14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4748 í B-deild Alþingistíðinda. (3984)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Undir nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til l. um breytingu á verðgildi íslensks gjaldmiðils leyfði ég mér að skrifa með fyrirvara. Sá fyrirvari var við það miðaður og til þess hugsaður að vekja á því athygli, að vitaskuld er það svo, að í sambandi við það að auka verðgildi krónunnar eða skera tvö núll aftan af henni hefur sú aðgerð ævinlega verið til þess hugsuð að vera endastöð aftan við efnahagsaðgerðir ríkisstj. sem hefðu heppnast. Þegar þessi till. kom fram t. a. m. í kosningaplaggi okkar jafnaðarmanna fyrir síðustu kosningar undir heitinu „Gerbreytt efnahagsstefna“, þá var það auðvitað síðasti liðurinn og þá hugsað á eftir aðgerðum sem hefðu orðið til þess að gera hvort tveggja: að koma verðbólgu niður og auka traust á gjaldmiðlinum. Og ef við hugsum það öðruvísi: Ef frv. það, sem við kynntum í desember um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, hefði orðið að lögum, þar sem — vissulega með mjög hörðum aðgerðum og stundum erfiðleikum og sársaukafullum — verðbólgu hefði verið náð niður fyrir 30% mark á þessu ári og niður fyrir 15% á árinu 1980, þá hefði verið hið gullna tækifæri til þess jafnframt að skipta yfir í nýja mynt.

En við þekkjum það, að þessar hugmyndir okkar voru affluttar meira og minna. Málflytjendur jafnvægisstefnu á þeim tíma voru af andstæðingum sínum, fyrst og fremst innan hæstv. núv. ríkisstj., ýmist kallaðir kaupræningjar eða boðberar atvinnuleysis, nema hvort tveggja væri, svo það verður ekki séð á þessu augnabliki að verið sé að framfylgja þeirri efnahagsstefnu að til jafnvægis horfi á þeim tíma þegar hin nýja mynt á að taka gildi.

Engu að síður er kannske hægt að líta svo á, að það sé ekki öll nótt úti enn að óbreyttu ástandi eða að breyttu ástandi. Þetta hefur verið á stefnuskrá okkar frá upphafi, að miða við þau tímamörk sem hér er við miðað. Um það hefur orðið samkomulag innan ríkisstj. og við stöndum auðvitað við okkar hluta þess samkomulags. En það verður að segjast alveg eins og er að hlálegt verður það og öðruvísi en til var stofnað ef eina efnahagsaðgerðin, sem eftir stendur, verður sú að hafa skorið tvö núll aftan af krónunni. Og lítilsvirði verður sú aðgerð einnig ef sú króna verður á sömu fleygiferðinni — eða hvað svo sem myntin verður kölluð — og sú sem við nú höfum og íslenskur almenningur hefur áfram til þess fyllstu ástæðu að bera jafnlitla virðingu fyrir myntinni og hann ber fyrir þeirri sem við nú höfum.

M. ö. o. er samkomulag um að standa ekki í vegi fyrir þessu frv. og við það er staðið. Það stóð ævinlega til, að þessi breyting yrði endastöð aftan við efnahagsaðgerðir sem hefðu borið árangur, og satt að segja er ekki séð að slíkt sé á leiðinni í bili. En vonandi og væntanlega er ekki öll nótt úti enn.