15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4766 í B-deild Alþingistíðinda. (4008)

356. mál, framkvæmdir við dreifikerfi og búnað Ríkisútvarpsins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem hér hafa komið fram. En ég vil ekki láta þetta tækifæri ónotað til að minna á það ófremdarástand sem er í sambandi við dreifingu sjónvarps á utanverðu Snæfellsnesi, sem hér kom raunar til umr. fyrr í vetur. Ekki kom fram í skýrslu ráðh. áðan að til stæði að lagfæra það ástand á þessu ári.

Svo er háttað þarna, að sjónvarpssendir á Vallnaholti í Fróðárhreppi bilar mjög oft og koma fram truflanir frá erlendum sjónvarpsstöðvum á þessu svæði, þar sem búa nú hátt í 2000 manns, og eins og fram hefur komið áður hafa verið í gangi undirskriftir sjónvarpsnotenda, sem sendar hafa verið hæstv. ráðh. og póst- og símamálastjórn, þar sem er gerð bein krafa um úrbætur tafarlaust. Ég vildi þess vegna nota þetta tækifæri og ítreka óskir íbúanna á þessu svæði um að allt verði gert sem hægt er á þessu ári til að lagfæra ástandið með því að endurbæta annaðhvort sendinn, sem fyrir er, eða setja upp nýjan, eins og um hefur verið talað. Ástandið, eins og það er, er algerlega óviðunandi.