15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4090)

151. mál, framhaldsskólar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ræddi þetta mál nokkuð við 2. umr. þegar ég mælti fyrir áliti minni hl. menntmn. Ég gagnrýndi þá ýmsa þætti frv., en einkum þó tvennt: Í fyrsta lagi það, að ákveðin atriði í frv. ganga þvert á þá stefnu sem sveitarfélögin í landinu hafa haft uppi um mörg undanfarin ár að því er varðar verkaskiptingu og kostnaðarskiptingu milli ríkisins og sveitarfélaganna. Og í öðru lagi taldi ég að gefist hefði verið upp við raunverulega stefnumótun að því er varðaði framtíð sérskólanna í landinu. Hæstv. menntmrh. hafði sitthvað við orð mín að athuga, og á sama hátt kann að vera að ég hafi ýmislegt að athuga við það sem hann sagði.

Í orðum mínum við 2. umr. rakti ég að gefnu tilefni ályktun fulltrúaráðsfundar Sambands ísl. sveitarfélaga, fulltrúaráðsfundarins sem haldinn var á Húsavík dagana 28. og 29. mars s. l., en sá fundur var haldinn vegna þessa máls. Tilefnið var það sem tekið var upp í álit meiri hl. menntmn. úr ályktun fulltrúaráðsins. Mátti túlka það, sem þar var tekið upp, sem svo að meiri hl. n. væri að verða við tilmælum fulltrúaráðsfundarins um samþykkt þessa frv. Túlkun mín á ályktun fulltrúaráðsins var dregin í efa — dregið í efa að hún væri rétt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja þessa ályktun að nýju. Ég fór yfir hana lið fyrir lið. Hún er í 10 liðum og a. m. k. 7 þeirra eru ýmist mótmæli eða viðvaranir við því að þetta frv. verði samþ. En til viðbótar því, sem ég þá sagði og las upp úr ályktuninni, hlýt ég nú að rekja að nokkru leyti bréf framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga frá 11. maí, en það bréf hefur verið sent, að því er ég best veit, nm. í menntmn. Í bréfinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á stjórnarfundi Sambands ísl. sveitarfélaga í dag“, þ. e. 11. maí, „var rætt um frv. til l. um framhaldsskóla sem nú er til meðferðar á Alþ. Í framhaldi af þeim umr. samþykkti stjórnin svofellda bókun:

Vegna tilvitnunar í áliti meiri hl. menntmn. Nd. Alþingis um frv. til l. um framhaldsskóla í ályktun fundar fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga 28. og 29. mars s. l. vill stjórn sambandsins álykta, að megininntak ályktunar fulltrúaráðsfundarins að því er varðar samaðild ríkis og sveitarfélaga að framhaldsskólanámi er þess efnis, að fulltrúaráðið er ekki reiðubúið til að fallast á að sveitarfélögin verði gerð að rekstraraðila þessa skólastigs ásamt ríkinu með þeim hætti, sem frv. gerir ráð fyrir, og telur það ekki horfa til gleggri verkaskila milli þessara aðila. Stjórn sambandsins túlkar afstöðu fulltrúaráðsins ótvírætt á þann veg að það hafi verið mótfallið fjármálaákvæðum frv., en önnur atriði ályktunarinnar séu mörg sett fram til vara. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga ítrekar tilmæli fulltrúaráðsins í 9. lið ályktunarinnar um að hér sé um svo veigamikið mál að ræða, að það þurfi frekari athugunar við, og mælist eindregið til þess, að afgreiðslu þess verði ekki hraðað nú á lokadögum þingsins.“

Og svo segir hér í lokin:

„Framangreind bókun sendist hér með menntmn. beggja deilda Alþingis. Afrit sendast fulltrúum þingflokkanna.

Magnús E. Guðjónsson.“

Ég held að þetta taki af öll tvímæli um það, hvert hafi verið megininntak ályktunar fulltrúaráðsfundarins. Það er ítrekað af stjórn sambandsins að hún túlki ályktun þessa svo, að þarna sé ekki um að ræða nein meðmæli af hálfu fulltrúaráðsins með samþykkt þessara ákvæða frv.

Hæstv. menntmrh. nefndi í ræðu sinni, að sérstök ályktun hefði borist af Austurlandi þar sem því er fagnað að menntmrn. gangi til móts við óskir sveitarfélaganna að því er það atriði varðar að fjárhagsbyrði þeirra þyngist ekki við samþykkt framhaldsskólafrv. Það er út af fyrir sig kannske ástæða til að fagna því, að ekki eigi að auka fjárhagsbyrði sveitarfélaganna. En hvorki í þessari ályktun né öðrum, sem komið hafa frá sveitarfélögunum, var sagt að koma ætti til móts við sveitarfélögin einmitt með þessum hætti, þ. e. a. s. að létta af þeim kostnaði við viðhald á húsum og búnaði grunnskólans. Þvert á móti hafa sveitarfélögin ályktað á gagnstæðan hátt.

Hæstv. ráðh. sagði einnig að skólamenn um land allt biðu með óþreyju eftir samþykkt frv. Ég efast ekkert um að svo er. Skólamenn hafa áhuga á að fá löggjöf um framhaldsskóla. En spurningin er: Af hverju þarf að fara einmitt að með þeim hætti sem gert er í frv., að kalla fram andstöðu aðila sem hafa svo ríkra hagsmuna að gæta sem sveitarfélögin í landinu? Ég hef grun um að þetta sé einmitt gert vegna þess að Alþb. vill áfram samkrull á núlli ríkisins og sveitarfélaganna á sem flestum sviðum.

Hæstv. ráðh. ræddi einnig um breytingarnar, sem gerðar voru á grunnskólalögunum í desembermánuði 1975 og tóku gildi um áramót 1975–1976, þegar m. a. var lagt á sveitarfélögin að annast að öllu leyti viðhaldskostnað grunnskóla. Hann taldi að ég hefði farið þar með rangt mál, það hefði mátt túlka orð mín þannig, að þetta hefði verið gert fyrir þrábeiðni sveitarfélaganna, og taldi ráðh. að þessum ákvæðum hefði verið mótmælt af stjórn sambandsins, enda gert án samráðs við stjórnina. Hér er misskilningur á ferð. Margir fundir voru haldnir með stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga þegar þessi löggjöf var í undirbúningi, og löggjöfinni var ekki mótmælt að þessu leyti. Hins vegar reis upp ágreiningur — það er rétt það reis upp ágreiningur milli rn. og sambandsstjórnarinnar, en sá ágreiningur byggðist á allt öðrum þáttum en þeim, hvort sveitarfélögin ættu að yfirtaka viðhaldskostnaðinn eða ekki. Sá ágreiningur byggðist á því, hvaða ár væri raunverulega verið að gera upp. Sveitarfélögin fengu aukna tekjustofna-1976 vegna þessarar lagabreytingar, og þeir tekjustofnar áttu að duga fyrir auknum tilkostnaði sveitarfélaganna á því ári, 1976. Sveitarfélögin töldu hins vegar að ríkið ætti þá eftir að gera upp viðhaldskostnaðinn frá árinu 1975. Ýmsir töldu, og þ. á m. ég, að svo væri ekki hægt að túlka löggjöfina. Hins vegar varð um málið fullt samkomulag og sveitarfélögin fengu gert upp árið 1975 með 300 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði. Þar með var það deilumál úr sögunni.

Hæstv. ráðh. sagði einnig að við mundum ekki leysa verkaskiptingarmálið nú, hægt yrði að taka það upp síðar. Það skipti sem sagt máli nú, sagði hæstv. ráðh., að ekki væri lögð aukin fjárhagsbyrði á sveitarfélögin með þessari lagasetningu. Það kann vel að vera að við leysum ekki verkaskiptingarmálið nú, og það gerum við eflaust ekki. En það er hins vegar engin ástæða til að vera að flækja verkaskiptingarmálin milli ríkis og sveitarfélaga meira en þörf er á. Með þessu frv. er einmitt verið að flækja málin að nýju. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. eða þeir, sem vilja standa að samþykkt frv. með þessum hætti, gera sér raunverulega grein fyrir þeirri miklu fyrirhöfn sem er því samfara að gera upp viðhaldskostnað skólanna þegar honum er skipt milli ríkisins og sveitarfélaganna. Í þessu sambandi þýðir því ekki að segja, eins og hæstv. ráðh. sagði, að sveitarfélögin mundu jafnvel hagnast fjárhagslega ef eitthvað væri. Hér er ekki einvörðungu spurning um peninga, hér er verið að tala um meginatriði, meginstefnu sem hæstv. ráðh. virðist alls ekki skilja. Sveitarfélögin hafa haft það meginstefnumið, að fjárhagslegum samskiptum verði hætt þar sem það er mögulegt. Þarna var það hægt og það var gert 1975, en nú á sem sagt að stiga það skref til baka.

Ég sagði að mér virtist sem gefist hefði verið upp við raunverulega stefnumótun að því er varðaði framtíð sérskólanna í landinu. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið, að það hefði aldrei staðið til að taka ákvörðun um framtíð sérskólanna við afgreiðslu frv. Ég veit þá ekki hver var meiningin með framlagningu frv. eins og það var lagt fram. Enginn hefur lagt til að framtíð sérskólanna yrði ákveðin, sagði hæstv. ráðh., og bætti því við að margt væri óljóst um framtíð þeirra. Ég á bágt með að skilja málflutning sem þennan hjá hæstv. ráðh. Mér virðist næstum því af máli hans sem hann hafi ekki lesið 37. gr. frv., sem nú er líklega orðin 38. gr. Ég held ég megi til að lesa hluta úr þeirri grein, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins fljótt og við verður komið að dómi menntmrn. og eigi síðar en að liðnum 5 árum frá gildistöku, sbr. og 35. gr. Jafnframt falla úr gildi lagaákvæði er fara í bága við lög þessi. Eftirtalin lög um skóla á framhaldsskólastigi skulu gilda til bráðabirgða þar til settar hafa verið reglugerðir um tilsvarandi námsbrautir, skólagerðir eða skólastofnanir með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 36. gr., sbr. og lokamgr. þessarar greinar.“

Þá kemur löng upptalning á þeim lagabálkum, sem nú eru í gildi um hina ýmsu sérskóla í landinu, og sé ég ekki ástæðu til þess að telja það allt saman upp. En síðan segir:

Menntmrn. skal þegar hefja undirbúning að framkvæmdum laganna, m. a. með samningu námskrár og öðrum ráðstöfunum er miða að samhæfingu náms á framhaldsskólastigi.“

Ég veit ekki hvað á að kalla þetta ef hér er ekki mörkuð stefnan um framtíð sérskólanna í landinu. En svo segir hæstv. ráðh. að það hafi aldrei staðið til að taka ákvörðun um framtíð þeirra með samþykkt þessa frv. Ég skil ekki svona málflutning.

Nú hefur þessari grein að vísu verið breytt, henni var breytt hér við 2. umr. málsins, þ. e. greinin sem er nú orðin 38. gr., og hún getir einmitt þessa stefnumótun að engu. Henni er allri slegið á frest þegar ákvæði í greininni er orðið svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftirtalin lög um skóla á framhaldsskólastigi skulu gilda til bráðabirgða þar til settar hafa verið reglugerðir um tilsvarandi námsbrautir, skólagerðir eða skólastofnanir með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 37. gr., enda hafi Alþ. áður gefist kostur á að marka stefnuna með samþykkt þál. um meginefni viðkomandi reglugerða, sbr. lokamgr. þessarar greinar.“

Með þessu móti telur meiri hl. n. að komist sé fram hjá þeim vanda sem meiri hl. óhjákvæmilega varð var við þegar tók að rigna yfir nm. mótmælum frá hinum ýmsu aðilum sem ýmist stunda nám eða kenna við hina ýmsu sérskóla í landinu.

Ég þarf ekki í sjálfu sér að hafa um þetta miklu fleiri orð. Öll meðferð þessa máls nú í þinginu er dæmigerð fyrir það, að verið er að þvinga málið í gegn. Allir eru óánægðir. Það sáum við mætavel á atkvgr. við 2. umr. Hún var einstök í sinni röð. Það þurfti að gera margar tilraunir til þess að atkvgr. gæti farið fram. Fyrst var fundi reyndar slitið í miðri atkvgr. s. l. föstudag og síðar, eins og ég segi, þurfti að margendurtaka atkvgr. Bestur árangur náðist við þá grein sem er bráðabirgðaákvæði. Er það kannske dæmigert fyrir alla afgreiðsluna. Þá náðust 23 atkv. og var hæstv. forseti býsna ánægður með þann árangur.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Það hefur reyndar verið lögð hér fram brtt. eftir að 2. umr. fór fram um málið að því er varðar menntaskólana. Get ég út af fyrir sig stutt þá till. Önnur brtt. er fram komin að því er varðar m. a. stjórnunarákvæði frv., sem eru í 21. gr., og mér er nær að halda að hvað sem lagt væri til til þess að greiða úr þeirri flækju hljóti að vera til bóta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en ég læt að lokum í ljós þá von, að þetta frv. verði ekki afgreitt á þessu þingi.