14.05.1979
Neðri deild: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4750 í B-deild Alþingistíðinda. (3986)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tel nú enga ástæðu til þess að hefja hér langa umr. um þetta mál. Meginatriðið er það, að í rauninni hafa allir stjórnmálaflokkarnir þegar fyrir alllöngu lýst stuðningi sínum efnislega við aðgerð af því tagi sem hér er gert ráð fyrir. Það hefur t. a. m. Alþfl. gert og það hefur Sjálfstfl. gert m. a. í nýlegum till. sínum í efnahagsmálum sem birtust í Morgunblaðinu nokkuð snemma vetrar. Þannig að ágreiningur er enginn um það. Spurningin er aðeins um hitt, með hvaða hætti og hvenær menn vilja láta þessa aðgerð eiga sér stað. Og í samræmi við þær athugasemdir, sem fram komu við umr. um þetta mál bæði í fjölmiðlum og víðar, og í samræmi við þá skoðun mína og fleiri, að hálfs árs undirbúningstími væri of skammur undir þá viðamiklu breytingu sem hér er gert ráð fyrir, var ákveðið að leggja til og það samþ. í Ed., að verðgildisbreytingin skyldi taka gildi frá 1. jan. 1981.

Ég geri ráð fyrir því, að það verði jafnan svo, að ákveðnir stjórnarandstæðingar — hver svo sem þann flokk kann að skipa — mundu með einhverjum hætti setja sig upp á móti slíkri breytingu sem hér er gert ráð fyrir eða jafnvel reyna að tefja hana með tillöguflutningi eins og þeim sem hér hefur verið gerð grein fyrir af hv. þm. Ólafi G. Einarssyni. Ég held að út af fyrir sig geti vel komið til greina að einhvern tíma við einhverjar breytingar á myntkerfi landsins yrði ákveðið að skipta um nafn, en slíkt krefst langs undirbúnings — mjög langs undirbúnings, og ég held að það væri með öllu fráleitt að ákveða slíkt nú án þess að miklu lengri aðdragandi ætti sér stað. Auk þess verð ég að segja það sem mína skoðun, að ég er algjörlega andvígur því að breyta um nafn á okkar mynt. Við höfum haft þetta nafn á myntinni alveg frá því að við tókum upp sjálfstæða myntútgáfu hér á landi, og fjölmargar nefndir embættismanna og stjórnmálamanna hafa starfað að þessum málum, m. a. undir leiðsögn viðreisnarstjórnarinnar, á árunum 1960–1963, ef ég man rétt. Þessi nefnd, sem viðreisnarstjórnin skipaði, ég hygg að það hafi verið þáv. hæstv. fjmrh., komst að þeirri niðurstöðu, að það væri rétt að halda í þetta nafn af margvíslegum ástæðum. Og ég er þessarar sömu skoðunar. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að breyta hér um nafn og beinlínis rangt og það sé undarleg viðkvæmni sem komi fram — gagnvart Dönum, skilst mér — í þeim tillöguflutningi sem sumir menn hafa beitt sér fyrir hér og hafa þá kannske gleymt því, að ekki allfjarri þessum sal er það tákn sem þeir virðast helst vera að forðast í þessum efnum, þ. e. kóróna.

Ég legg þess vegna áherslu á það, að þetta frv. verði afgreitt nú þegar og það verði afgreitt með því nafni á myntinni sem hér hefur verið um áratugi, er þjált í munni og þægilegt í notkun. Og ég vil segja það varðandi þau orð sem hv. þm. Vilmundur Gylfason flutti hér áðan, að auðvitað væri gott að geta mótað efnahagsstefnu og efnahagsmál þannig að unnt væri með alllöngum fyrirvara að sjá eitthvað sem kalla mætti endastöð í þeim efnum. Ég hygg nú að aðstæður séu sjaldan þannig í íslensku þjóðlífi, sjaldan þannig í íslenskum efnahagsmálum og þess vegna sé eðlilegt að taka slíka ákvörðun og það sé líka nauðsynlegt að gera það með mjög löngum fyrirvara, vegna þess að ég held að slík ákvörðun sé hvati á stjórnvöld, hver svo sem þau eru, um það að taka hraustlega á árinni í hinum almennu efnahagsmálum, til þess að þau almennu áhrif, sem verðgildisbreyting krónunnar getur haft, séu sem allra mest og til þess að nýta þann hvata sem þessi breyting hlýtur að hafa í för með sér fyrir allan almenning í landinu þegar hún gengur yfir.