08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar flm. þakka þær miklu almennu umr. sem hér hafa orðið. Þær hafa óneitanlega, hvað sem líður einstökum deiluatriðum og einstökum atriðum sem ekki hafa komið þessu máli mikið við, sýnt mikinn áhuga þdm. á því höfuðmáli sem till. lýtur að þ.e.a.s. aukinni aðstoð við sveitarfélögin vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli.

Það komu inn í þetta tvö önnur atriði, en ég átti þess ekki kost að hlusta á þær fjörugu umr. sem hér voru á mánudaginn og þær að mörgu leyti sérstæðu umr. sem munu hafa orðið hér um þetta mál, þar sem e.t.v. aukaatriði voru gerð að aðalatriðum. Það er ofur eðlilegt að fleira blandist inn í þetta mál, enda annar liður till. beinlínis til þess fallinn að gefa visst tilefni til þess.

Við höfðum, nokkrir þm., áður flutt till. varðandi þetta afmarkaða mál, höfðum þá reyndar bætt við þeim lið sem laut að því að rykbinda vegi sem liggja um bæjarhlöð bænda, og hefði verið full ástæða til það hafa það hér í einnig, því að þar er óunnið mikið verk og vandasamt. Vegagerð ríkisins hefur að vísu verið örlítið að reyna úrbætur á þessu sviði, en í allt of litlum mæli. Við sem sagt fengum góðar undirtektir undir þessa till. okkar á sínum tíma, en engu að síður var hún ekki samþykkt, þótti of víðtæk m.a., sérstaklega hvað varðaði þá skuldbindingu sem í till. var fólgin varðandi bæjarhlöðin á sveitabæjum. Hins vegar varð sú gleðilega breyting á varðandi þéttbýlisvegaféð, að hér fór í gegn mjög naumlega breytingin varðandi „25% sjóðinn“ svokallaða. Þar skiptust menn auðvitað mjög eftir kjördæmum í afstöðu sinni og breytingin fór hér mjög naumlega í gegn. A.m.k. fór hún mjög naumlega gegn í Nd. Hún fór allvel í gegnum Ed., eins og fleiri réttlætismál sem eiga hér greiðari framgang en í neðra.

Það er auðvitað full ástæða til þess, eins og hv. þm. Þorvaldur Garðar kom inn á, að minna hæstv. ríkisstj. á þetta verkefni. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem sveitarfélögin hafa sett á oddinn á undanförnum árum, enda hafa orðið gífurlegar breytingar, eins og hefur verið komið inn á í þessum umr., á hinum ýmsum þéttbýlisstöðum þar sem vel hefur verið að þessu unnið. Ég tek fyllilega undir það, að það þarf að efla allar aðgerðir til aukins hraða í framkvæmdum hvað þetta varðar. Ég held að nú megi sjá — að vísu ekki nægilega — viðbót í því fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir, en góða viðbót engu að síður. Það er auðvitað mála sannast, að niðurskurður vegamála í heild, sem varð sérstaklega á árunum 1975, 1976 og 1977, bitnaði allhart á þessum sjóði, hlaut að gera það sem hlutfalli af heildarvegafénu, þannig að um leið og við hvetjum núv. ríkisstj. þá verðum við að bæta því við, að við vonum að hún standi sig betur en sú fyrri í þessu efni.

Ég heyri að hér hefur verið komið inná mál — og það var mjög gleðilegt í raun og veru, — það var komið hér inn á sérstakt frv. sem flutt var hér og við hv. þm. Þorvaldur Garðar áttum hlut að því að vísa til ríkisstj. á sínum tíma við mikla óánægju flm. eðlilega. Mér er jafnvel sagt að einstakir flm. hafi verið búnir að gleyma eðli og efni þessa frv. síns, og það er ágætt, því að tíminn læknar margt og m.a. þetta. Ég vil aðeins taka það fram í sambandi við það frv., vegna þess að það fól í sér afturvirkni gjalda eins og hér er ráð fyrir gert, að andstaða mín við að samþykkja það frv. á sínum tíma var fyrst og fremst fólgin í því, sem ég held að hafi komið glögglega fram í okkar nefndaráliti, að við teldum óeðlilegt, að hér væri um sérlög fyrir ákveðið bæjarfélag að ræða, en ekki vegna þess að ég væri andvígur efnisatriðum frv. Ég held að það hafi komið mjög glögglega í ljós, að ég var ekki andvígur efnisatriðum þess, en ég var hins vegar algerlega á móti svona sérlögum og stóð dyggilega eins og í fleiru með hv. fyrrv. formanni félmn., Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, í því að afgreiða þetta mál á þann hátt sem við gerðum. Ég vil taka þetta fram til þess að menn haldi ekki að ég hafi eitthvað breytt um afstöðu í þessu efni. Ég var sem sagt samþykkur ýmsu sem í þessu frv. var, taldi aðeins að þessi lög ættu ekki að gilda sérstaklega um eitt bæjarfélag, það yrði þá að koma til ein allsherjarlöggjöf, eins og lagt er til í þeirri till. sem hér er til umr.