14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4747 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 718 höfum við fulltrúar Sjálfstfl. í hv. fjh.- og viðskn. skilað séráliti varðandi mál þetta. Það hefur komið fram á Alþ. að undanförnu, að þm. Sjálfstfl. hafa með tillöguflutningi sínum lýst sig fylgjandi því, að könnun fari fram á því hvort ekki sé æskilegt að auka verðgildi íslensku krónunnar. Þeir, sem hafa talað fyrir þessum till., hafa gjarnan lagt á það ríka áherslu, að í þetta yrði ekki ráðist öðruvísi en tryggt væri að árangur næðist af þá væntanlegri verðgildisbreytingu gjaldmiðilsins. En til þess að það geti tekist verður að vera fyrir hendi stöðugleiki í efnahagsmálunum eða að gerðar séu samtímis ráðstafanir sem tryggi að árangur náist af þeirri verðgildisbreytingu gjaldmiðilsins sem þá er ráðist í. Ljóst er að nú er hvorugt fyrir hendi: stöðugleiki í efnahagsmálum né heldur eru uppi neinar ráðagerðir til að bæta þar um.

Það kom fram í hv. Ed., að þm. Sjálfstfl. hafa ekki í hyggju að standa í vegi fyrir samþykkt þessa frv. En með skírskotun til þess, sem ég hef sagt og fram kemur í nál. fulltrúa Sjálfstfl. bæði í fjh.- og viðskn. þessarar d. og hv. Ed., telur Sjálfstfl., þm. hans, mjög hæpið að ákvörðun um jafnþýðingarmikið málefni og breytingu á verðgildi íslensks gjaldmiðils sé tekin undir þessum kringumstæðum, og mun láta afgreiðslu frv. afskiptalausa og ekki greiða atkv.