15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4801 í B-deild Alþingistíðinda. (4085)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki frekar en þeir, sem á undan mér hafa talað, fara að tala lengi, en ég vil við þetta tækifæri segja það tvennt, að mér eru það að sönnu mikil leiðindi að ekki skyldi nást samkomulag um þetta mál og ég var það bjartsýnn að ég vonaðist til að það tækist. Ég tel að við höfum átt að því aðild, þm. Vesturl., að þrautreyna umræður um þetta mál sem til samkomulags mættu leiða, og það var von okkar að það tækist. Þess vegna óskuðum við eftir því við hæstv. iðnrh. og rn. hans og þann starfshóp, sem hann hafði myndað og vann að málinu, að samkomulag yrði reynt til þrautar áður en til annarra ráða yrði að grípa. Út af fyrir sig þýðir ekki um það að tala úr því að ekki náðist samkomulag. Ég held að segja megi að báðir aðilar hafi reynt þar til þrautar, þó að svo mikið bæri á milli að ekki var brúanlegt frá sjónarmiði þeirra, sem njóta áttu, og iðnrn.

Ég lít svo á, að hér sé um að ræða mjög mikið hagsmunamál fyrir verulegan hluta íbúa Vesturlands. Ég vona að hv. Alþ. meti það svo og leggi þessu máli því lið svo að það megi fá afgreiðslu fyrir þinglok. Að því hefur verið unnið af hálfu okkar þm. að fjárútvegun væri til staðar til að hefja framkvæmdir á þessu ári, enda er ljóst að það er mjög aðkallandi að hraða verkinu eins og tök eru á þar sem svo brýnir hagsmunir eru í veði.

Ég vil og við þetta tækifæri þakka bæði fyrrv. og núv. iðnrh. fyrir hvað þeir hafa lagt sig fram um að vinna að lausn þessa máls. Ég tel að þeir hafi báðir gert það mjög svo vel og drengilega og lagt sinn skerf til þess að leysa málið á farsælan hátt. Ég vil segja það, að það, sem fram kom í upplýsingum hæstv. iðnrh. í framsöguræðu hans áðan, sýnir að vel hefur verið að þessu máli staðið. Ég vil og þakka þeim aðilum öðrum, sem fóru með þessi mál á vegum rn., bæði í tíð hæstv. fyrrv. iðnrh. og hæstv. núv. iðnrh., og þeim öðrum sem störfuðu með deildarstjóranum í rn.

Ég treysti því, að við framkvæmd þessa máls, þegar til kemur að af framkvæmdum verður, verði tryggt svo sem auðið er og nauðsyn ber til að sveitir þær, sem geta notið góðs af þessari framkvæmd, fái að njóta hennar. Ég tel að gerð sé grein fyrir því í grg. þeirri, sem frv. þessu fylgir, og það verði gert, og ég treysti því að innan hæstv. ríkisstj. og iðnrn. verði slíkt ofan á þegar til afgreiðslu málsins kemur í höndum þeirra sem taka við því þegar þetta frv. hefur náð fram að ganga og framkvæmd hefur farið fram samkv. því.

Ég vil og vona og treysta því, að þrátt fyrir að ekki hafi tekist samkomutag um þetta mál að sinni muni það ekki spilla fyrir því að framkvæmdin geti farið fram með eðlilegum hætti og með skilningi beggja aðila.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vil taka það fram að lokum, að nauðsyn ber til að hraða afgreiðslu málsins á þann veg, að það komist í gegn á hv. Alþ. fyrir þinglausnir, og hraða jafnframt öðrum þáttum er að því lúta, svo að til framkvæmda geti komið á yfirstandandi ári.

Ég vil svo endurtaka þakkir mínar til þeirra sem að lausn málsins hafa unnið.