14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4742 í B-deild Alþingistíðinda. (3963)

243. mál, jarðræktarlög

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Samkv. jarðræktarlögum nr. 79 frá 1972 eru veittir ýmsir styrkir úr ríkissjóði til jarðabóta og húsabóta. Þessir styrkir eru ákveðnir svo og svo miklir á hvern rúmmetra skurðar og fermetra ræktaðs lands o. s. frv. Styrkir þessir eru jafnframt verðtryggðir og greiðast ári eftir að framkvæmdin hefur orðið.

Nú er ljóst, miðað við þann samdrátt sem líklegur er í landbúnaði á næstu árum, að verulega muni draga úr jarðræktarframkvæmdum og húsabótaframkvæmdum bænda. Því voru hafnar viðræður við fulltrúa bænda um breytingar til bráðabirgða á jarðræktarlögum sem gerðu kleift að halda nokkurn veginn því fjármagni sem nú er veitt til jarðabóta, en fá aftur á móti heimild til að nota það, sem ekki rennur til slíkra framkvæmda, í aðrar framkvæmdir í landbúnaði á vegum bænda og þá einkum framkvæmdir sem stefna að því að snúa við þeirri þróun sem verið hefur í vaxandi framleiðslu landbúnaðarafurða undanfarin ár. Hér er því um að ræða lið í þeirri viðleitni að marka breytta stefnu fyrir landbúnaðarframleiðsluna á næstu fimm árum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því í fyrsta lagi, að þeir styrkir, sem veittir eru samkv. jarðræktarlögum til húsabóta, verði samræmdir lánum sem Stofnlánadeild landbúnaðarins veitir til byggingar fjárhúsa. Þarna hefur verið nokkurt misræmi á sem hefur leitt til þess, að ýmsir hafa byggt töluvert stærra en æskilegt hefur verið talið. 2. gr. frv. gerir því ráð fyrir að Búnaðarfélag Íslands og Stofnlánadeild landbúnaðarins komi sér saman um stærðarmörk og verði þannig bæði lán og styrkir samræmdir.

Hins vegar er aðalatriði þessa frv. í 4. gr. frv. og vil ég því nefna það næst. Þar er gert ráð fyrir að framlag á fjárlögum samkv. jarðræktarlögum verði óbreytt frá meðaltali áranna 1978 og 1979, en þó með verðlagsuppbót, óháð því hverjar framkvæmdir verða í jarðrækt og húsabótum. Jafnframt er gert ráð fyrir því, eins og fram kemur í 3. gr. frv., að heimilt verði að ráðstafa því, sem kann að verða umfram, til þess að styrkja nýjar tekjuöflunarleiðir bænda, til að stuðla að bættri heyverkun og til hagræðingar sem orðið getur til að bæta tekjur bænda án framleiðsluaukningar í nautgripa- og sauðfjárrækt.

Loks er í þriðja lagi gert ráð fyrir því, einnig til bráðabirgða, að landbrh. sé heimilt í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands að ákveða tilgreind frávik frá styrkupphæðum á næstu fimm árum. Gert er ráð fyrir því, að þar sem tún eru orðin yfir 30 hektara megi skerða framlag um 50%, einnig megi á sama hátt skerða framlag til plógræsa og jafnframt til túnræktunar þar sem stærðin er orðin yfir 30 hektara. Þá er gert ráð fyrir því, að skerða megi framlag til grænfóðurræktunar allt að 50%, fella niður framlög til hagaræktar, nema grætt sé upp gróðurvana land, og skerða framlög til áburðargeymslna. Ég vil hins vegar taka það fram, að þessar skerðingarheimildir eru í mínum huga nánast aukaatriði í þessu frv. Hér er fyrst og fremst um það að ræða, sem ég gat um áðan, að samræma styrki samkv. jarðræktarlögum lánum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og í öðru lagi að halda þarna nokkru fjármagni, sem ekki kann að nýtast vegna samdráttar í landbúnaði, til annarra mikilvægra framkvæmda í tengslum við þá stefnumörkun sem nú á sér stað. Skerðing á framlögum, eins og um er getið í 3. gr., kemur að sjálfsögðu ekki til greina nema í fullu samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands.

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram í Ed. Deildin gerði á því nokkrar breytingar. Hún lækkaði túnstærð úr 35 í 30 ha sem takmörk fyrir skerðingu og felldi niður einn lið af fjórum í þeirri upptalningu sem kemur fram í lok 3. gr.

Ég vil, herra forseti,,gera mér vonir um að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Málið verður að gera það ef það á að koma til framkvæmda nú. Framkvæmdir bænda hefjast fljótlega, og þá þarf að vera ljóst hvernig jarðræktarframlögum og styrkjum verður hagað. Ég vil því leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn., og mælast til þess að hún afgreiði málið sem fyrst.