08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

71. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þessar umr. Þær hafa verið fróðlegar og ánægjulegar, ekki síst miðað við það sem berst okkur og talað er hinum megin við þilið. Ég tel ástæðu til að taka undir þetta mál, sem er mjög merkilegt, og ekki síst þakka fróðlega framsögu hv. 1. flm.

Það er enginn vafi á því, að það stendur okkur fyrir þrifum, ef svo má að orði komast, ekki síst á þessu sviði og raunar mörgum fleiri, hvað lítið er sinnt raunverulega auknum rannsóknum og tilraunum. Það hefur víða komið fram, að við eigum á þessum sviðum mjög hæfa vísindamenn í auknum mæli á síðari árum, og þegar ég hef verið með þeim á ráðstefnum hefur alltaf komið fram, að það sem á hefur skort, er fjármagn. Þeir hafa frætt okkur um ýmsa mikilvæga þætti, sem þeir hafa verið að vinna að, og ýmsa mikla möguleika sem þjóð okkar hefur yfir að ráða ef rétt væri að staðið.

Ég minnist þess að fyrir örfáum dögum kom einn af slíkum mönnum, sem nú er forstöðumaður Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins, á fund í fjvn., og hann var einmitt að fræða okkur þar á skyldum tilraunum við það sem kom fram í framsögu hv. 1. flm. þessarar till. um mikilvægi þessara tilrauna. M.a. sagði hann okkur ítarlega frá því, sem er að gerast á Lóni í Öxarfirði, og það er sannarlega hugvekja og ætti að koma víða fram hvað þessir menn, bæði hann og fleiri, búa yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og ætti raunar löngu að vera búið að taka fullt tillit til þess. Ég minnist þess í þessu sambandi, að það er merkileg tilraun sem hefur verið gerð vestur á Snæfellsnesi, í Lárósi, í sambandi við fiskeldi á þessu sviði sem hefur sannarlega borið mikinn árangur. Þar eru skilyrði sem sannarlega er hægt að nýta betur en gert er og hafa sannað ýmsa möguleika.

Ég hef hlustað á marga áhugamenn á þessu sviði sem hafa verið að láta sig dreyma um víðtækara fiskeldi. Hafa verið tilnefndir staðir eins og Kolgrafafjörður og Hraunsfjörður á Snæfellsnesi sem væru vel fallnir sem vissar uppeldisstöðvar til slíkra rannsókna og tilrauna.

Þetta er eitt af þeim málum sem mér finnst nauðsynlegt að við sameinumst um að reyna að þoka til betri vegar en þegar hefur gerst. Þegar hlustað er á okkar ágætu vísindamenn halda fyrirlestra og lýsa því, sem þeir eru að vinna að, og þeim miklu möguleikum, sem fyrir hendi eru, þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig: Hvernig stendur á því, að þjóð eins og Íslendingar, sem á allt sitt undir því að framleiða það sem hafið í kringum landið fyrst og fremst býður upp á, sinnir ekki betur en gert hefur verið þessu hlutverki. Þess vegna vil ég taka undir með flm. þessa frv. um nauðsyn þess, að menn fari nú að sinna þessum málum á réttan hátt með því að stuðla að auknu fjármagni, svo að það skili sér betur en gert hefur frá þeim ágætu mönnum sem við eigum marga góða á þessu sviði í landi okkar.