08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu litlu við það að bæta sem ég sagði við umr. um þetta mál fyrr, en það, sem kom mér til að biðja um orðið aftur, voru ummæli hv. þm. Braga Níelssonar, þar sem hann sagði, að gatnagerðargjöldin væru einn versti skattur sem á væri lagður, og vildi telja, að þau væru mjög óvinsæll skattur. Ég er algerlega andvígur þessu. Ég tel mig hafa reynslu af þessu í samskiptum við sveitarstjórnarmenn og fólk sem hefur fundið þessa miklu breytingu, þessa byltingu sem hefur orðið víða um landið nú síðari árin, og ég vil beina því til hv. þm., að þessi bylting hefði ekki orðið eins ör og hún hefur orðið nú á síðari árum ef gatnagerðargjöldin, þ.e.a.s. þessi gjaldstofn sveitarfélaga, sem varð til að þeirra eigin frumkvæði, hefðu ekki orðið að veruleika. Þetta er staðreynd sem er rétt að sé undirstrikuð.

Ég vil einnig geta þess, að í lögunum 1973 var ekki gert ráð fyrir afturvirkni í sambandi við gatnagerðargjöldin, en var breytt 1975, eins og hér hefur komið fram, vegna kröfu stærri bæjarfélaga, t.d. Akraness, til þess að fá meiri tekjur til að endurbæta það kerfi sem var fyrir, eins og ég sagði hér síðast.

Ég vil geta þess líka við þessar umr., að hvert sveitarfélag, sem ákveður að leggja á gatnagerðargjöld, byrjar á því að setja sér reglugerðir sem síðan eru staðfestar af viðkomandi rn. Í lögunum er einmitt að finna skýr ákvæði um að það er á valdi hverrar sveitarstjórnar að undanskilja það fólk skattlagningu sem verst er sett í hverju sveitarfélagi, og það á ekki síst við eldra fólkið og öryrkja. Mér er kunnugt um það, að einmitt í mörgum sveitarfélögum er þetta haft að reglu, sem er auðvitað sjálfsögð, til þess að íþyngja ekki þeim borgurum sem verst ern settir á þessu sviði. Sem betur fer er þetta að verða víðast meginregla.

Af því að það kom fram í sambandi við umr. um þéttbýlisvegafé, að það þyrfti að breyta þeim reglum, vil ég aðeins segja það, að skipting þessa fjármagns hefur verið þannig, eins og öllum er kunnugt, að þar er fyrst og fremst farið eftir höfðatölureglunni, þannig að meiri hluti þessa fjármagns á undanförnum árum hefur farið til þéttbýlisins og þá fyrst og fremst til Reykjavíkur. Um þetta hafa að vonum staðið miklar deilur í samtökum sveitarfélaga og ekki verið allir á sama máli. En mér finnst aðalatriðið í þessu máli vera það, að menn séu sammála um þörfina á aukið fjármagn til að setja varanlegt slitlag á vegi sem víðast þar sem þéttbýli hefur myndast. Það er grundvallaratriði. Það er eitt af þeim atriðum sem er raunar sjálfsagt að séu fyrir hendi, þar sem það tryggir búsetu og gerir mönnum kleift að lifa mannsæmandi lífi.