08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka frekar til máls í sambandi við það mál sem er hér á dagskrá, og kannske er ég samkvæmt þingsköpum búinn að tala mig dauðan, því að ég hef tekið tvisvar til máls í umr. En tilefni þess, að ég kem hér í ræðustól, eru ummæli þau sem hér hafa fallið út af því frv. sem flutt var á sínum tíma um heimild handa bæjarstjórn Akureyrar til að leggja á sérstök fasteignagjöld.

Ég vil leiðrétta þann misskilning sem kemur fram í þessum umr. út af því frv. Það er ekki hægt að segja beinlínis að um afturvirkni hafi verið að ræða í því frv. Það var eingöngu verið að fara fram á það, að Alþ. leyfði einu bæjarfélagi að framkvæma stefnu sem átti hug flestra bæjarbúa, því að á bak við þetta frv, stóðu einróma óskir allrar bæjarstjórnarinnar. Það var yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að leggja aukaskatt á fasteignir bæjarbúa til þess að geta hraðað framkvæmdum sem allir óskuðu eftir. Það var ekki verið að gera þennan skatt afturverkandi þannig, að þeir ættu að bera þyngri byrðar sem einhvern tíma áður hefðu fengið þá aðstöðu að búa við malbikaðar götur. Þetta var bara félagslegt átak sem bak við stóð einróma vilji íbúa bæjarins. Og það var það sem um var deilt, að við flm. gátum ekki skilið að Alþ. væri að standa á móti slíkum óskum. Ég er enn þeirrar skoðunar, að sú stefna,sem fólst í því nefndaráliti sem því miður var samþykkt hér, hafi verið röng. Þegar svona einróma ósk kemur frá einu sveitarfélagi, þá á Alþ. ekki að leggja stein í götu. Það var ekkert í þessu frv. sem bannaði það, að önnur sveitarfélög færu sömu leið.