14.05.1979
Efri deild: 100. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4728 í B-deild Alþingistíðinda. (3943)

300. mál, öryggi á vinnustöðum

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Í tengslum við gerð kjarasamninga vorið 1977 var undirritað samkomulag hinn 19. apríl 1977 milli Alþýðusambands Íslands annars vegar og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hins vegar um að fara þess á leit við ríkisstj., að hún hlutaðist til um að skipuð yrði nefnd til þess að semja nýtt lagafrv. um aðbúnað, hollustuhætti og vinnuumhverfi verkafólks almennt. Í samkomulagi þessu var enn fremur tekið fram:

að í nýrri löggjöf um þetta efni yrði ákveðið að ein eftirlitsstofnun sjái um framkvæmd laganna í stað þeirra sem nú heyra undir ýmis rn.,

að í lögunum verði ótvíræð ákvæði um skyldu eftirlitsstofnunar til þess að banna vinnu verkafólks á þeim vinnustöðum sem ekki eru búnir í samræmi við lög, reglugerðir eða fyrirmæli eftirlitsstofnunar,

að nefndin verði skipuð fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og sérfróðum mönnum í þessum málum,

að gerð verði sérstök könnun og úttekt á ástandi aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustöðum, og loks, að gert væri ráð fyrir að nefndin lyki störfum innan 12 mánaða.

Í júní 1977 gaf þáv. ríkisstj. út yfirlýsingu þar sem staðfest er framangreint samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Í framhaldi af þeirri ákvörðun ríkisstj. skipaði þáv. félmrh. hinn 14. sept. 1977 nefnd til að semja frv. til l. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Formaður var skipaður Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri, en ásamt honum voru skipaðir Bolli B. Thoroddsen hagræðingarráðunautur, Karl Steinar Guðnason formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og Guðjón Jónsson formaður Málmiðnaðarsambands Íslands, tilnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Barði Friðriksson hrl. og Geir Þorsteinsson verkfræðingur, tilnefndir af Vinnuveitendasambandi Íslands, Júlíus Kr. Valdimarsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Friðgeir Grímsson öryggismálastjóri, tilnefndur af Öryggiseftirliti ríkisins, og Hrafn V. Friðriksson forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins, tilnefndur af Heilbrigðiseftirliti ríkisins.

Nefndin tók þegar til starfa og hélt sinn fyrsta bókaða fund 21. sept. 1977, en alls urðu bókaðir nefndarfundir 60 talsins, auk þess sem fjallað var um einstök mál og efnisatriði af undirnefndum milli reglulegra funda.

Hinn 20. apríl 1979 afhenti nefndin mér frv. það sem hér liggur fyrir. Standa að því átta af níu nm., sem hafa einróma orðið sammála um allar greinar frv. og aths. er því fylgja. Einn nm., Hrafn V. Friðriksson, skilaði séráliti sem prentað er sem sérstakt fskj. með frv.

Eins og hv. þm. sjá er frv. þetta mjög ítarlegt og eru í því mörg athyglisverð nýmæli og breytingar frá eldri lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ. e. frá lögum nr. 23 frá 1. febr. 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, og lögum nr. 12 frá 17. mars 1969 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Frv. þessu fylgir ítarlegur inngangur og almennar aths. auk aths. við einstakar greinar.

Í skipunarbréfi nm. segir að stefnt skuli að því, að ný lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum taki gildi eigi síðar en 1. jan. 1979. Eins og hv. þm. sjá er í frv. þessu gert ráð fyrir, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1980 eða ári síðar en stefnt var að í upphafi, og er það af ástæðum sem ég mun hér greina frá. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m. a. svo:

Ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því, að næstu mánuði verði gerð sérstök athugun á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Athugun þessi mun ná til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða og skal gerð í því skyni að knýja á um úrbætur á aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum. Gert er ráð fyrir því, að nefndin leggi á ráðin um þessa könnun og fylgist með henni, og skal hafa niðurstöður könnunarinnar til hliðsjónar við undirbúning lagasetningar um það mál sem hér er um fjallað.“

Þegar til kastanna kom reyndist mjög tímafrekt að koma athugun þessari af stað, enda þótt ákveðið hefði verið strax á fyrsta fundi nefndarinnar 21. sept. 1977 að aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér saman um hvaða vinnustaði skyldi athuga og að Heilbrigðiseftirlitið og Öryggiseftirlitið skyldu síðan sjá um framkvæmd hennar. Á fundi í nefndinni 13. jan.1978 var lagður fram sameiginlegur listi fulltrúa ASÍ og atvinnurekenda í nefndinni yfir 160–170 fyrirtæki víðs vegar um landið sem fyrrgreind könnun skyldi taka til.

Af ýmsum ástæðum, sem ekki munu hér tíundaðar, komst könnun þessi bæði seint af stað og miðaði miklu hægar áfram en vonir þeirra nm., sem að frv. þessu standa, höfðu staðið til. Nefndin hefur lagt á ráðin um könnun þessa bæði með ákvörðun úrtaks þeirra fyrirtækja, sem skoðuð skyldu, og hverra upplýsinga skyldi leitað um ástand varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum þessara fyrirtækja. Nánari útfærsla og framkvæmd sjálfrar könnunarinnar hefur hins vegar verið sameiginlega hjá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Öryggiseftirliti ríkisins. Því verki er um það bil að ljúka. Úrvinnsla úr gögnum varðandi könnunina er ekki hafin enn þá og ekki er vitað hvenær niðurstöður könnunarinnar liggja endanlega fyrir. Engu að síður telja nm. þeir, sem að frv. þessu standa, að niðurstöður könnunarinnar muni ekki breyta neinu um gerð eða efni frv. þessa, en þær muni hins vegar verða ómissandi við samningu reglugerðar og reglna sem kveðið er á um í frv. að settar skuli, enda beri að hafa í huga að hér sé um rammalöggjöf að ræða þótt hún sé sem slík vissulega mjög ítarleg.

Í aths. við frv. þetta er tekið fram að nefndin hafi gert sér far um að einfalda frv., forðast skörun við önnur lög og leitast við að skilgreina hugtök, sem um er fjallað í frv., eins nákvæmlega og henni hefur verið unnt.

Við samningu frv. hafa fyrst og fremst verið hafðar í huga íslenskar aðstæður, en einnig m. a. verið höfð hliðsjón af nýlegri löggjöf um sama efni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð svo og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þá hefur verið stuðst við drög að frv. til l. um vinnuvernd, er nefnd, sem Hjálmar Vilhjálmsson fyrrv. ráðuneytisstjóri var formaður í, vann að á árunum 1973–1975 í samræmi við málefnasamning þáv. ríkisstj. Lög nr. 23 1. febr. 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, með síðari breytingum hafa verið höfð til hliðsjónar við samningu frv. svo og lög nr. 12 frá 17. mars 1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, heilbrigðisreglugerð nr. 45 frá 1972, lög nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, ásamt fjölda annarra laga og reglugerða, sbr. fskj. I er fylgir frv. þessu.

Ýmis ákvæði í gildandi lögum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum hafa verið tekin efnislega upp í lagafrv., svo sem ýmsar skilgreiningar, en í samræmi við þá ákvörðun nefndarinnar að vinna með frv. að rammalöggjöf er í frv. gert ráð fyrir að ýmis ákvæði laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum verði felld inn í reglugerðir og reglur sem settar verði í samræmi við ákvæði frv. Gert er ráð fyrir að við setningu reglugerðar verði, eins og áður er að vikið, höfð hliðsjón af niðurstöðum vinnustaðakönnunar.

Nefnd sú, sem samdi frv. þetta, hefur, meðan hún vann að samningu þess, leitað samráðs við fjöldamargar stofnanir og einstaklinga, bæði þá, sem lögum samkv. eiga að hafa eftirlit á vinnustöðum hér á landi, og enn fremur þá, sem eiga að hafa eftirlít með starfsemi sem lagt er til að verði undanþegin lögunum, þ. e. Siglingamálastofnun ríkisins og Loftferðaeftirlit ríkisins, varðandi sameiginleg málefni. Hér má til nefna Bifreiðaeftirlit ríkisins, Búnaðarfélag Íslands, eiturefnanefnd, Flugmálastjórn (loftferðaeftirlit), Framleiðslueftirlit sjávarafurða, Hagstofu Íslands, heilbr.- og trmrn., landlæknisembættið, Rafmagnseftirlit ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins, og yfirdýralækni. Enn fremur hefur verið haft samband við ýmsa sérfræðinga í rn., svo sem landbrn., menntmrn. og iðnrn., og enn fremur við nefnd þá sem endurskoðar lög nr. 12 frá 1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Við samningu þessa frv. hefur nefndin unnið samkv. því meginsjónarmiði, að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum verði sem allra mest innan vinnustaðanna sjálfra. Í frv. þessu er í samræmi við samkomulagið frá 19. apríl 1977 lagt til að ein stofnun, sem nefnd er Vinnueftirlit ríkisins, sjái um framkvæmd laganna, ef lögfest verða, sbr. XII. kafla frv. Í þessu sambandi er lögð rík áhersla á nauðsyn náins samstarfs allra þeirra aðila sem hafa eftirlit á vinnustöðum til þess að komið verði í veg fyrir tvöfalt og oft margfalt eftirlit með sama þætti á vinnustað, eins og nú vill brenna við.

Eins og segir í hinum almennu aths, sem fylgja frv. þessu, er gildissvið laganna rýmkað frá lögum nr. 23 frá 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, og gilda þau um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri starfsmenn vinna, og einnig um þá starfsemi, þar sem eigandi vinnur einn í fyrirtæki sínu. Lögin um öryggisráðstafanir á vinnustöðum taka aðeins til starfsemi þar sem tveir starfsmenn eða fleiri vinna. Frv. tekur til skrifstofuvinnu og vinnu við landbúnaðarstörf sem undanskilin eru í lögum nr. 23 frá 1952. Á sama hátt og er í þeim lögum eru siglingar, fiskveiðar og loftferðir undanþegin í þessu frv.

Samkv. gildandi lögum fer dómsmrn. með mál er varða öryggisgæslu á vinnustöðum og Öryggiseftirlit ríkisins, sbr. lög nr. 73 28. maí 1969 og auglýsingu um reglugerð nr. 96 1969, um Stjórnarráð Íslands. Í frv. er lagt til að félmrh. fari með mál er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Er það í samræmi við skipun nefndarinnar og þá skoðun hennar, að þessi mál eigi að heyra undir félmrn., enda falla málefni vinnumarkaðarins undir það rn.

Frv. sjálft er, eins og hv. þm. sjá, í 16 köflum og 100 greinum, skipt niður eftir efni.

Í I. kaflanum er fjallað um tilgang og gildissvið laganna og eins og ég áður gat um er gildissviðið rýmkað verulega frá því sem er í gildandi lögum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum.

II. kafli laganna fjallar um öryggis- og heilbrigðisstarfsemi innan fyrirtækja og samskipti atvinnurekenda og starfsmanna. Hér er lögð á það megináhersla, að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi verði sem allra mest innan fyrirtækjanna sjálfra og að atvinnurekendur og starfsmenn skipuleggi sameiginlega á vinnustöðum ráðstafanir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Eru ákvæðin um þetta að verulegu leyti nýmæli.

Í III. kafla er fjallað um öryggisnefndir sérgreina og er þar að finna ýmis nýmæli, svo sem að gert er ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins stofni öryggisnefndir í hinum ýmsu starfsgreinum sem fái m. a. til umsagnar nýjar reglugerðir og reglur, sem settar verða, og leggi jafnframt fram hugmyndir og till. um breytingar á gildandi reglum varðandi hlutaðeigandi starfsgreinar.

Í IV. kafla er fjallað um almennar skyldur, þ. e. skyldur atvinnurekenda, verkstjóra, starfsmanna, seljenda, verktaka o. fl. Í þessum kafla eru skyldur atvinnurekenda ítarlega skilgreindar. Hið sama gildir um skyldur verkstjóra, starfsmanna svo og þeirra sem selja, setja upp, gera við, lána út, leigja eða hanna vélar, tæki, áhöld og annan búnað sem ætlaður er til notkunar við atvinnurekstur.

Þá er í þessum kafla að finna nýmæli um að leiðbeiningar um meðferð, viðhald, flutning, uppsetningu og frágang skuli vera á íslensku og varðandi merkingar véla og tækja svo og ákvæði um skyldu hönnuða og ráðgjafa. Jafnframt er kveðið svo á í þessum kafla, að reglur varðandi búnað skuli gilda um meðferð hættulegra efna og vara.

Í V. kafla er fjallað um framkvæmd vinnu. Er þar að finna fyllri ákvæði um það efni en eru í gildandi lögum. Í kaflanum er gert ráð fyrir að stjórn Vinnueftirlits ríkisins setji nánari reglur um hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu. Að fylgja skuli viðurkenndum stöðlum er nýmæli í frv. sem þessu hér á landi, en þar sem staðlar eru sífellt að færast nær því að vera samnorrænir eða nánast alþjóðlegir þykir þeim, sem samið hafa frv., rétt að tekið sé mið af þeim auk þess sem notkun staðla vísi til samræmingar og einföldunar.

Í VI. kafla er fjallað um vinnustaðinn og er þar að finna skilgreiningu á hugtakinu vinnustaður, sem er nýmæli. Þá er kveðið á um það, hvernig vinnustaður skuli úr garði gerður, og fjallað um reglur og fyrirkomulag fastra og bráðabirgðavinnustaða.

Í VII. kafla er fjallað um vélar, tækjabúnað o. fl. Þar eru skilgreiningar á fimm flokkum véla og ná þær yfir allar vélar sem knúðar eru af öðrum vélum eða knýja aðrar vélar. Skilgreiningar þessar eru ekki til annars staðar svo að vitað sé. En þær auðvelda setningu á reglum og reglugerðum varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi þeirra sem starfa við eða eru í nánd við vélar. Í kafla þessum er það nýmæli í íslenskum, lögum, að banna megi framleiðslu og innflutning á hættulegum búnaði. Í gildandi lögum er tíðni skoðana fastbundin minnst einu sinni á ári. Þessar reglur hafa um of bundið hendur Öryggiseftirlits ríkisins miðað við mismunandi þarfir; m. a. fyrir strjálli skoðanir. Samkv. ákvæðum í þessum kafla hefur Vinnueftirlit ríkisins frjálsar hendur að setja reglur í samræmi við raunverulegar þarfir auk þess sem gert er ráð fyrir mun víðtækara starfssviði, svo sem varðandi farandvélar, farandvinnuvélar og búvélar.

Í VIII. kafla er fjallað um efni og vörur sem geta verið hættuleg eða á annan hátt stofnað heilsu manna og öryggi í voða. Um slík efni og vörur gilda ákvæði laga nr. 85 frá 31. des. 1968, um eiturefni og hættuleg efni. Í 20. gr. þeirra laga segir að öryggismálastjóri hafi eftirlit um framkvæmd ákvæða laganna svo fremi það sé í verkahring hans. Í þessum kafla frv. er gert ráð fyrir að forstjóri Vinnueftirlits ríkisins taki við þessu hlutverki, og í kaflanum eru ákvæði sem skilgreina skyldur Vinnueftirlits ríkisins nánar í þessu tilliti. Í kafla þessum er sú skylda lögð á Vinnueftirlit ríkisins að gefa út leiðbeiningar um ýmis atriði er varða hættuleg efni og vörur, og enn fremur er gert ráð fyrir að stofnunin geti í samráði við heilbrigðisyfirvöld og aðra aðila, eins og t. d. Iðntæknistofnun Íslands, bannað framleiðslu, flutning og notkun hættulegra efna og vara. Yfirleitt má segja að í kafla þessum sé að finna ítarlegri ákvæði um hættuleg efni og vörur en eru í lögum nr. 23 frá 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum að því er varðar meðferð þeirra á og hugsanleg áhrif á starfsmenn og starfsumhverfi.

Í IX. kaflanum er fjallað um hvíldartíma og frídaga. Samfelldur lágmarkshvíldartími skal vera 8 klukkustundir samkv. gildandi lögum. Samkv. ákvæðum þessa kafla á hann að vera 10 klukkustundir. Gert er ráð fyrir að leyfð séu ákveðin frávik frá þessu atriði þegar nauðsyn ber til, en slíkt er háð samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og samþykki Vinnueftirlits um framkvæmd. Þá eru í þessum kafla ítarleg ákvæði um vikulegan frídag og frávik frá honum. Meginstefnan í þessum kafla er að lágmarkshvíldartími er lengdur. Hins vegar þykir óhjákvæmilegt að hafa þar ákvæði sem leyfa viss frávik vegna sérstakra aðstæðna og atvinnuhátta.

Ákvæðin í kaflanum varðandi samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd eru til áréttingar um að samtök launþega og atvinnurekenda geri samkomulag sín á milli um nánari útfærslu hvíldar- og frídagaákvæða, sbr. ákvæði þau sem þegar er að finna um hliðstæð efni í samningum ýmissa stéttarfélaga.

Í X. kafla er fjallað um vinnu barna og unglinga og eru þau mun ítarlegri en núgildandi ákvæði í lögum nr. 23 frá 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Með ákvæðunum í þessum kafla er leitast við að tryggja að börn og ungmenni vinni ekki störf sem eru hættuleg heilsu þeirra eða þroska, en jafnframt viðurkenndur réttur þeirra til þess að fá vinnu við sitt hæfi. Á þetta bæði við tegund starfs og lengd vinnutíma.

Í XI. kafla um heilsuvernd, læknisskoðanir og aðrar rannsóknir er fjallað um atvinnusjúkdómavarnir. Gert er ráð fyrir að sú starfsemi verði innan heilbrigðiskerfisins og sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði falin heilsuvernd starfsmanna í samræmi við gildandi lög um heilbrigðisþjónustu. Eru þessi ákvæði mun ítarlegri en er í gildandi lögum um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Í samræmi við tilgang frv. um að vandamál varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi sé hægt að leysa innan vinnustaðanna sjálfra er í þessum kafla áréttuð skylda Vinnueftirlits ríkisins til að hlutast til um að einstökum starfsmönnum eða hópum starfsmanna sé veitt fræðsla um þau atriði í starfsumhverfi þeirra, sem geta verið hættuleg, þegar skilyrði teljast varasöm heilsu þeirra eða öryggi.

Í XII. kafla er fjallað um Vinnueftirlit ríkisins. Með stofnun Vinnueftirlits ríkisins er leitast við að færa undir eina stofnun allt eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum sem lög þessi ná til. Slíkt eftirlit hefur hingað til verið í höndum fleiri stofnana og rn., en það fyrirkomulag hefur leitt til margvíslegra vandkvæða og öryggisleysis í framkvæmd. Hlutverk Vinnueftirlits ríkisins er ítarlega skilgreint í XII. kafla laganna og er þar m. a. kveðið svo á að ráðh. skuli skipta stofnuninni í deildir og landinu í eftirlitssvæði. Ég vil í því sambandi vekja athygli hv. þm. á að samkv. 4. mgr. 73. gr. frv. skal ráðh. skipta Vinnueftirlitsstofnuninni í deildir, svo sem rekstrardeild, eftirlitsdeild, fræðslu- og upplýsingadeild, brunamáladeild, atvinnusjúkdóma- og heilsugæsludeild o. fl., að fengnum till. stjórnar stofnunarinnar, og verða nánari ákvæði um framkvæmd deildaskiptingar þessarar settar með reglugerð.

Um eftirlitsstörf eru almenn ákvæði, en gert er ráð fyrir að ráðh. setji stofnuninni starfsreglur. Þessi almennu ákvæði hafa hins vegar verið skert og færð í form sem talið er að geti hentað einnig í afbrigðilegum tilvikum. Er stefnt að því, að Vinnueftirlit ríkisins geti betur komið á umbótum en reynst hefur kleift samkv. gildandi lögum.

Í þessum kafla er gert ráð fyrir að stjórn Vinnueftirlits ríkisins sé skipuð sjö mönnum: Alþýðusamband Íslands tilnefni þrjá stjórnarmenn, Vinnuveitendasamband Íslands tvo og Vinnumálasamband samvinnufélaganna einn og ráðh. skipi einn stjórnarmanna án tilnefningar. Er þetta með svipuðum hætti og er um skipun Öryggisráðs samkv. núgildandi lögum og í samræmi við samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að forstöðumenn eða talsmenn BSRB hafa gert aths. varðandi stjórn stofnunarinnar. Þeir telja að hún eigi fyrst og fremst að vera skipuð af fagmönnum, óháðum aðilum vinnumarkaðarins, óháðum þeim sem jafnframt eru að semja um kaup og kjör starfsmanna. Þá telja talsmenn BSRB að þau samtök eigi að fá aðild að stjórninni ef hún verður skipuð svipað og frv. gerir ráð fyrir. Ég beini því til félmn. þessarar hv. d. að hugleiða hvort og þá að hve miklu leyti þessi sjónarmið talsmanna BSRB eigi rétt á sér.

Stjórn Vinnueftirlits ríkisins hefur samkv. ákvæðum þessa kafla víðtækt vald til aðgerða og ráðstafana til verndar starfsfólki við vinnu og getur m. a. látið stöðva vinnu og hætta starfsemi, ef aðstæður og eða ástand á vinnustað gefur tilefni til þess. Jafnframt geta öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og verkstjórar hlutast til um að vinna skuli stöðvuð strax, komi upp bráð hætta á vinnustað og bilun verður á vinnutækjum og vélum.

Í 77. gr. frv. er fjallað um kostnað við starfsemi Vinnueftirlits ríkisins. Það nýmæli er í þessari grein, að gert er ráð fyrir að kostnaður við Vinnueftirlit ríkisins verði borinn uppi af iðgjöldum sem reiknast á sama hátt og iðgjöld til slysatrygginga, sbr. lög um almannatryggingar. Nefndin taldi rétt að fara þessa leið, þar sem í ljós hefur komið að gjaldskrárfyrirkomulag það, sem gilt hefur hjá Öryggiseftirliti ríkisins og byggt er á lögum nr. 23 frá 1952, hefur reynst illa og verið kostnaðarsamt í framkvæmd. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta nýmæli, en vildi vekja athygli hv. þm. á mjög ítarlegum aths. við þessa grein í heild, sem er að finna í frv.

Í XIII. kafla frv. er fjallað um tilkynningarskyldu fyrirtækja, veitingu starfsleyfa o. fl. Ekki er ofmælt að segja að tilkynningarskylda atvinnurekenda um tilvist, starfrækslu og breytingu fyrirtækja hafi til þessa verið ærið flókin og allmjög á reiki. 3. og 11. gr. laga nr. 23 frá 1952, um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, fjalla um þessi atriði, en framkvæmd á þeim lagagreinum hefur ekki verið á þann veg að að gagni hafi komið. Tilkynningarskylda er því í frv. með einfaldari hætti en áður var.

XIV. kaffi frv. fjallar um málskot, XV. kafli um viðurlög við brotum á lögunum og hvernig með skuli fara, og XVI. kafli fjallar um gildistöku laganna og hvaða lög eru felld úr gildi með samþykkt þeirra.

Loks vil ég víkja nokkrum orðum að þeim þremur bráðabirgðaákvæðum sem fylgja frv.

Nm. þeim, sem sömdu frv. þetta, þótti nauðsynlegt að veita forstjóra Vinnueftirlits ríkisins heimild til þess að veita starfsemi, sem við gildistöku laganna brýtur að einhverju leyti í bága við ákvæði þeirra, tiltekinn frest til aðlögunar og fjallar fyrsta bráðabirgðaákvæði frv. um það efni.

Í öðru bráðabirgðaákvæði frv. er kveðið svo á, að reglugerð og reglur samkv. lögum þessum skuli setja svo fljótt sem verða má og þar til þær hafi verið staðfestar skuli þær reglur og reglugerðir, sem nú gilda um þau mál er lög þessi taka til, vera í gildi, enda brjóti ákvæði þeirra eigi í bága við ákvæði laga þessara.

Í þriðja og síðasta bráðabirgðaákvæði frv. segir, að Seðlabanki Íslands skuli árlega á næstu fimm árum útvega fjármagn, 300 millj. kr. á ári miðað við verðlag 1. jan. 1979, til lánveitinga til fyrirtækja sem þurfa að framkvæma endurbætur á vinnuaðstöðu starfsfólks eða til þess að bæta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Tryggja skuli að lánsféð verði eingöngu notað til endurbóta á almennu starfsumhverfi starfsfólks hjá fyrirtækjum sem eru í rekstri við gildistöku þessara laga. Lánstími skal vera allt að fimm ár. Alþýðusamband Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni fulltrúa til þess að fjalla um lánaþörf og lánveitingar ásamt fulltrúum stjórnvalda.

Í aths. við ákvæði þetta er fram tekið að það sé sett í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. sem undirritað var 19. apríl 1977.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til félmn. þessarar hv. d. og til 2. umr.