15.05.1979
Efri deild: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4785 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

302. mál, leiðrétting söluskatts af leiksýningum áhugafélaga

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 678 hef ég leyft mér ásamt þeim hv. þm. Braga Níelssyni, Alexander Stefánssyni og Þorv. Garðari Kristjánssyni að flytja till. til þál. um leiðréttingu söluskatts af leiksýningum áhugafélaga. Till. er svohljóðandi:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir lagfæringum á söluskattsinnheimtu af tekjum áhugaleikfélaga af starfsemi sinni.

Niðurfelling eða lækkun söluskatts af þessum ástæðum skal einungis bundin tekjum af leiksýningunum sjálfum, en nái ekki til annarrar samhliða starfsemi áhugafélaganna, og skulu um það sett ströng skilyrði í reglugerð.“

Í grg. segir í raun og veru allt það sem segja þarf í þessu máli. Ég skal ekki tefja tíma d. með því að rekja alla þá baráttu sem fyrir þessu hefur verið háð og kannske hjá hliðstæðum aðilum reyndar líka. Í grg. segir:

„Um fjölmörg undanfarin ár hafa áhugaleikfélögin barist fyrir því að fá leiðréttingu á söluskattsmálum sínum. Erindi þeirra hefur jafnan verið vel tekið, málið farið í nánari athugun, en síðan hefur ekkert gerst. Hér er um þunga byrði að ræða, og mjög algengt er að félögin skili hærri upphæð til ríkissjóðs en nemur styrk ríkisins til starfsemi þeirra.

Hér þarf að fást á einhver leiðrétting til að létta áhugaleikfélögunum þungan róður við að halda uppi menningarstarfsemi sinni, sem viðurkennt er af langflestum að eigi sér fyllsta rétt og sé snar þáttur í menningarlífi okkar, alveg sérstaklega úti á landsbyggðinni.

Menn hafa talið ýmis tormerki á því, að unnt væri að greina á milli leiksýninganna sjálfra og annarrar fjáröflunar, svo sem dansleikja. Flm. eru sammála því, að hér þurfi að draga skýr mörk, svo einungis verði um niðurfellingu eða lækkun að ræða af tekjum félaganna af leiksýningunum einum.

Það hlýtur hins vegar að teljast óviðunandi með öllu, að sjálfboðaliðsstarf af þessu tagi sé skattlagt svo af hinu opinbera, að styrkur ríkisins til þessarar starfsemi nægi jafnvel ekki til þess að koma þar á móti.

Flm. treysta því, að unnt sé að finna millileið í þessu máli, þar sem komið sé til móts við áhugafélögin, og því er þessi till. flutt.“

Aðeins til viðbótar þessu vil ég segja það, að hér er máli hreyft sem er að vísu svo seint fram komið að við flm. gerum okkur ekki miklar vonir um að það nái fram að ganga, nema viðbrögð n. verði þeim mun skarpari. Hins vegar þótti okkur sjálfsagt að vekja á þessu athygli, sérstaklega með tilliti til þess, að nú að undanförnu hefur verið starfandi sérstök n. hjá áhugaleikfélögunum sem hefur unnið að því að fá á þessu leiðréttingu. Sú n. hefur unnið mikið og gott starf og m. a. sýnt fram á það, sem sagt er í grg., að sú fjárhæð, sem mörg þessara félaga greiða til ríkissjóðs í gegnum söluskattsinnheimtu, er hærri en styrkur ríkisins til þessarar sömu starfsemi. Þegar ég sá þessa skýrslu, sem nú liggur fyrir og bráðum verður birt opinberlega, var mér mætavel ljóst að við svo búið mátti ekki standa, við yrðum að taka á þessu máli, og þessu máli mun áreiðanlega verða hreyft áfram á þingi ef stjórnvöld sjá ekki möguleika á því að setja þarna á einhverja leiðréttingu. Hins vegar er það rétt, eins og segir í grg., að aðalótti þeirra, sem með þessi mál fara í rn., er varðandi það að leikfélögin fari í kringum þessi ákvæði, þau haldi t. d. dansleiki og reyni að sleppa við söluskatt af þeim samhliða og verði erfitt að greina á milli hreinna leiksýninga, sem fólk leggur mikla vinnu í í sjálfboðastarfi, og svo þess sem aftur er hrein fjáröflunarstarfsemi og er auðvitað algerlega óskylt þessu máli.

Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Við væntum þess vitanlega, að hv. menntmn. geti tekið þetta mál til meðferðar og afgr. það. Við höfum séð mjög röskleg vinnubrögð hjá nefndinni á síðustu dögum, ekki síst núna varðandi Fjárfestingarfélag Íslands sem hefur flogið hér í gegn, og ekki ættu áhugaleikfélögin síður að eiga hér talsmenn heldur en þeir hjá Fjárfestingarfélagi Íslands. Þetta ætti að vera mögulegt, vegna þess að hér er aðeins um áskorun að ræða að beita sér fyrir lagfæringum á söluskattsinnheimtu. Þó ég hefði sjálfur út af fyrir sig viljað flytja frv. — og hef lengi viljað — um niðurfellingu þessa, þá viðurkenni ég annmarkana, sem geta verið hér á, og vil þess vegna reyna þessa áskorunarleið og treysti því, að menntmn. geti afgr, svo hógværa áskorun sem hér er um að ræða frá okkur fjórum þm. þessarar deildar og geti afgr. þetta mál og það megi verða til þess að það þing Bandalags ísl. leikfélaga, sem haldið verður innan skamms, fái a. m. k. vissa viljayfirlýsingu frá Alþ. um, að reynt sé að vinna að þessum málum, og geti litið örlítið bjartari augum a. m. k. til þessa máls í framtíðinni heldur en er í dag eftir vinnu undanfarið í þessum málum.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað,til hv. menntmn.