14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4725 í B-deild Alþingistíðinda. (3934)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar d. hef ég lýst því yfir, að ég legg til að þetta frv. verði fellt, því að ég er algerlega á móti ákvæðum frv. Eins og ég tók fram í ræðu minni þegar þetta frv. var í þessari hv. d. til 1. umr., þá taldi ég að það mundi ekki þjóna neinum tilgangi að samþykkja þetta frv.

Ég vil ítreka þá skoðun mína, að flutningur þessa frv. er viðurkenning á þeirri staðreynd, að það eru framleiddir með þjóðinni í stórum stíl áfengir drykkir án þess að ríkið hafi af því nokkrar teljandi tekjur, og umbúðalaust má segja það, að flutningur þessa frv. miði ekki endilega að því að hindra að þjóðin neyti áfengis, heldur að slík framleiðsla og slík neysla fari ekki fram nema goldinn sé af því tilskilinn skattur til ríkisins. Það er alveg umbúðalaust tilgangurinn, það þýðir ekkert að vera að kalla það neinu öðru nafni. Keisarinn vill fá það sem keisarans er í þessu máli. Í öllum greinum frv. og í öllum aths., sem fylgja frv., er þetta höfuðatriðið, að setja undir þann leka hjá ríkissjóði sem felst í framleiðslunni á vökvanum sem framleiddur er með þeim ágætu tækjum, sem almenningi hefur verið gert kleift að útvega sér, og úr efninu, sem m. a. var niðurgreitt ásamt öðrum neysluvörum almennings og ríkisstj. taldi vera frumskyldu sína að sjá um, því að það var eitt af hennar fyrstu verkum þegar hún kom til valda.

Í sambandi við þá till., sem hér hefur verið flutt til rökstuddrar dagskrár, segi ég fyrir mitt leyti að ég mundi af tvennu geta vel hugsað mér að greiða þeirri till. atkv., því að ég vil heldur vísa þessu máli til ríkisstj. en að láta það ná fram að ganga. Ég vil þó láta það koma skýrt fram, að ég er ekki alfarið samþykkur þeim forsendum sem fylgja þessari till. um rökstudda dagskrá.

Ég er það raunsær að mér finnst felast í því mikil óskhyggja, að það sé æskileg þróun að ríkisstj. byggi sem minnst á tekjum af áfengissölu. Ég held að hvorki hv. flm. þessarar till.alþm. almennt geti nokkru breytt um það að áfengisneysla haldi áfram með þjóðinni. Og meðan hún heldur áfram sé ég ekkert athugavert við að þetta sé góður og gildur skattstofn handa ríkissjóði. Ég sé ekkert athugavert við að ríkissjóður fái gjald af þessari munaðatvöru, og má vera veigamikill tekjustofn að mínu mati hjá ríkissjóði gjald af munaðarvöru sem alveg er útilokað að komast hjá að þjóðin neyti. Ég sé ekkert athugavert við að sá háttur sé á hafður, enda er þetta viðurkennd tekjuöflunarleið hjá öllum hinum vestrænu þjóðum og öllum menningarþjóðum, — einn af sterkustu og traustustu tekjustofnunum fyrir þjóðfélagið, og ég sé ekkert athugavert við það.

Hins vegar finnst mér, eins og ég benti á við 1. umr. þessa frv., ekki til nema ein leið til þess að mæta þeim tekjumissi sem ríkissjóður verður fyrir vegna hinnar miklu framleiðslu á öllum tegundum áfengra drykkja hjá þjóðinni, bæði öli, vínum og öðru, og hún er sú að taka upp eðlilega samkeppni. Það á að hafa áfengt öl til sölu og dreifingar hjá ríkinu, og ef einstaklingurinn skapar svona sterka samkeppni í sambandi við framleiðsluna, þá teldi ég ekki úr vegi fyrir Áfengisverslun ríkisins að lækka til að mynda svolítið verðið á léttu vínunum. Ég fullyrði að ef almenningur ætti þess kost að kaupa t. d. venjulegt létt áfengt öl, sem hefði t. a. m. áfengisstyrkleika 3–3.5%, jafnvel með því ránverði sem mundi verða á þessum drykk eftir að ríkisvaldið væri búið að handfjalla hann og leggja á hann, þá mundu menn ekki nenna að standa í því að brugga, menn mundu glaðir fara út í búðina og borga veigarnar margföldu verði, ef þetta væri fáanlegt á markaðnum. Lausnin á þessu máli er því ekki að flytja frv. til l. um að stofna til einkasölu á einhverjum gerlum og sveppadóti sem notað er í sambandi við þetta. Það fer helmingur þjóðarinnar í siglingu á hverju ári, og mér hefur verið sagt af kunnugum mönnum að maður geti stungið í vasann umslagi sem dugi til framleiðslu á ég veit ekki hve mörgum þúsundum lítra af þessu dótaríi, svo að þá sjá allir hvaða gagn er að svona frv.

Nei, ég held að það sé langsamlega best fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli og eiga að sjá um þetta, að viðurkenna einfaldlega blákaldar staðreyndir. Það er bruggað og það er bruggað í stórum stíl. Við skulum útiloka bruggið með því að hafa þessar vörur til sölu á frjálsum markaði við sæmilegu og sanngjörnu verði.