum.