08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

71. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi, á útmánuðum í fyrra. Nú flytjum við það enn og þeir ásamt mér hv. þm. Geir Gunnarsson, Oddur Ólafsson, Hilmar Rósmundsson og Bragi Níelsson.

Efni frv. er í aðalatriðum á þá leið, að stofnaður verði Fiskeldissjóður innan Framkvæmdastofnunar ríkisins.1., 2., 3., 4. og 5. gr. frv. lúta að þess háttar breytingum á Framkvæmdastofnun ríkisins sem rýma fyrir Fiskeldissjóði og gera ráð fyrir honum og rekstri hans innan stofnunarinnar. Í 6. gr. er kveðið um 9 millj. kr. framlag úr ríkissjóði til Fiskeldissjóðs með jöfnum greiðslum á næstu 5 árum, í fyrsta sinn á næsta ári. Það skal viðurkennt, að upphæðin og skipting á greiðslum kunna að vera nokkuð fjarri því sem við hæfi væri til þess að gera sjóðinn nógu virkan. Þar á ég beinlínis við það, að e.t.v. hefði átt að reikna þarna með hærri upphæðum. Í 7. gr. er gerð grein fyrir starfsemi sjóðsins í aðalatriðum og fjármögnun hans. Í 8. gr. er skilgreind ráðstöfun sjóðsins. 9. og 10. gr. lúta báðar að virkni sjóðsins og meðferð hans innan Framkvæmdastofnunar.

Í framsögu minni með þessu frv. í fyrra gerði ég mjög svo lauslega grein fyrir þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið með fiskeldi hér á landi, og þeirri framtíð, sem sérfræðingar telja nú, m.a. að fenginni reynslu erlendis, að fiskeldi í sjó eigi fyrir sér.

Að fiskrækt, fiskklaki og fiskeldi hefur verið unnið allmikið starf á landi hér, bæði á vegum veiðimálastjórnar og ekki síður, vil ég segja, á vegum ýmissa áhugasamra einstaklinga. Þessi fiskrækt hefur fyrst og fremst beinst að laxinum, en einnig lítils háttar að silungsrækt.

Á liðnum árum hefur í grannlöndum okkar beggja vegna Atlantshafs og í Japan verið lokið tilraunum með fiskeldi í sjó, umfangsmiklum vísindalegum tilraunum, og fiskeldi í sjó er orðið að umfangsmiklum atvinnuvegi í Sovétríkjunum í Japan, í Kanada, á vesturströnd Bandaríkjanna og síðast, en ekki síst í Noregi.

Ýmsum sögum fer af því, hversu gengið hafi tilraunir sem hafnar eru í Japan og í ýmsum löndum Suðaustur-Asíu með ræktun á sjávarfiskum. Þó er ljóst að í vissum greinum hafa þessar tilraunir tekist mjög vel, og einnig á því sviði hefur niðurstaða þessara tilrauna leitt til umfangsmikillar atvinnugreinar í fiskrækt, þó fyrst og fremst í ræktun á skelfiski og krabbadýrum.

Á Bretlandi hefur þegar heppnast að loknum umfangsmiklum tilraunum að rækta ýmsar tegundir af flatfiski innan fjarða, og það svo, að fyrirtæki, sem starfa á því sviði, eru nú rekin með dágóðum ágóða. Hins vegar er það ljóst, að í sambandi við ræktun sjávarfiska er geysilega mikið verk enn óunnið í tilraunum.

Hér á landi hófust fyrir nokkru merkilegar tilraunir með ræktun á laxfiskum með sjávareldi í huga. Þessar tilraunir hafa fyrst og fremst farið fram á vegum Líffræðistofnunar háskólans og Veiðimálastofnunarinnar. Þær hafa verið framkvæmdar að verulegu leyti í samstarfi við einkaaðila sem áhuga hafa haft á þessu sviði. Dr. Sigurður St. Helgason, prófessor í líffræði við háskólann, hefur unnið undanfarin 5 ár að rannsóknum á umhverfisáhrifum á laxfiska og þá einkum beint þessum rannsóknum sínum að tveimur tegundum, þ.e.a.s. laxinum og sjóbirtingnum. Tilraunirnar hafa í aðalatriðum miðað að því að finna hið rétta seltustig í uppeldisvatni og eldisvatni fyrir laxinn og hið rétta hitastig sem hæfði laxinum á hinum ýmsu aldursskeiðum til þess að örva vöxt hans. Í öðru lagi hafa þessir aðilar gert tilraun með kynblending af laxi, salmo salaris og salmo trutta, sem latínufróðir menn og líffræðingar leyfa sér að kalla sjóbirtinginn okkar eða urriðann, sjógengna urriða.

Komið hefur í ljós að afkvæmi þessara tveggja laxfiska, sem þeir félagar hafa leyft sér að kalla laxbirting, er gætt þeim eiginleika að geta gengið miklu fyrr til sjávar eða þolað miklu fyrr seltu heldur en laxaseiðin. Þetta afkvæmi lax og sjóbirtings eða sjóbirtings og lax, eftir því hvað afstaða manna til réttlætismálanna kann að heimta að menn kalli það, er ófrjótt, og vegna þess að einstaklingarnir þurfa ekki að leggja orku í vöxt kynfæra, þá eykst þungi þeirra miklu fyrr, þeir þroskast miklu fyrr, og hægt er með þessari aðferð, sem fyrr gat, að byrja eldi í söltu vatni fyrr. Með því að stjórna seltumagni eldisvatnsins þannig, að sem næst komist blóðseltunni, og með því að halda hitastigi eldisvatnsins hæfilegu er talið að hægt sé að auka vaxtarhraða þessara laxfiska um helming. Komið hefur í ljós að við hin bestu skilyrði er fóðrunarkostnaður við slíkan búskap, við slíkan sporðfénað, um það bil einn þriðjungur og ekki meira af því sem ódýrast finnst í nokkrum öðrum búskap á jarðkringlu þessari. Tekist hefur að fá kíló af laxi úr röskum 4 kg af úrgangsfiski sem notaður er til eldis eða — þar sem það er gert — úr hakkaðri loðnu.

Það var álit sérfræðinga þegar frv. þetta var lagt fram í fyrravor, að þannig hagaði til í kringum vort kalda land, að hvergi nema hérna við Suðurnesin væri hiti sjávar nægilegur til þess að tryggja ágætan árangur af laxeldi í óupphituðum sjó. Nú flutti annar þeirra sérfræðinga, sem mest hafa unnið að þessum málum og hugleitt þau, Eyjólfur Friðgeirsson fiskifræðingur, erindi í útvarpið í gær, þar sem hann greindi frá því, að hitamælingar, sem framkvæmdar hefðu verið síðustu þrjú árin í kringum landið, bentu til þess, að hvarvetna umhverfis landið væri mögulegt að ala lax í óupphituðum sjó. Þótt nokkuð skorti á að sjávarhiti væri nægilegur á norðanverðum Austfjörðum, fyrir Norðurlandinu og Vestfjörðum til þess að tryggja afbragðsárangur, þá væri sjávarhitinn eigi að síður nægilegur til þess að þetta væri hægt að gera. En til þess að tryggja afbragðsárangur þarf að vera hægt að koma sjávarhitanum eða hitanum á eldisvatninu upp í 9–12 gráður í lágmarki allt árið, en hann má ekki fara yfir 16 gráður að meðaltali.

Nú hagar víða svo til í sjávarplássum þessa lands, að tiltækt er nægilegt heitt vatn, nægilegur jarðhiti til þess að hita upp á mjög ódýran hátt þann eldissjó sem þarf til þess að rækta mjög mikinn lax eða búa mjög vel á þessu sviði. Annars staðar er aðstaðan þannig, að kælivatnið frá vélum frystihúsanna mundi nægja til þess að hita upp verulegt magn af sjó upp í það hitastig sem þarf til þess að rækta þar í sjónum laxbirting eða lax. Og ljóst mál er, að með engu móti er fyrirsjáanlegt að við getum komið fiskúrgangi okkar, sem nú fer til mjölframleiðslu, og raunar ekki heldur loðnunni í þess háttar verð sem við getum fengið fyrir það með því að nota það sem fóður handa laxfiskum. Noregi, skilst mér, að nú sé svo komið, þar sem menn hafa náð lengst við laxeldi í sjó, að sum fiskiðjuverin, sem verja úrgangi sínum til laxeldis, fá allt að því jafnhátt verð fyrir úrgangsfiskinn, sem til fellur endanlega þegar búið er að breyta honum í lax, — allt að því jafnhátt verð fyrir úrgangsfiskinn og fyrir vöruna sem þeir selja á markað beint frá frystihúsunum. Nú er þar skemmst af að segja, að þessir tveir menn, sem ég hef nafngreint, þessir tveir sérfræðingar, sem ég nafngreindi hér í sambandi við tilraunirnar með fiskeldi í sjó, þeir Sigurður St. Helgason og Eyjólfur Friðgeirsson, hófust handa um það í fyrra að koma upp eldisstöð með heitum jarðsjó suður í Húsatóftum við Grindavík. Þetta gerðu þeir af eigin rammleik. Annar þeirra seldi íbúðina sína hér í Reykjavík til þess að geta flust þangað suður eftir og byrjað þessar tilraunir. Ætlun þeirra er að sannprófa núna með raunverulegum, praktískum tilraunum niðurstöðurnar af frumrannsóknum sínum, sem benda til þess að hægt sé að rækta fisk með þessum hætti með ágætum efnahagslegum árangri. Til þess arna hafa þeir fengið sáralítinn og raunar alls engan styrk af hálfu hins opinbera.

Nú liggur í augum uppi að niðurstöðurnar af þessari tilraun þarna syðra eru þess háttar, að þjóðin öll er líkleg til þess að græða á þeim er þar að kemur, enda munu niðurstöðurnar verða öllum tiltækar er tilraunirnar hafa verið framkvæmdar. En fjárskortur hefur staðið þeim fyrir þrifum, þeir hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að gera þessa tilraun í eins stórum stíl og nauðsynlegt er. Að vísu hafa þeir notið ágætrar fyrirgreiðslu þeirra Grindvíkinga og stuðning útvegsmanna í Grindavík, sem gera sér fulla grein fyrir því, hvílíkt hagsmunamál er hér á ferðinni, ef það skyldi nú koma í ljós að hægt væri að breyta slóginu úr fiskinum þeirra og bræðslufiskinum í lax með þessum hætti og margfalda þannig verðmætið.

Hugmyndir þeirra félaga í sambandi við útfærslu á tilraunastöðinni í Húsatóftum er sú, að á öllu sunnanverðu Reykjanesi kunni að verða hægt að nýta þann heita jarðsjó, er þar mun til falla í mjög stórum stíl í sambandi við fyrirhugaða saltvinnslu þar á nesinu, — breyta þessum jarðsjó í eldisvatn fyrir fiska. Talið er ákaflega auðvelt að útbúa stórar eldistjarnir eða eldislón á þessu svæði, þar sem auðvelt er að komast í gegnum djúpt hraunið niður á það dýpi sem þarf til þess að við fáum sjóinn inn jafnvel með sjávarföllum úr hafinu, og þarna höfum við möguleika á því að útbúa okkur á þennan hátt ótrúlega stór eldissvæði. Ég hirði ekki um í þessu sambandi að fara hér ítarlega út í hugmyndir þeirra og fyrirætlanir um það, með hvaða hætti við getum nýtt volgan jarðsjó á þessu svæði, en vil þó aðeins drepa á það, að þeir telja sig hafa vissu fyrir því, að í þeim sama eldissjó, þar sem við mundum ala upp dýrar fisktegundir og þá fyrst og fremst laxbirtinginn, þar gætum við ræktað bláhumar og ostrur jafnframt, og þá mundu þessar hræætur, sem eru ákaflega verðmætar á erlendum markaði, gegna ákveðinni þjónustu í eldisstöðvunum, þar sem þær mundu hreinsa botninn, éta af því sem á botninn fellur, eins og þessi dýr gera úti í hafinu. Þeir hafa einnig sagt mér frá þeim óskaplegu, furðulegu möguleikum sem falist gætu í notkun á volgum og ef svo má segja efnastýrðum eldissjó fyrir helstu fisktegundir okkar í sjónum í kringum landið. Ég leyfi mér, enda þótt mig minni að ég hafi ekki fengið formlega heimild hjá Sigurði St. Helgasyni til þess að hafa það eftir honum, en ætla þó að gera það eigi að síður, því að það hygg ég að muni vera meinlaust, en gæti verið fróðlegt fyrir hv. deildarþm., þá sagði hann mér frá tilraunum sem gerðar hafa verið í Kanada fyrst og fremst, en einnig talsvert í Englandi, til þess að finna kjörfæði þorsklirfunnar sem hún nærist á þær 3–4 vikur sem ráða úrslitum um það, hvort hrygning hjá þorskinum heppnast eða ekki. Það er komið undir hita sjávar og innihaldi af þeim lífrænu efnum, sem þorsklirfurnar þurfa, hvort hrygning þorskstofnsins við Suðurland heppnast eða misheppnast. Hann sagði mér, að með því að einbeita kröftum hæfra sérfræðinga að slíkri rannsókn og veita þá fé til slíkrar rannsóknar á að vera hægt að finna þessa kjörfæðu þorsklirfunnar. Ef við fyndum hana mundi eldistjörn með réttri sjávarblöndu og hitastigi, sem væri um það bil tveir hektarar, nægja til þess að tryggja fiskislóðina okkar árlega gegn misheppnaðri hrygningu. Það þyrfti ekki meira til þess að klekja þar út þorskhrognum og ala lirfurnar upp til þess aldurs sem þær væru ekki lengur ósjálfbjarga og gersamlega háðar sjávarstraumum og ástandi í hrygningarsjónum og óviðráðanleg náttúruöfl réðu þannig hvort hrygning stofnsins heppnaðist eða heppnaðist ekki. Ég spurði hann að því, hvort Kanadamenn og Bretar hefðu lagt mjög mikla fjármuni í rannsóknir af þessu tagi. Hann sagði að á mælikvarða okkar Íslendinga mundu það náttúrlega teljast fjármunir, en þessar þjóðir eiga ekki líf sitt undir viðgangi þorskstofnsins á sama hátt og við eigum okkar líf undir viðgangi þessa fiskstofns. Og þótt við legðum álíka vinnu og jafnvel tvöfalt meiri fjármuni en þessar þjóðir hafa lagt í slíkar tilraunir, þá hlyti það að teljast ákaflega góð fjárfesting. En eins og ég sagði fyrr, þá beinast þessar tilraunir, sem gerðar hafa verið hér, fyrst og fremst að ræktun á laxfiskum í vermdum sjó.

Þær tilraunir má segja að séu í beinu framhaldi og eðlilegum tengslum við tilraunir sem hér hafa verið gerðar með klak og uppeldi á seiðum þessara fiska. Og þar erum við komnir það langt, Íslendingar, að það liggur í augum uppi og er óumdeilanlegt, að þær klakstöðvar og uppeldisstöðvar, sem við eigum fyrir í landinu, gætu séð fyrir öllum þeim seiðum, sem við þurfum til þess að ala upp með þessum hætti í vermdum sjó. Og ef við stöndum nú myndarlega að þessum málum, ef hið opinbera stendur myndarlega að þessum málum, þá kynni svo að fara, að við gætum með undraskjótum hætti breytt verulegum hluta af úrgangsfiski okkar og kannske þar með loðnunni í hina dýrustu söluvöru sem um getur á fiskmörkuðum heimsins, þar sem laxinn er. Með því að nota slógið og úrgangsfiskinn, sem fellur til í fiskiðjuverunum einum saman, gætum við framleitt þúsundir lesta af laxi. Og samkv. þessum djarfa útreikningi, sem ég leyfði mér að leggja fyrir okkur áðan, þar sem ég talaði um rösk 4 kg af loðnu sem breyttist í kg af laxi, væri náttúrlega komið upp í það, að spurning færi að verða hvort við ætluðum okkur ekki að offylla heimsmarkaðinn af laxi, sem mundi nema hundruðum þúsunda tonna ef við notuðum allan mjölfiskinn okkar til þess arna.

En ég ítreka aðeins þetta í lokin, að af hálfu okkar flm. þessa frv. væri rétt að hið opinbera legði nú af mörkum fé og útvegaði fé í fyrsta lagi til þess að fullgera tilraunir, sem þegar eru vel á veg komnar, og eins til þess að opna fjárhagslega möguleika fyrir félög og einstaklinga til þess að nýta þá þekkingu, sem þegar er fengin, og vera víð því búin að nýta með sem skjótustum hætti niðurstöður af þeim rannsóknum sem nú er verið að gera þarna syðra og ég veit að mjög almennur áhugi er á meðal þeirra manna sem helst hafa haft áhuga á fiskræktarmálum.

Ég talaði sérstaklega um möguleikana sem fælust í heita jarðsjónum við Reykjanes. Við eigum víðar á landinu möguleika á því að nálgast slíkan jarðvarma sem gæti aðstoðað okkur við það að hita upp sjóinn. Svo sem kunnugt er, á að vera hægt að ná í slíkan jarðvarma við Vestmannaeyjar og þar eiga að vera möguleikar á því að koma upp eldisþróm með tiltölulega auðveldum hætti. Mætti oss þá takast að slíta enn eina burst úr nösum þess sem eldunum stýrði í Vestmannaeyjum forðum. Í öxarfirði norður hófust myndarlega í sumar tilraunir á fiskeldi í lóninu mikla, sem við þeim blasir sem aka Tjörnesveginn, og gáfu mjög góða raun bara við það hitastig sem í lóninu er. En einnig þar á að vera ákaflega auðvelt að fá jarðhita til þess að verma upp sjóinn og einnig að stýra seltumagni í sjónum. Ef okkur gæti með þessum hætti auðnast að finna enn nýja leið til þess að nýta orkuna, sem þetta land hefur að bjóða, hitaorkuna, okkur til velferðar og auka nytsemi landsins fyrir duglegt og útsjónarsamt fólk, þá hygg ég að við ættum kannske ekki leið til þess að verja 900 millj. kr. betur á 5 árum heldur en þá sem gerð er grein fyrir í þessu frv.