14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4745 í B-deild Alþingistíðinda. (3976)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Frsm. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er komið frá Ed. og erum breytingu á lögum nr. 88 24. des. 1971, um 40 stunda vinnuviku. Meginbreytingin á lögunum frá 1971 er sú, að greiða skuli næturvinnu strax að lokinni 40 stunda vinnuviku frá mánudegi til föstudags, en ekki eftirvinnukaup á föstudögum eins og nú er algengast. Þetta er til samræmis því, að meðan 44 stunda vinnuvika var og dagvinnu var þá lokið kl. 12 á laugardögum, var greidd næturvinna strax að lokinni dagvinnu. Þetta er nánar rakið í grg. frv. og ég tel ekki þörf að rekja það nánar, en vísa til þess sem þar er sagt.

Þótt í litlu sé er þessu frv. einnig ætlað að hamla gegn þeim óhóflega langa vinnutíma sem hér tíðkast, en um það mikla vandamál og hugsanlegar leiðir til úrbóta ætla ég ekki að ræða nú nema sérstakt tilefni gefist til.

Félmn. hefur rætt frv. og leggur til á þskj. 689 að frv. verði samþ. Tveir nm., þeir Gunnar Thoroddsen og Eggert Haukdal, taka fram að þeir teldu æskilegra að um þetta mál hefði verið samið milli aðila vinnumarkaðarins. Undir þetta sjónarmið get ég ákaflega vel tekið, og í nokkrum greinum hafa verkalýðsfélög og atvinnurekendur þegar samið um þetta fyrirkomulag, en í öðrum hefur það ekki tekist. Í samningum 1977 var þetta mál meðal krafna almennu verkalýðsfélaganna, en náði þá ekki fram að ganga. Við efnahagsaðgerðirnar fyrir 1. des. s. l. var þetta mál eitt af kröfum verkalýðshreyfingarinnar gegn niðurfellingu 3% verðbóta á kaupið sem sparaði atvinnurekendum stórfé.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Gunnlaugur Stefánsson og Stefán Valgeirsson.