15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4761 í B-deild Alþingistíðinda. (4003)

355. mál, byggingamál Ríkisútvarpsins

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hér er vissulega um brýnt mál að ræða, eins og fram var tekið áðan, og ekki skal dregið úr því að Ríkisútvarpið býr við gjörsamlega óviðunandi ástand í húsnæðismálum. En hvort sú leið, sem nú er verið að fara í þeim efnum, er hin rétta orkar hins vegar vissulega tvímælis, því að hér er verið að tala um byggingu upp á 4.1 milljarð á því verðlagi sem nú gildir, og kunnugir menn hafa tjáð mér að hún muni væntanlega endast bæði útvarpi og sjónvarpi um aldur og ævi, enda sniðin eftir hugmyndum og byggingu hjá þjóð sem er margfalt, margfalt mannfleiri en við og hefur meira umleikis. Hefði sennilega verið skynsamlegra að bera niður heldur nær okkur í leit að sambærilegum byggingum.

En það, sem ég vil vekja athygli á hér er að nú er talað um að þessi ágæta bygging eigi að kosta 4100 millj. Þegar er kostnaður orðinn 205 millj. án þess að nokkuð sé farið að byggja. Þetta er hönnunarkostnaður og kostnaður við grunn. Samkv. upplýsingum frá fjármálastjóra útvarps fór kostnaður við jarðvegsvinnu þessa húss svo langt fram úr áætlun að hann er a. m. k. tvöfaldur, ef ekki töluvert meira, miðað við það sem upphaflega var áætlað þegar verkið var boðið út. Um þetta segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ljóst er, að kostnaður við jarðvegsvinnu hefur farið langt fram úr áætlun. Innkaupastofnun ríkisins hefur nú“ — þ. e. 2, febr. — „fengið greiddar 51.8 millj. inn á þetta verk. Er það tvöfalt tilboðsverð Jarðýtunnar sf. og 17% hærra en áætlun verkfræðinga. Af hálfu Ríkisútvarpsins var með bréfi spurst fyrir um það hjá Innkaupastofnun ríkisins hverju þetta sætti. Svar hefur ekki borist“.

Grunur minn er sá, að jarðvegsvinna hafi farið svo mjög fram úr áætlun vegna þess að þarna hafi verið rasað um ráð fram, legið hafi fullmikið á að taka þarna fyrstu skóflustunguna og því hafi málið ekki verið eins vel undirbúið og æskilegt væri. Ég vona bara að því sé ekki þannig farið með þá fjögurra milljarða byggingu sem nú á að ráðast í. Það skal ekki dregið úr því, að vissulega þarf Ríkisútvarpið húsnæði og þess þörf er mjög brýn, en ég efast hins vegar stórlega um að það, sem verið er að ráðast í hér, sé hagkvæmasta, skynsamlegasta og ódýrasta lausnin á því máli. Þvert á móti held ég að hér kunni menn að vera að leggja út í ævintýri sem ekki er séð fyrir endann á og raunar fyrir fram vitað að erfitt er að fjármagna, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. áðan.