14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4739 í B-deild Alþingistíðinda. (3957)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Félmn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til l. um aðstoð við þroskahefta. Frv. þetta er heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra, sérstaklega að því er varðar félagsleg málefni þeirra, en tekur ekki sérstaklega til sérkennslumála þroskaheftra, þar sem þau eiga að vera vel tryggð í grunnskólalögunum.

Þar sem frv.-drögin voru send til umsagnar ýmsum aðilum sem hagsmuna eiga að gæta í þessu sambandi, svo sem Landssamtökunum Þroskahjálp og aðildarfélögum þeirra, auk þess sem fulltrúi landssamtakanna átti sæti í þeirri nefnd, sem vann að þessu frv., auk fulltrúa þeirra rn. sem um málefni þroskaheftra fjalla, taldi n. að frv. hefði fengið mjög ítarlega meðferð og umfjöllun hjá þeim aðilum, sem málið snertir, og sá ekki ástæðu til aths. við greinar eða efni frv. Einnig er ljóst að heildarlöggjöf um málefni þroskaheftra hefur verulega staðið eðlilegri þróun þeirra mála fyrir þrifum, þar sem alla samræmingu og heildarstjórn hefur vantað í málefnum þeirra, sem eðlilega leiðir af því, að þrjú rn., heilbr.- og trmrn., menntmrn. og félmrn., hafa fjallað um málefni þeirra.

Í meðförum Ed. var gerð veigamikil breyting á þá leið, að frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, sem samþ. hefur verið hér í hv. d., hefur verið fellt inn í frv. Taldi félmn. Ed að vegna stjórnunarlegs ósamræmis væri erfitt að samþykkja þessi frv. sitt í hvoru lagi. Gerði félmn. Ed. m. a. þá breytingu að taka inn stjórnarskipunina eins og ráð var fyrir gert í frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja, þannig að auk fulltrúa þriggja rn. eiga einnig sæti í stjórnarnefndinni fulltrúar Öryrkjabandatagsins og Þroskahjálpar.

Í frv. um aðstoð við þroskahefta var ekki gert ráð fyrir neinni sérstakri fjármögnun til verkefnanna, nema það sem lagt er fram á fjárlögum hverju sinni. Hér er því um veigamikla og brýna nauðsyn að ræða þar sem Framkvæmdasjóðurinn er, því að með tilkomu hans er tryggt fjármagn til að framkvæma þessi verkefni, sem verulega hafa verið afskipt og dregist aftur úr öðrum hliðstæðum og sambærilegum málum heilbrigðra, t. d. kennslumál þroskaheftra. En jafnframt því að fjármagna verkefnin í frv. um aðstoð við þroskahefta á sjóðurinn einnig að fjármagna þær framkvæmdir sem frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja upphaflega gerði ráð fyrir, sérkennsluverkefni grunnskólalaganna og verkefni samkv. lögum um endurhæfingu.

N. hafði fjallað mjög ítarlega um Framkvæmdasjóð öryrkja og nauðsyn hans, þegar hann var til meðferðar í n. fyrr í vetur, og sá ekki ástæðu til að gera neinar breytingar eða aths. við þá tilhögun sem orðið hefur á málum við meðferð hans í Ed. Félmn. mælir því með samþykkt frv. um aðstoð við þroskahefta með þeirri breytingu sem á því hefur orðið í Ed., þ. e. sameiningu og samræmingu þessa frv. við frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja.

Þótt ýmsir hv. þm. geri aths. við fyrirhugaða fjármögnun til verkefnanna hljóta þeir að viðurkenna, með hliðsjón af hve lítið hefur verið veitt á fjárlögum til málefna þroskaheftra mörg undanfarin ár, að brýna nauðsyn beri til að bæta hér úr, og nauðsyn þessarar fjármögnunar því ótvíræð þó að þessi leið sé valin.

Leggur n. áherslu á að þessi hv. d. hraði nú afgreiðslu málsins svo að frv. verði að lögum á þessu þingi. Samþykkt þessa frv. væri veruleg viðurkenning á jafnréttisbaráttu þroskaheftra, áfangi sem mun ótvírætt sýna okkur árangur á næstu árum í aukinni sjálfsbjargargetu og betri tímum fyrir þroskahefta.

N. mælir því eindregið með samþykkt frv., en undir það skrifa Jóhanna Sigurðardóttir, Gunnar Thoroddsen, Eðvarð Sigurðsson, Eggert Haukdal og Páll Pétursson með fyrirvara um 25. gr. frv. Stefán Valgeirsson og Gunnlaugur Stefánsson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.