15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4794 í B-deild Alþingistíðinda. (4082)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Í nokkur ár hafa verið uppi um það ráðagerðir að koma á stofn hitaveitu fyrir Akranes, Borgarnes og Hvanneyri.

Hitakostir eru víða í Borgarfirði og höfðu farið þar fram ýmsar frumathuganir.

27. okt. 1976 fól dr. Gunnar Thoroddsen, þáv. iðnrh., Edgar Guðmundssyni verkfræðingi að kanna nánar þá kosti, sem til greina koma við gerð hitaveitu fyrir Akranes, Borgarnes og Hvanneyri, og ræða við rannsóknaraðila og framkvæmdaaðila. Í sept. 1977 kom út áætlun um Hitaveitu Borgarfjarðar gerð af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens hf., Fjarhitun hf. og Verkfræði- og reiknistofunni sf. Sett var á fót samstarfsnefnd fyrir Akranes og Hitaveitu Borgarfjarðar.

30. mars 1978 ritaði samstarfsnefndin dr. Gunnari Thoroddsen. Í því bréfi telur samstarfsnefndin að samningaviðræður við fulltrúa eiganda Deildartunguhvers, sem eru taldar hafa byrjað seint á árinu 1976, hafi ekki borið árangur. Fleira er tiltekið í nefndu bréfi og talið fullreynt að samkomulag varðandi hverinn og vatn úr honum takist ekki. Taldi samstarfsnefndin því óhjákvæmilegt að fara fram á eignarnám á hvernum og jarðhitaréttindum tilheyrandi honum ásamt nauðsynlegu landi vegna virkjunarframkvæmda.

Eftir að fyrrgreind eignarnámsbeiðni barst, fyrir rúmu ári, lét iðnrn. gera ýmsar athuganir. M. a. var aflað upplýsinga frá Orkustofnun og kannað hvaða leiðir væru færar ef til eignarnáms kynni að koma, gerðar voru lögfræðilegar athuganir og m. a. rætt við lögmann samstarfsnefndarinnar. Þá var hinn 2. júlí 1978 farin vettvangsferð að Deildartunguhver. Í þeirri ferð voru fulltrúar frá iðnrn., fulltrúi eiganda Deildartunguhvers, fulltrúi samstarfsnefndarinnar og starfsmenn frá Orkustofnun.

22. júní 1978 var umboðsmanni eiganda Deildartunguhvers, Birni Fr. Björnssyni, formlega send eignarnámsbeiðnin til umsagnar, en hinn 12. maí hafði honum verið afbent beiðnin til kynningar. Í bréfi rn. 22. júní 1978 var þess farið á leit, að umsögn yrði látin í té fyrir 1. ágúst 1978. Umsögn umboðsmanna eiganda Deildartunguhvers er dags. 21. júlí 1978 og barst iðnrn. 27. júlí sama ár. Henni fylgdi ítarleg grg. „um framvindu hitaveitumálsins varðandi Deildartunguhver.“ Í umsögninni kemur m. a. fram að rökstuðning vanti fyrir eignarnámsbeiðninni. Þá kemur þar og fram að sú staðhæfing samstarfsnefndarinnar, að fullreynt sé að samkomulag takist ekki, sé rakalaus fullyrðing og það sé álit umboðsmannanna að reynt verði að stefna til samkomulags.

Fáum dögum eftir að ég tók við starfi iðnrh. í sept. s. l. komu talsmenn undirbúningsaðila hitaveitunnar að máli við mig. Lét ég jafnframt gera yfirlit um stöðu málsins og lagði fyrir að aflað yrði þeirra gagna sem nauðsynleg gætu talist til frekari upplýsinga í málinu.

Hinn 20. sept. 1978 fór rn. þess á leit við Árna Jónsson landnámsstjóra, að hann aðstoðaði rn. við gagnaöflun varðandi nokkrar jarðir í Reykholtsdalshreppi, þ. á m. innsetningu landamerkja fyrir Deildartungu og Kleppjárnsreyki.

Hinn 5. okt. 1978 var farin vettvangsferð með þátttöku fulltrúa frá iðnrn., Landnámi ríkisins og Orkustofnun. Umboðsmanni eiganda Deildartunguhvers var boðin þátttaka, en hann taldi ekki þörf að fara með.

Í þessari ferð var haft samband við flestalla ábúendur og umráðamenn landsréttinda á Deildartungujörðum, Kleppjárnsreykjum og nálægum býlum. Áður en vettvangsgangan fór fram var búið að afla ýmissa gagna um jarðir á þessu svæði í Reykholtsdal, þ. á m. nýrra loftljósmynda, landamerkjabréfa og ýmissa annarra upplýsinga varðandi lönd og ábúendur eða eigendur.

Í ferðinni voru landamerki færð inn á loftmyndir í samræmi við lýsingu landamerkja í landabréfum. Enn fremur voru bréfin kynnt umráðamönnum jarða svo og merkjapunktar sem voru færðir á loftmyndina. Leiðsögumaður vettvangsgöngumanna var Sturla Jóhannesson hreppstjóri að Sturlureykjum.

Þegar eftir þessa ferð setti rn. á fót starfshóp til að vinna að málinu og undirbúa álitsgerð um það. Jafnframt hætti Edgar Guðmundsson verkfræðingur störfum að málinu fyrir rn. og gerðist ráðgjafi undirbúningsaðila hitaveitunnar. Á hann þakkir skildar fyrir störf á vegum rn. að undirbúningi málsins og fyrir samskipti síðan.

Í starfshópi rn. voru Gísli Einarsson deildarstjóri í iðnrn., Kristján Sæmundsson jarðfræðingur hjá Orkustofnun og Pétur Stefánsson verkfræðingur. Unnu þeir mikið og að mínu mati gott starf. .

Í upphafi skipulagði hópurinn starf sitt. Var talið nauðsynlegt, til þess að árangur yrði af störfum hans, að hópurinn kynnti sér allt málið frá grunni.

1. nóv. var enn farin vettvangsferð. Auk starfshópsins var þar með í ferð Árni Jónsson landnámsstjóri. Í þessari ferð voru einkum skoðuð sjálf hverasvæðin. Þá voru og lögð drög að öflun frekari gagna og lagt fyrir að gera uppdrátt með landamerkjum að Deildartungu, Kleppjárnsreykjum og nálægum býlum. Starfshópurinn skilaði mér viðamikilli álitsgerð 27. mars 1979.

Markaðssvæði fyrirhugaðrar hitaveitu nær til Akraness og Borgarness með samtals 6300 íbúa, auk Hvanneyrar og jarða í hreppunum sem hitaveitulögnin fer um. Lætur nærri að markaðssvæðið nái til um 6500 notenda, þannig að hitaveitan fullbúin yrði sú fjórða stærsta á landinu. Vatnsþörf hitaveitunnar fyrir þennan markað hefur verið áætluð 169 sekúndulítrar á árinu 1979, og er þá miðað við aðveituæðar, að megninu til úr asbesti, sem lagðar yrðu í jarðvegsgarð. Olíunotkun til húshitunar á væntanlegu markaðssvæði hitaveitunnar nam sem næst 700 millj. kr. á ári miðað við olíuverð um s. l. áramót, sem mundi svara til um 1250 millj. kr. samkv. núgildandi olíuverði, röskum 103 kr. fyrir lítra.

Rannsóknir vegna hitaveitu til Akraness og Borgarness eiga sér orðið alllanga sögu sem hér er ekki kostur að rekja í smáatriðum. Þess nægir að geta, að rannsóknir á hitaveitukostum Akraness hafa til þessa reynst árangurslitlar. Nokkrar vonir voru bundnar við svokallað Leirársvæði, en vandkvæði eru á nýtingu vatns þaðan vegna kalkútfellingar auk óvissu um vatnsöflun, bæði á heitu vatni og köldu vatni til varmaskipta. Borgnesingar hafa aftur á móti átt ýmissa kosta völ. Þannig er t. d. sýnt að Bæjarsvæðið svonefnda í Andakílshreppi gæti eitt staðið undir hitaveitu til Borgarness og Hvanneyrar.

Hugmynd um sameiginlega hitaveitu til Akraness, Borgarness og Hvanneyrar frá Deildartunguhver sem meginorkuuppsprettu kom fyrst fram fyrir um það bil 7 árum, þ. e. fyrir olíukreppuna 1973, en þá þótti vafasamt um hagkvæmni slíkrar hitaveitu fyrir Akranes. Hugmyndin var svo endurskoðuð á árinu 1976, og þótti þá sýnt að slík hitaveita gæti orðið hagkvæm, en í millitíðinni höfðu miklar olíuhækkanir komið til.

Hverasvæðin í Borgarfirði, sem ætlunin er að nýta fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, eru hluti af hinu víðáttumikla jarðhitasvæði í Borgarfirði sem nær m. a. yfir Reykholtsdal og Bæjarsveit. Hér er um að ræða suðvestasta hluta jarðhitasvæðisins með þremur aðalhverasvæðum, þ. e. kringum Bæ í Bæjarsveit, svæðið milli Kletts og Runna í Reykholtsdal og svæðið milli Deildartungu og Kleppjárnsreykja í Reykholtsdal. Ekki hefur enn verið borað á hverasvæðinu milli Kletts og Runna, en hin svæðin eru talin gefa örugglega um það bil 300 sekúndulítra af heitu vatni. Þar af gefur hverasvæðið í Bæjarsveit, miðað við meðaldælingu á ári, 50 sekúndulítra af 93 gráðu heitu vatni, Deildartunguhver gefur 180 sekúndulítra af 100 gráðu heitu vatni og Kleppjárnsreykjahver 70 sekúndulítra einnig af 100 gráðu heitu vatni. Samtals eru þetta um 300 sekúndulítrar. Til frádráttar kemur það vatnsmagn sem eigendur jarðhitans halda eftir til eigin ráðstöfunar, en það eru t. d. í Deildartunguhver 10 sekúndulítrar samkv. fyrirliggjandi frv.

Um hugsanleg áhrif vinnslusvæðanna hvers á annað við vinnslu á heitu vatni er lítið vitað enn sem komið er. Þó virðist ljóst að greitt samband er á milli tveggja vinnslusvæða innan sama hverasvæðis, eins og fram hefur komið í Bæjarsveit, þannig að dæling á einu vinnslusvæði er talin fella þrýsting eftir endilangri hveralínunni og minnkar þar með rennsli til yfirborðs á hverasvæðinu öllu. Hliðstæð áhrif milli hverasvæðanna gætu komið fram við langtímavinnslu á heitu vatni á einhverju einu þeirra. Aðeins reynslan fær úr því skorið, hvort slík áhrif koma fram og hversu mikil þau kunna að verða.

Hverasvæðið í Bæjarsveit stendur eitt undir hitaveitu til Borgarness og Hvanneyrar, en ekki til Akraness. Eigi Akranes að fylgja með verður að sækja meginhluta vatnsins til hverasvæðanna austar, og yrði Deildartunguhver þá eðlilega meginstofn hitaveitunnar, enda er augljóslega óhagkvæmt að afla vatns til hitaveitunnar með borunum og dælingu miðað við að kostur sé á að fá Deildartunguhver til virkjunar. Vatnsvinnslan mun þó lengi framan af byggjast á sjálfrennsli, þannig að röskun yrði ekki á yfirborðsjarðhita meðan það endist.

Áætlun Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar byggist á spá um þróun byggðar í náinni framtíð. Íbúar á Akranesi voru 4654 1. des. 1976. Með tilvísun til byggðaþróunar þar og tilkomu járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga gerir áætlunin ráð fyrir 5% árlegri aukningu næstu 3 árin, en 4% á ári upp frá því. Íbúar í Borgarnesi voru 1. des. 1976 1433. Í Borgarnesi hefur verið í byggingu stór mjólkurstöð og gróska í byggingarstarfsemi. Leiddar eru að því líkur, að húsrými aukist um 11% á ári næstu 3 árin í Borgarnesi. Eftir 1980 er reiknað með 5% árlegum vexti í 4 ár, en síðan 3% árlega til aldamóta. Það vekur athygli að aukningartölur þessar eru allmiklu hærri en meðalíbúafjölgun í landinu nemur. Þar kemur þó fleira til, eins og síðar verður að vikið.

Aflþörf einstakra húsa á svæðum þessarar hitaveitu miðast við að geta viðhaldið 20 gráða innihita við svokallað grunnhitastig, sem ræðst af veðurfari á hverjum stað. Við mat á aflþörf á Akranesi hefur verið stuðst við sömu forsendur og við hönnun Hitaveitu Reykjavíkur, en í Borgarnesi og á Hvanneyri er aflþörfin áætluð 10% meiri vegna kaldara veðurfars.

Heildarvatnsþörf Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, miðað við yfirstandandi ár, er talin vera, eins og áður er getið,169 sekúndulítrar, en vaxa í 339 sekúndulítra að 20 árum liðnum. Svavar það til afls er nemur um 28 mw. nú og 60 mw. eftir 20 ár hjá notendum. Áætlun um þessi atriði er reist á tilteknum forsendum um aflþörf í húsum, um byggðaþróun og um efni og frágang á aðveituæð.

Aðveituæð frá Deildartungu til Akraness yrði um 63 km að lengd eða nær þrefalt lengri en nokkur aðveituæð hitaveitu hér á landi. Arðsemi veitunnar ræðst því mjög af stofnkostnaði aðveitunnar. Áætlun Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar gerir ráð fyrir að aðveituæðin verði að megni til óeinangruð asbestpípa, sem lögð er á jafnað yfirborð landsins og hulin jarðvegsgarði yfir. Nokkur reynsla er af slíkum frágangi aðveituæða hér á landi, m. a. hefur 19 km asbestæð í jarðvegsgarði verið í notkun hjá Hitaveitu Húsavíkur frá árinu 1970. Vídd hitaveituæðarinnar í Borgarfirði er áformuð á bilinu 35–45 cm í þvermál. Ljóst er að varmatap verður mikið á hinni löngu leið, og er afltap í aðveituæðinni áætlað um 12.5 mw. miðað við mesta álag í byrjun eða um þrefalt miðað við einangraða pípu. Í brú yfir Borgarfjörð er fyrirhuguð einangruð stálpípa í plastkápu, og er sá hluti að sjálfsögðu háður smíði brúarinnar. Kaflinn yfir Leirárvog, sem er ca. 1.1 km á lengd, hefur verulega sérstöðu að því er varðar gerð og öryggi aðalæðarinnar. Þar hafa verið kannaðar fjórar leiðir, en nokkurt starf mun enn óunnið við forhönnun þess kafla.

Mjög hefur verið vönduð athugun á eignarréttindum þar efra, svo sem greinilega kemur fram í aths. með lagafrv., en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. veðmálabókum er Sigurbjörg Björnsdóttir (fædd 18. nóv. 1886) eigandi Deildartunguhvers ásamt landi umhverfis hann frá 23. okt. 1953. Þessa er jafnframt getið í landsskiptagjörð frá 22. febr. 1973.

Í skiptum á dánarbúi Jóns Hannessonar segir í skiptagerð erfingjanna frá 23. okt. 1953, m. a.: „....Deildartunguhver ásamt nokkru landssvæði umhverfis fellur í hlut Sigurbjargar Björnsdóttur, en þó fylgja jörðinni ókeypis hitaréttindi til venjulegra heimilisnota.

Erfingjar skulu strax ákveða stærð landssvæðisins og afmarka hreinlega.

Landssvæðið, sem taka skal eignarnámi ásamt jarðhitaréttindum, er um 16 800 fermetrar að stærð og er það eign Sigurbjargar Björnsdóttur samkv. veðmálabókum, eins og greint var frá hér að framan. Í þessu sambandi bendi ég sérstaklega á fskj. 1, sem er hluti af 1. gr. frv. Bendi ég á að uppdráttur þessi er gerður með landfræðilegum hnitum, en stærð landsins, sem taka skal eignarnámi, er samkv. beiðni Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

Starfshópur rn., er vann að undirbúningi málsins, kannaði alla þætti þess sem talið var að skipt gætu máli fyrir forsendur hitaveitunnar og átti í því sambandi skipti við fjölmarga aðila er aðstoðuðu við gagnaöflun. Einnig var þm. kjördæmisins kynnt þróun mála eftir því sem réttmætt var talið.

Áætlun um stofnkostnað veitunnar var endurskoðuð að tilhlutan starfshópsins. Er nú talið líklegt að heildarkostnaður liggi á bilinu 5.4–6 milljarðar kr. og er þá miðað við eftirgjöf af aðflutningsgjöldum að upphæð 680 millj. kr. Meginniðurstaða starfshópsins af könnun á fjárhagslegum grundvelli hitaveitunnar, ekki síst út frá þjóðhagslegu sjónarmiði, er sú, að miðað við aðgang að Deildartunguhver og þau ytri skilyrði, sem ríktu um s. l. áramót, sé um arðbært fyrirtæki að ræða. Kostnaðarverð orkunnar kominnar til neytenda er þannig talið breytast úr 89% af olíukostnaði árið 1982 í 66% árið 2000. Jafnframt eykst árlegur ávinningur, þ. e. hagnaður + sparnaður notenda, úr 94 millj. kr. árið 1982 í 589 millj. kr. árið 2000. Er þetta — vel að merkja — allt á verðlagi 1. jan. 1979. Nánar er þetta skýrt í VI. kafla á bls. 6 í aths. við frv.

Starfshópurinn leiðir einnig að því líkur, að stofnfé muni endurheimtast með 14% vöxtum og sé ávöxtun stofnfjár samkv. því mun hærri en nemur almennum vaxtakröfum fjárfestingarlána á alþjóðlegum peningamarkaði, sem nú er talið vera almennt um 7–11%.

Um síðustu atburði í olíuheiminum þarf ekki að fjölyrða. Engum getum skal að því leitt, hvort áhrifa þeirra gætir lengur eða skemur. Til hins hníga gild rök, að langtímaþróun í olíumálum verði þessu fyrirtæki til styrktar.

Starfshópur rn. hefur jafnframt metið niðurstöður frumáætlana Fjarhitunar hf. um hitaveitu á Akranesi með afgangsvarma frá járnblendiverksmiðju á Grundartanga og fjarvarmaveitur frá kyndistöðvum með svartolíu og afgangsraforku. Hvorugur þessara kosta er að áliti starfshópsins og jafnframt rn. samkeppnisfær við sameiginlega hitaveitu frá jarðhitasvæðum í Borgarfirði í náinni framtíð.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að fyrirhuguðu eignarnámi með tilliti til stjórnarskrár og gildandi laga. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 frá 17. júní 1944, segir í 67. gr.:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“

Í orkulögum, nr. 58 frá 29. apríl 1967, segir í 14. gr.: „Þegar almenningshagsmunir krefjast þess, er ríkisstj. heimilt að taka jarðhita eignarnámi í vinnsluskyni eða til að afstýra því, að borun á jarðhitasvæði spilli verðmæti hagnýtingar, sem hafin er á jarðhita í námunda við svæðið.“

Þá segir í 16. gr. sömu laga:

„Nú er jarðhiti tekinn eignarnámi, og eru þá landeigendur og leiguliðar á því svæði, þar sem hann á að koma til afnota, skyldir að þola öll mannvirki, er af notkun leiðir, á löndum sínum og lóðum, svo og láta af hendi land og mannvirki. Þeim er einnig skylt að þola hvers konar afnot af landi, takmarkanir á umráðarétti og óþægindi, sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar verksins, viðhalds þess og starfrækslu. Fullt endurgjald skal koma fyrir. Náist ekki samkomulag, skal það ákveðið með mati.“

Nú kynni einhver að spyrja, hvers vegna hér er ekki notuð eignarnámsheimild orkulaganna í stað þess að leggja fram sérstakt frv. um eignarnám. Því er til að svara, að dómstólar hafa úrskurð um hvort almenningsþörf krefjist eignatöku. Ef eignarnám er aftur á móti samþ. af löggjafanum munu dómstólar ekki telja sig bæra að fella slíkt ákvæði úr gildi ef skýra má það þannig að það samrýmist stjórnarskránni. Þessi skoðun kemur m. a. skýrt fram í ritum hjá prófessor Ólafi Lárussyni, í bók hans um eignarrétt, og hjá prófessor Gauti Jörundssyni í riti hans um eignarnám.

Ég tel að með því, sem ég hef rakið að framan og skýrt kemur fram í aths. með lagafrv., hafi fullkomlega verið sýnt fram á almenningsþörfina. Þá tel ég og að með millígöngu starfshóps rn. um hinar ítarlegu sáttatilraunir sé í einu og öllu fullnægt ákvæði orkulaganna í 16. gr. um samkomulagstilraunir.

Um framkvæmd eignarnáms fer sem kunnugt er að lögum nr. 11 frá 1973. Matsnefnd eignarnámsbóta er skipuð af dómsmrh. Til meðferðar hvers mats kveður formaður tvo eða fjóra hæfa og óvilhalla menn, en sjálf er nefndin skipuð tveimur mönnum. Starfshópur rn. hafði milligöngu um samningaumleitanir milli aðila, svo sem báðir aðilar óskuðu eftir, og það vil ég að skýrt sé, að þessi milliganga rn. var samkv. ósk beggja aðila. Haldnir voru 19 bókaðir sáttafundir auk fjölmargra upplýsingafunda, svo sem ítarlega er rakið í VII. kafla í aths. við frv. Ég vil taka upp orðrétt niðurlag aths., en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Lokaboð Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, kr. 12.5 millj. á ári miðað við 150 sekúndulítra, svarar til afgjalds kr. 83 333 pr. sekúndulítra á ári.

Lokaboð fulltrúa eiganda Deildartunguhvers gerir ráð fyrir 18 millj. kr. árgjaldi eða 120 þús. kr. afgjaldi pr. sekúndulítra á ári fyrstu 9 árin, en stighækkandi úr því upp í 84.4 millj. kr. árgjald árið 2000 eða 589 333 kr. pr. sekúndulítra á ári.

Sé stighækkandi árgjaldi í lokaboði fulltrúa eigenda Deildartunguhvers breytt í jafngilda annuitetsröð með t. d. 6% vaxtakröfu svarar það til 35.8 millj. kr. jafnrar árgreiðslu eða rúmlega 238 þús. kr. pr. sekúndulítra á ári.

Það er skoðun starfshópsins að með lokaboði sínu sé Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar komin það nærri þeim mörkum sem starfshópurinn að breyttu breytanda telur eðlilegt með tilliti til þeirra fordæma í samningum, matsgjörðum og dómum, sem honum eru kunn, að tilgangslaust sé, í ljósi hins djúpstæða ágreinings í millum aðila, að leggja fram sáttatillögu.“

Herra forseti. Með máli mínu og aths. þeim, sem því frv., sem hér er fram lagt og ríkisstj. stendur að, fylgja, tel ég að skýrt sé sýnt fram á almenningsþörfina að baki þeirri eignarnámsheimild sem hér er leitað eftir. Jafnframt á að vera ljóst, að óhjákvæmilegt var að leggja frv. þetta fram til að tryggja mikilvægu hagsmunamáli 6500 manna byggðar á Vesturlandi brautargengi.