15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (4089)

151. mál, framhaldsskólar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Á þskj. 727 leyfum við hv. þm. Einar Ágústsson okkur að flytja svofellda brtt. við frv. til l. um framhaldsskóla:

„Við 17. gr. frv. bætist eftirfarandi:

Í þéttbýli skulu starfa sérstakir menntaskólar með hefðbundnu sniði, er miði að undirbúningi undir háskólanám. A. m. k. einn slíkur (Menntaskólinn í Reykjavík) skal starfa í Reykjavík, og annar á Akureyri sé þess óskað. Menntaskólum skal sett sérstök reglugerð.

Innganga í menntaskóla skal heimil öllum þeim nemendum, er rétt hafa til náms í framhaldsskólum, hvar sem þeir eru búsettir í landinu. Menntaskólar séu fjögurra ára ríkisskólar, og nemendur, sem í þeim stunda nám, en eiga lögheimili utan viðkomandi þéttbýlis, skulu eiga rétt á styrk (dreifbýlisstyrk).“

Um þessa brtt. þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð. Það er ljóst að um hið stóra frv. til l. um framhaldsskóla eru allskiptar skoðanir meðal skólamanna og margir skólamenn hafa óttast að með of stífri samræmingu verði hefðbundin skólamenntun í landinu of einhæf og of lítið svigrúm skapist. Þess ber og að gæta, að sá skóli, sem hér er tiltekinn, þ. e. Menntaskólinn Í Reykjavík, er stofnun sem á sér sögu sem rekja má margar aldir aftur á bak, er orðinn um margt snar þáttur í sögu þessarar þjóðar. Kjarni till. er að það sé tryggt í þessum lögum, að sá skóli — og ef vill aðrir slíkir — starfi áfram að hætti hefðbundinna menntaskóla.