15.05.1979
Sameinað þing: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4770 í B-deild Alþingistíðinda. (4022)

211. mál, starfsreglur Póst- og símamálastofnunar

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef einnig leyft mér að flytja á þskj. 423 till. til þál. um starfsreglur Póst- og símamálastofnunarinnar. Hún er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um starfssvið Landssíma Íslands með það að markmiði að samræma starfsemi og verksvið símans þeim reglum er gilda um starfsemi annarra hliðstæðra þjónustustofnana, svo sem rafveitna, hitaveitna og vatnsveitna.“

Með leyfi forseta mun ég lesa upp grg. þá sem fylgir. Hún er svo hljóðandi:

„Í II. kafla laga nr. 30 frá 27. júní 1941 er að finna ákvæði þar sem ríkinu er, m. a. í 2. gr., veitt einokun á „að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa út á annan hátt, smíða, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki (tæki, taugar, búnað o. þvl.), eða hluta til þeirra“ o. s. frv. Í IV. kafla sömu laga er þessi einkaréttur framseldur póst- og símamálastjórn. Hins vegar er ráðh., sem fer með fjarskiptamál, veitt heimild í 3. gr. laganna til að veita undanþágur frá ákvæðum 2. gr. Í lögum nr. 36 frá 13. maí 1977 er einkaréttur Póst- og símamálastofnunarinnar enn þá áréttaður. Í 3. gr. þeirra laga er þó nokkuð dregið í land frá fyrri ákvæðum, þar sem nú er veitt einkaleyfi til að „stofna til og starfrækja hvers konar póst-, síma- og aðra fjarskiptaþjónustu“ svo og að „hafa eftirlit með innflutningi og viðurkenningu á búnaði í því sambandi.“

Ekki eru bornar brigður á nauðsyn þess, að Póst- og símamálastofnun reki símstöðvar og annist lagnir símalína milli staða. Hins vegar á einkaleyfi símans að vera lokið þegar að því kemur sem framkvæma þarf eftir að símalögn er komin í tengil innan húsveggs notenda.

Starfsemi annarra þjónustustofnana, svo sem rafmagns-, vatns- og hitaveitna, má telja hliðstæða starfsemi síma og ættu því að gilda um þær hliðstæð ákvæði. Rafmagnsveita og hitaveita tengja lagnir sínar við mæla notenda innanhúss, en láta þar staðar numið. Eftir að gengið er frá inntaki er notendum í sjálfsvald sett hvernig lögnum innanhúss er hagað og hvaða efni og tæki eru notuð, svo framarlega að öryggis- og gæðakröfum, sem kunna að verða settar, sé fullnægt. Með frjálsum innflutningi eykst fjölbreytni og hagkvæmni og símanum sparast fé og fyrirhöfn við innkaup og birgðahald, a. m. k. varð sú raunin á þegar Viðtækjaverslun ríkisins var lögð niður á sínum tíma. Má ætla að sú verði einnig raunin að því er símann varðar.“

Till. til þál. um starfsreglur Póst- og símamálastofnunar er flutt með það í huga að færa starfsreglur stofnunarinnar eitthvað í áttina til nútímans. Einokun á hvaða sviði sem er hefur aldrei leitt til góðs, en ávallt verkað sem hemill á allar framfarir og staðið gegn eðlilegri þróun og framförum. Till. er m. a. ætlað að:

1) létta þeim fjárhagslegu byrðum sem stofnunin ber í sambandi við innflutning tækja sem eðlilegt verði að frjáls innflutningur verði á;

2) skapa skilyrði fyrir uppbyggingu og vexti menntaðrar, sjálfstæðrar símvirkjastéttar í landinu,

3) veita símnotendum þann sjálfsagða rétt að velja og hafna í sambandi við símtæki, sem unnt er að afla sér, með þeim skilyrðum að fullnægt sé þeim gæðakröfum sem gerðar eru og reglur verða settar um.

Innflutningur á símtækjum kostar símann verulegt rekstrarfé, sem ætla má að stofnunin þyrfti á að halda til annarrar starfsemi. Frjáls innflutningur slíkra tækja mundi því væntanlega losa verulegt fé sem nú er bundið í birgðum og rekstri þessarar greinar starfseminnar. Að sjálfsögðu er innflutningur bundinn því skilyrði að tækin stæðust þau gæða- og öryggisskilyrði sem símayfirvöld settu.

Frjáls innflutningur símtækja og aukabúnaðar og heimild símnotenda til að ráða sjálfir lagningu og uppsetningu tækja innanhúss mundi án efa efla og styrkja símtækni og gefa þeirri iðngrein byr undir vængi. Væri slíkt líklegt til að stuðla að því að koma á fót innlendri framleiðslu í greininni, sem gæti haft ómetanlegt gildi atvinnulega séð. Skilyrði þess að slíkum iðnaði yrði komið á fót er að verslun með slík tæki yrði gefin frjáls og símvirkjaiðnin opnuð.

Rafmagnsveitur, sem telja má hliðstæð þjónustufyrirtæki við síma láta sér nægja að tengja heimtaug við mæli notenda. Síðan getur notandinn hagað leiðslum innanhúss og notfært sér þau tæki sem honum henta hvar og hvernig sem hann óskar án afskipta rafveitu, að því einu tilskildu að fullnægt sé þeim öryggis- og gæðakröfum sem settar eru um raflagnir og raftæki. Á sama hátt og Rafmagnseftirlit ríkisins annast gæðaprófun rafmagnstækja eða raftækja áður en innflutningur er leyfður getur innflutningur símtækja verið háður því, að þau standist þær gæðakröfur sem símayfirvöld gætu sett.

Erfitt er að samræma þá fullyrðingu, að Póstur og sími fengi betra innkaupsverð á símtækjum vegna ríflegs magnafsláttar. Meðan innflutningur er ekki frjáls hefur ekki reynt á hvaða kjör öðrum innflytjendum gætu staðið til boða. Reynslan hefur hins vegar jafnan orðið sú, að óhindruð frjáls samkeppni hefur leitt til lækkunar á vöruverði. Er ósennilegt að þessi tegund vöru lúti öðrum lögmálum.

Við höfum þá reynslu af einkasölum, sem hér voru reknar, en hafa verið lagðar niður, að gerbreyting til batnaðar hafi orðið við að starfsemi þeirra var lögð niður. Mér er næst að halda fram, að f•áir mundu styðja það að starfsemi þeirra yrði endurvakin. Frjáls innflutningur, verslun, lagnir og uppsetning símtækja innanhúss eru forsenda þess að símvirkjun og iðnaður tengdur símvirkjun nái að þróast eðlilega hér á landi, en með þessari till. til þál. er að því stefnt að svo megi verða.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að þáltill. þessari verði einnig vísað til allshn. að þessum umr. loknum.