15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4807 í B-deild Alþingistíðinda. (4091)

151. mál, framhaldsskólar

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um það frv., sem hér liggur fyrir, sökum þess að þegar það var tekið til 2. umr. á sínum tíma var ég með fjarvistarleyfi og ekki staddur á fundum Alþ. Ég átti þess ekki kost að komast um langan veg til að sækja þá fundi og gat því ekki gert grein fyrir hvers vegna ég undirritaði nál. meiri hl. menntmn. með fyrirvara. Til þess liggja ýmsar ástæður, bæði varðandi afgreiðslu málsins og eins efnisástæður. Ég vil taka það fram, að því miður mun sá misskilningur hafa orðið, og ég skal fúslega taka á mig fulla sök á því, sá misskilningur er misskilningur minn, að ég taldi að ekki stæði til að fá afgreiðslu á þessu frv. á yfirstandandi Alþ. Ég tek sérstaklega fram, að ég hafði ekki ástæðu til þess að ætla að ekki stæði til að afgreiða frv. sökum þess að hæstv. menntmrh. hefði gefið slíkt í skyn né heldur sökum þess að formaður menntmn. þessarar hv. d. hefði gefið slíkt í skyn — þvert á móti. Hæstv. ráðh. tók það fram, þegar hann mælti fyrir málinu, að hann óskaði eftir því að frv. yrði afgreitt, en af ýmsum ástæðum varð þó sá skilningur hjá mér að ekki stæði til að afgreiða frv. á þessu þingi. Tek ég þann misskilning að öllu leyti á mig. Þetta varð til þess að ég starfaði að málinu með nokkuð öðrum hætti í vetur en ég hefði gert ef mér hefði verið ljóst að um væri að ræða að málið hlyti afgreiðslu.

Ég vil í því sambandi taka fram, að ekki er óeðlilegt á fyrsta þingi eftir kosningar, þegar fjöldi nýrra þm. kemur til starfa á Alþ. sem ekki hafa séð mál þetta áður, þó svo margir eldri þm., sem áður hafa setið á Alþingi, hafi getað um það fjallað, að gefinn sé nokkur frestur á afgreiðslu þessa stóra máls svo að hið nýja Alþ., sem kjörið hefur verið, geti skoðað það, því að sjálfsögðu nýtist lítið nýjum þm. það sem gamlir þm., sem hætt hafa þingstörfum eða fallið hafa í kosningum, hafa að málinu unnið. Ég hefði því talið næsta eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að stefna að því að sýna frv. þetta og ræða það og fjalla um það í n. á fyrsta þingi að loknum kosningum, gefa mönnum kost á því að skoða málið og kynna sér það, ekki aðeins í vetur, heldur einnig í sumar, og stefna síðan að því að málið yrði afgreitt á næsta þingi. Þetta hefði ég talið mjög æskileg vinnubrögð og mjög eðlileg miðað við allar aðstæður.

Ég skal ekki orðlengja um að önnur skoðun er uppi í hæstv. ríkisstj. og meðal félaga minna í stjórnarliðinu. En ég vil taka það fram, að þessi viðhorf komu mjög sterklega fram í Alþfl. þegar þess var sérstaklega óskað fyrir skemmstu að málið yrði afgreitt á yfirstandandi Alþ. Við óskuðum þá eftir því, flestir þm. Alþfl., að málið yrði afgreitt með svipuðum hætti og endanleg afgreiðsla grunnskólafrv. fór fram, þ. e. a. s. að skipuð yrði nefnd til að kynna frv. þetta fyrir sveitarstjórnarmönnum og skólamönnum í sumar, safna upplýsingum um viðhorf þeirra og afstöðu með beinum viðræðum við þessa aðila og fjalla síðan um málið í framhaldi af þeirri upplýsingasöfnun í þingflokkunum. Við buðumst til þess, þm. Alþfl., að standa þannig að málum að hægt væri að afgreiða frv. þegar á næsta hausti, þannig að afgreiðsla þess gæti farið fram á yfirstandandi ári. Þessi skilaboð voru borin hæstv. menntmrh. og greint frá því í hæstv. ríkisstj., að þingflokkur Alþfl. teldi rétt að standa þannig að afgreiðslu málsins. Hæstv. menntmrh. óskaði hins vegar mjög eindregið eftir því, að málið fengist afgreitt á þessu þingi, og ráðh. okkar Alþfl.-manna komu þeirri ósk á framfæri við þm. flokksins. Við tókum þá þá afstöðu, að þó svo að ekki yrði við till. okkar um afgreiðslumáta orðið mundum við ekki tefja meðferð málsins eða standa í vegi fyrir því, að málið gæti hlotið afgreiðslu á Alþ., ef þingmeirihl. væri fyrir því. Þess vegna skrifuðum við undir nál. með fyrirvara og tókum þá ákvörðun, að þó að það viðhorf væri efst á baugi hjá Alþfl. um afgreiðslu málsins, sem ég lýsti áðan, mundum við ekki standa gegn því að hægt yrði að afgreiða málið á þessu þingi ef vilji væri fyrir því og tími gæfist til þess.

Þó bentum við á eitt atriði, sem ég tel ástæðu til þess að vekja athygli hv. þm. á. Í lögum um stjórn efnahagsmála o. fl., sem samþykkt voru á Alþ. 7. apríl árið 1979, eru sem sé enn volg úr ofninum, stendur í 13. gr., með leyfi forseta:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun skal annast hagsýslustarfsemi fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og í meðferð opinberra fjármuna.

Meðal þess háttar verkefna fjárlaga- og hagsýslustofnunar skulu vera, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð:

1. Mat á fyrirhuguðum ríkisframkvæmdum með tilliti til arðsemi, kostnaðar, nytja og þjóðfélagslegs gildis.

2. Kostnaðarmat á tillögum frv. sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þn. á tilsettum tíma.“ — Og lýkur þar tilvitnun í þessa merkilegu lagasetningu, sem enn er volg úr ofninum.

Ég vil taka það fram, að þessi viðhorf um skyldur fjárlaga- og hagsýslustofnunar og framkvæmdavaldsins til þess að framkvæma kostnaðarmat á frv., sem afgreiða á á Alþingi, eru ítrekuð í lögum um opinberar framkvæmdir. Þess vegna hefði mér fundist eðlilegt og raunar skylt um þetta og fleiri mál, að hæstv. ríkisstj. sem barðist svo harðri og ákafri baráttu fyrir því að fá fram sett og samþ. hið merkilega frv. um stjórn efnahagsmála sem varð að lögum á Alþ. þann 7. apríl 1979, gætti þess framar öðru að það frv., sem svo mikla baráttu og mikla fórnarlund hafði kostað, yrði virt af Alþ. sjálfu. Nú skal ég taka það fram, að að sjálfsögðu er hægt í þessu máli eins og öðrum, sem fyrir liggja, að koma slíku kostnaðarmati fram áður en málið er afgreitt og jafnvel áður en þm. ljúka meðferð málsins, en þá að sjálfsögðu ekki fyrr en í síðari d., þ. e. a. s. í menntmn. hv. Ed. sem væntanlega fær þetta mál þegar það er útrætt og ef það verður afgreitt hér.

Nú ætla ég að gerast svo djarfur að koma þeirri ósk á framfæri héðan úr ræðustól Alþ., að fjárlaga- og hagsýslustofnun framkvæmi umrætt kostnaðarmat og komi því til viðkomandi þn., eins og nýsamþykkt stórmerkileg efnahagslög hæstv. ríkisstj. mæla fyrir um, og ég tel mig vita að hæstv. ráðh. muni öðrum fremur hafa áhuga á að þessi þáttur efnahagslaganna nái fram að ganga.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að við óskuðum eftir því mjög fljótt þegar fjallað var um mál þetta í hv. menntmn. þessarar hv. d. að kostnaðarmat yrði framkvæmt eins og lög gera nú ráð fyrir að gera skuli. Við fengum kostnaðartölur frá menntmrn., þar sem lauslega var áætlaður kostnaður við framkvæmd laganna, sem bentu m. a. til þess að til þess að þeirri grunnverknámskennslu yrði við komið, sem frv. gerir ráð fyrir, skorti um það bil 2.5 milljarða kr. á núverandi verðlagi. Ég þakka hv. formanni menntmn. fyrir að hafa beitt sér fyrir því að fá þessar upplýsingar frá frá menntmrn., en kem enn og aftur að því, að samkv. 13. gr. laga um stjórn efnahagsmála o. fl. ber fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem á um þessi mál að fjalla og undirbúa till. um þau til ríkisstj. og Alþ. og starfa með fjvn. að tillögugerð um fjárlög, að gera slíkt kostnaðarsamt. Ég tel að það skilyrði efnahagslaganna hafi enn ekki verið uppfyllt hvað þetta frv. varðar, en á fastlega von á að hæstv. ríkisstj. sjái svo til að hún hlíti eigin lögum.

Þetta vildi ég sagt hafa í almennum orðum um afgreiðslu málsins og tel ég mig þá hafa gert grein fyrir hvers vegna við hv. þm. Eiður Guðnason undirrituðum nál. meiri hl. menntmn. þessarar hv. d. með fyrirvara.

Um efnisatriði málsins ætla ég ekki að halda langa tölu, en þó kemst ég ekki hjá því að fara nokkrum orðum um þau, t. d. sökum þess að við hv. þm. Eiður Guðnason höfum flutt á þskj. 728 þrjár brtt. við frv.

Í fyrsta lagi skyldum við skoða hvaða ástæður liggja fyrir því, að þetta frv. um framhaldsskóla er fram komið og svo mikið liggur við að það verði afgreitt. Ástæðan liggur að sjálfsögðu, eins og svo oft áður, í fyrri aðgerðum framkvæmdavalds og löggjafarvalds, að menn hafa oft ekki séð fyrir endinn, þegar þeir tóku til við upphafið. Staðreyndin er sú, að grunnskólalögin, sem Alþ. samþykkti á sínum tíma og enn eru ekki komin til framkvæmda nema að óverulegu leyti, kalla beinlínis á að sett verði ný löggjöf um framhaldsskólana. Starf að samningu slíkrar nýrrar löggjafar hefur meira mótast, að því er ég tel vera, af eins konar nauðvörn fræðslukerfisins frekar en af því að vilji væri til þess í fræðslukerfinu að taka til athugunar hugmyndir um breytingar og endurbætur sem væru gerðar á framhaldsskótakerfinu án tillits til þeirra vandkvæða sem setning grunnskólalaganna, á sínum tíma skapaði.

Nú er það að sjálfsögðu alveg ljóst, að með þeim breytingum, sem gerðar voru með setningu grunnskólalaganna og að mínu viti voru margar til góðs, en aðrar mjög til ills, hefur brotist fram mikil alda nemenda sem sækja inn í framhaldsskóla, en framhaldsskólarnir hafa átt erfitt með að taka við. Að margra fróðra manna sögn hefur sú alda, þó hún væri ansi stór, ekki að sama skapi verið rishá að gæðum. Því hefur svo farið, að framhaldsskólakerfið hefur hálfvegis kaffærst í þeirri öldu nemenda sem sprottið hefur af grunnskólakerfinu, — nemenda sem eru á margan hátt vanbúnir til að stunda hið hefðbundna nám í framhaldsskólakerfinu eins og það er og hefur verið, einkum að stunda hið hefðbundna nám í bóklegum framhaldsskólum, svo sem menntaskólum og öðrum slíkum stofnunum, sakir þeirrar einföldu staðreyndar, að svo virðist vera., að fróðra manna sögn, að námsgetu og námsundirbúningi þeirra nema, sem fara til náms í æðri skólum, hefur stórlega hrakað. Ég held að þessi árangur grunnskólalaganna, ef árangur má kalla, hvað sem annað má um þau segja, sé næsta óumdeildur meðal skólamanna, a. m. k. í bóklegum skólum framhaldsskólastigsins og á æðri skólastigum. Ég minni aðeins á margítrekaðar yfirlýsingar og frásagnir háskólarektors um áhrif grunnskólalöggjafarinnar á námið á háskólastigi og á þá nemendur sem þangað hafa komið til náms. Flestallir, sem um þessi mál hafa talað og fara með stjórnunarstörf á vegum Háskóla Íslands, eru sammála um að í þeirri stofnun sé það orðið meiri háttar vandamál hversu undirbúningur nemenda, margra hverra sem þangað koma, sé orðinn slakur. Það er rætt um það í alvöru innan fjölmennustu deilda í Háskóla Íslands, að innan 5 ára hafi flestallar deildir við Háskólann neyðst til þess að taka upp inntökupróf, þar sem þeir, sem deildum stjórna, sjái ekki fram á annað en ef Háskóli Íslands ætlar að halda því menntastigi, sem hann hefur haldið á undanförnum árum, verði það ekki gert með öðrum hætti. Þetta er t. d. skoðun fyrrv. háskólarektors, sem þráfaldlega hefur komið fram bæði í rituðu máli og á mannfundum, og núverandi háskólarektor er sömu skoðunar og einnig margir deildarforsetar sem ég hef rætt við. Þessir menn, sem gerst þekkja til áhrifa þessara breytinga á æðra nám á Íslandi, það nám sem stundað er í Háskóla Íslands, fullyrða að það sé aðeins spurning um tíma, það sé aðeins spurning hvenær, en ekki hvort sett verði ákvæði um inntökupróf í Háskóla Íslands, sökum þess að þær breytingar, sem gerðar hafi verið á íslensku skólakerfi, hafi leitt til þess að stöðugt berji á dyr Háskólans fleiri og fleiri sem viti minna og minna.

Ég vil aðeins benda mönnum á þá einföldu staðreynd, að oft er hollt að líta í kringum sig og skoða reynslu þeirra nágrannaþjóða sem við erum að eftirapa í málum eins og málefnum menntunar á Íslandi. Það væri t. d. ekki akkur fyrir okkur Íslendinga að falla í sömu gryfju og sænskir hafa dottið í, því að sænskir stúdentar og nemendur með jafngilt próf og stúdentspróf eru ekki lengur tækir í háskóla á meginlandi Evrópu. Háskólar á meginlandinu viðurkenna ekki lengur stúdentspróf og stúdentsprófsígildi í Svíþjóð. Ég held að það yrði meiri háttar áfall, ekki bara fyrir íslensk menntamál, heldur ekki síður efnahagslega og fyrir fjármálalíf þjóðarinnar og möguleika ungs fólks til menntunar, ef svo færi að þeir háskólar, sem til þessa hafa opnað dyr fyrir íslenskum stúdentum og viðurkennt menntun þeirra sem fullnægjandi, tækju skyndilega upp á því að bregðast við Íslendingum, sem leita þar inngöngu með sama hætti og þeir bregðast nú við Svíum, því þeir skylda þá til að taka inntökupróf í viðkomandi skóla til að fá þar inni þar sem þeir viðurkenna ekki lengur það stúdentspróf og stúdentsprófsígildi í Svíþjóð sem áður var viðurkennt af þessum skólum. Ég held að við höfum orðið fyrir þeirri reynslu af því að herma slík atriði hrá eftir öðrum að við ættum a. m. k. að fara að hægja nokkuð á okkur í þeim efnum.

Ég vil benda á í því sambandi þær fjölmörgu tilraunir sem gerðar hafa verið í íslenska skólakerfinu á undanförnum árum. Mér hefur a. m. k. virst að þær væru oft ja, kannske ekki algerlega stjórnlausar, en alla vega mjög stjórnlitlar. Og ég veit ekki um nokkurt skólakerfi í einu landi sem hefur verið jafnmikið tilraunakerfi og hér á Íslandi. Hér er svo háttað, a, m. k. að því er virðist, að þar getur hver verið að gera tilraun í sínu horni án nokkurs samstarfs, án nokkurrar heimildar eins eða neins og án þess að þurfa nokkra grein að gera fyrir þeim tilraunum í skólastarfi sem hann er að viðhafa.

Ég held að menn muni eftir því hvernig þetta hófst fyrir nokkrum árum, þegar nemendur á einum framhaldsskóla hér í borginni voru allan veturinn látnir vinna að því að útbúa pappírslíkan af efri hluta Rínardals. Eftir veturinn vissu þeir talsvert um pappírslíkanið, en harla lítið annað.

Mér er kunnugt um það, eigandi 4 börn á grunnskólaaldri, hvernig þessar tilraunir hafa gengið, þar sem skipt hefur verið í sömu námsgrein um námsbækur, ekki einu sinni á skólaári, heldur jafnvel oft á skólaári. Ég hef sjaldan orðið ánægðari en um mitt ár í fyrra þegar yngsta dóttir mín kom heim úr skólanum og sagði að nú væri hún komin með enn nýja kennslubók í stærðfræði sem kennarinn hefði sagt að væri ákaflega góð. Það var með hálfum huga sem ég tók við bókinni úr hendi dóttur minnar til þess að skoða hvaða nýjung væri nú verið að innleiða í íslenska fræðslukerfið: Þá var þetta kennslubók í reikningi eftir Elías Bjarnason sem að ég lærði fyrir 25 árum, algerlega óbreytt. Það var niðurstaðan eftir allar tilraunirnar, eftir alla mengjafræðina, að upp var tekin þessi gamla bók sem notuð hefur verið í viðkomandi skóla síðan og kennarar og nemendur sennilega aldrei verið ánægðari.

Það er athyglisvert, sem ég rakst á í því merka blaði Degi fyrir ekki alllöngu, þar sem skýrt var frá því að einn af merkari skólamönnum í Svíþjóð hefði komist að athyglisverðri niðurstöðu. Þetta blað, Dagur, segir svo þriðjudaginn 23. jan. 1979, með leyfi forseta:

„Doktor Max Marstad prófessor í Stokkhólmi, sá sem manna mest barðist fyrir því að mengjastærðfræðin yrði tekin upp fyrir alla skóla í landinu, hefur nú beðist afsökunar á mistökum sínum. Hann segir nú, að sér og félögum sínum hafi stórlega skjátlast, og segist reiðubúinn að bæta fyrir mistökin. Afleiðinguna af mistökum mengjafræðinganna telur hann vera þá, að stærðfræðikunnáttu þjóðarinnar hafi hrakað. Sem kunnugt er var mengja stærðfræðinni troðið upp á marga skóla hér á landi að sænskri fyrirmynd.“

Þar með lýkur tilvitnuninni í það ágæta blað Dag á Akureyri, sem ég er sannfærður um að t. d. hv. þm. Ingvar Gíslason mun lesa að öllum jafnaði spjaldanna á milli.

Þetta var reynslan af eftiröpun sænskra fyrirmynda, þó að ég hafi ekki orðið var við að þeir, sem eftir öpuðu, hafi beðist sérstakrar afsökunar á mistökum sínum, hvað þá boðist til að bæta fyrir þau eins og umræddur sænskur prófessor.

Það vill svo vel til, að fyrir nokkuð mörgum árum vann ég um fjögurra eða fimm ára skeið við iðnfræðsluráð, þ. e. a. s. í fræðslumálaskrifstofu iðnfræðslumála í landinu, og kynntist því af eigin reynd hvernig málefnum verknámsfræðslunnar er farið á Íslandi og hvað verið er að gera með þeirri eftiröpun sænsks, dansks og norsks kerfis sem hafin er í svokölluðum fjölbrautaskólum.

Sagt er að það frv., sem hér er lagt fram um fjölbrautaskóla, og fjölbrautakennslan sé eitthvert allsherjar bjargráð fyrir verkmenntun á Íslandi, með því að samþykkja löggjöf af þessu tagi sé verið að stíga mjög stórt skref fram á við til að bæta hag verklegrar menntunar í landinu. Ég vil biðja menn að hugleiða það, að í gömlu fræðslulöggjöfinni var gert ráð fyrir að við hvern gagnfræðaskóla í landinu störfuðu tvær deildir, önnur sem kölluð var bóknámsdeild og hin sem kölluð var verknámsdeild. Gert var ráð fyrir að umræddar verknámsdeildir yrðu lyftistöng fyrir verklegt nám í landinu, þar sem unglingar á framhaldsskólaaldri ættu þess kost að njóta handleiðslu og tilsagnar kennara í verklegum fræðum á skólaverkstæðum þar sem að þeir ættu aðgang að hvers konar hömrum og meitlum og öðrum tækjum og tólum sem tilheyra. Þá vantaði sem sé ekki viljann, þá góðu menn sem sömdu gömlu fræðslulögin. En staðreyndin varð sú, að þó svo að lög væru með þessum hætti og verklegri kennslu í landinu væri gert jafnhátt undir höfði og gömlu fræðslulögin gerðu komst þetta kerfi eiginlega hvergi á. Verklegu deildirnar voru nefnilega yfirleitt ekki stofnaðar við neina gagnfræðaskóla nema í algerum undantekningartilvikum. Hvers vegna? Það var ekki vegna þess að vantaði ákvæði um slíkt í lög. Það var ekki vegna þess að skólamenn skorti vilja. Það var ekki vegna þess að nauðsynin væri ekki brýn. Það var ekki vegna þess að framkvæmdavaldið hefði ekki áhuga. Það var vegna þeirra einföldu sanninda, að til þess að koma á fót slíku verklegu námi við framhaldsskóla þurfti að útvega mjög mikið fjármagn sem fjárveitingavaldið, Alþ. og ríkisstj., var ekki tilbúið að leggja fram. Gömlu fræðslulögin gerðu sem sagt ráð fyrir verklegri fræðslu á framhaldsskólastigi sem aldrei var hægt að framkvæma. Það var aldrei hægt að fullnægja þessum ákvæðum laganna nema að mjög óverulegu leyti, vegna þess að fjármagn var ekki til og fjármagn var ekki útvegað.

Menn sáu að sjálfsögðu að við svo búið mátti ekki sitja. Í staðinn fyrir að gera þær ráðstafanir sem dugðu, þ. e. a. s. útvega peningana sem réðu og sögðu til um hvort hægt var að veita þetta nám eða ekki, lögðu menn í að leysa vandann á pappírnum og semja enn ein ný lög, allt mundi lagast ef lögunum yrði breytt. Þá voru samin lög um iðnfræðslu og iðnfræðsluskóla á árinu 1966. Þar var sú kerfisbreyting gerð á iðnnámi, að í fyrsta skipti var opnaður möguleiki á því að starfrækja, auk hinna hefðbundnu iðnskóla sem veittu iðnnemum bóklega menntun, iðnnemum sem fengu verklega menntun hjá meisturum úti í atvinnulífinu, menntun og fræðslu í skólastofnun. Þess vegna var nöfnum skólanna, sem áður hétu iðnskólar, breytt í iðnfræðsluskóla og gert var ráð fyrir að verklegt nám iðnnema gæti farið fram jöfnum höndum hjá meisturum og í skólum, settir yrðu upp sérstakir verknámsskólar, þannig að menn, sem hefðu áhuga á iðnnámi, gætu valið um hvort þeir heldur leituðu uppi meistara og færu á samning hjá honum og stunduðu hið bóklega nám í iðnskóla ellegar innrituðust í iðnfræðsluskóla og lykju sveinsprófi innan veggja skólans.

Þetta voru að sjálfsögðu stórmerkileg lög, mjög sniðin að sænskri, danskri og norskri fyrirmynd. En hver hefur reynslan orðið? Þessi lög voru sett 1966. Fyrsta atriðið, sem til greina kom áður en hægt var að setja hina verklegu skóla á stofn, skyldu menn halda að hefði verið að útvega skólahúsnæði, afla fjár til tækjakaupa, útvega hæfa kennara og annað slíkt, og virðist sá vandi vera nægur. En það var ekki það fyrsta sem þurfti að gera, síður en svo. Það fyrsta, sem þurfti að gera, var að koma sér niður á það, hvað þessir blessaðir iðnnemar skyldu læra, í fyrsta lagi í bóklegum greinum og í öðru lagi í verklegum greinum.

Engin fyrirmæli voru til um það, þegar iðnfræðslulögin frá 1966 voru sett, hvað iðnnemi, t. d. í húsasmíði, skyldi læra í bóklegu og hvað hann skyldi læra í verklegu námi. Það var ákveðið að fræðslunefndir settust á rökstóla, eins og ég held að standi í því ágæta frv. sem hér er um að ræða, námsbrautanefndir eða námssviðsnefndir eða eitthvað annað slíkt „fínirí“, til þess að fjalla einmitt um þetta, til þess að setja námsskrá sem segði að t. d. húsasmíðanemi skyldi ekki fá þá einu verklegu fræðslu alla sína fjögurra ára námstíð að glerja glugga ellegar að setja upp hurðir ellegar að kantlíma hurðir á innréttingar, eins og dæmi voru um, heldur að sett skyldi námsskrá um hvað þetta fólk skyldi læra, hvort sem það lærði í verknámsskólum eða hjá meisturum. Ég veit ekki hvort hv. þm. er kunnugt um að löggiltar iðngreinar á landinu eru eitthvað rúmlega 70. Þannig þurfti að setja á 70 fræðslunefndir, sem skipa átti samkv. lögunum einum fulltrúa meistara, einum fulltrúa sveina og einum fulltrúa iðnskóla, til að semja þessar reglur. En því miður verð ég að flytja þeim þm., sem hlýða á mál mitt, þau leiðu tíðindi, að á öllum þessum árum hefur fjárveitingarvaldið ekkert flýtt sér að útvega fé til þess að blessaðar fræðslunefndirnar gætu lokið við að semja námsskrá um hvað iðnnemar eiga að læra. Þannig, eftir því sem að ég best veit, eru ekki til eftir þessi 13 ár, sem lögin hafa verið í gildi, námsfyrirmæli um annað en bóklegt nám í flestum iðngreinunum, þó ekki í nándar nærri öllum, og um verklegt nám í nokkrum algengustu iðngreinunum í landinu. Önnur fyrirmæli um verklegt nám iðnnema eru ekki til, vegna þess að þrátt fyrir öll fallegu lögin hefur fjárveitingarvaldið ekki treyst sér til að sjá fyrir fjármunum svo að hægt væri að setja í námsskrá kröfur sem þessum iðnnemum væri ætlað að uppfylla í verklegu og bóklegu námi til þess að ljúka sveinsprófi.

Ég hafði svo nokkuð gaman af því, að framkvæmdastjóri iðnfræðsluráðs hafði samband við mig fyrir nokkrum árum, þegar til stóð að stofna Fjölbrautaskólann í Breiðholti, og sagði mér frá því, að hann hefði fengið bréf frá þeim manni sem nýskipaður var skólameistari skólans. Þetta var á vordögum. Bréfið hljóðaði einhvern veginn á þá leið:

Iðnfræðsluráð. Hr. Óskar Guðmundsson framkvæmdastjóri.

Þar sem til stendur að hefja á næsta hausti kennslu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og einn geiri í því námi, sem þar á fram að fara, á að vera fræðsla í löggiltum iðngreinum, er hér með óskað eftir því, að iðnfræðsluráð sendi skólanum námsskrár hinna löggiltu iðngreina svo undirbúningur undir kennslu þeirra geti hafist þegar í stað.

Hinum vísa skólastjóra Fjölbrautaskólans í Breiðholti, sem ætlaði sér að hefja verklega og bóklega kennslu í hinum rúmlega 70 löggiltu iðngreinum á næsta hausti, var tjáð að því miður væri ekki til námsskrá fyrir nema takmarkaðan hluta iðngreina vegna þess að fjárveitingarvaldið hefði því miður ekki séð sér færi á að veita fé nema til starfa mjög óverulegs hluta þeirra fræðslunefnda sem samkv. lögunum átti að setja upp.

Þetta er aðeins lítil dæmisaga úr frumskógi kerfisins, sem kannske skýrir aðeins fyrir mönnum hve mikið skortir oft á skilning og jarðsamband þeirra sem eru að búa til öll fallegu pappírsfjöllin, sem eru að smíða öll fallegu loforðin í frv. og reglugerðum sem þeim hinum sömu er því miður ekki kunnugt um að er ekki hægt að fullnægja.

Ég get líka skýrt frá því, að ákveðið var að tilmælum menntmrn. að ráðast í það þrekvirki af vanefnum að reisa einn svokallaðan iðnfræðsluskóla hér í Reykjavík í tengslum við Iðnskólann, sem hafði og hefur um áratugaskeið barist við að koma upp verklegu námi í nokkrum námsgreinum og hefur nú loks, einn iðnfræðsluskóla á öllu landinu, afrekað að koma upp verknámsskóla fyrir einar þrjár, fjórar iðngreinar af þessum 70 og er svo vel búinn tækjum, t. d. í prentiðn, að prentarar, sem stunda nám á hinum almenna vinnumarkaði, gera sér það oft til dundurs að fara í hina verklegu deild Iðnskólans til þess að sjá með hvernig tækjum feður þeirra og afar unnu í „den tíð“.

En sá skóli, sem ákveðið var að setja á fót, svona til þess að sýna mönnum dýrðina þegar iðnfræðslulöggjöfin yrði komin í framkvæmd, hét Verknámsskóli málmiðnaðarins, og í Verknámsskóla málmiðnaðarins átti að veita verðandi iðnnemum undirbúningsþekkingu og fræðslu í bóklegum og verklegum greinum málmiðna. Til þess að skýra fyrir mönnum hvað málmiðnir eru, þá eru það allt frá sjónvarpsvirkjun og niður í, — eða upp í, eftir því hvaða skilning menn vilja leggja í upp og niður í því sambandi, — eldsmíði og ketil- og plötusmíði, sem sé frá „fínmekanik“, eins og útvarps- og sjónvarpsvirkjun, og upp í eða niður í eldsmíði og plötu- og ketilsmíði. Ekki þarf að orðlengja það, hver var námsskrá þessa skóla. Menn áttu að læra að nota járnsög og lóðbolta svo og rasp og þvingu og önnur slík verkfæri, sem var auðvitað sjálfsagt að hver og einn nemandi, sem ætlaði sér í verklegt nám í málmiðngreinum, kynni nokkur skil á.

Um þetta leyti var mjög í tísku hjá ungu fólki, sérstaklega ungum tæknimeðvituðum námsmönnum á framhaldsskólastigi, að hafa áhuga á sjónvarps- og útvarpsvirkjun, en sú grein var þá algerlega lokuð og er það, hygg ég, enn, því það voru ekki nema nokkrir þeirra, sem ætluðu í útvarps- og sjónvarpsvirkjun og höfðu áhuga á því námi, sem komust að hjá meisturum. Þarna sáu ungu tæknihugsandi framhaldsskólasveinarnir upplagt tækifæri. Hið opinbera var að stofna verknámsskóla fyrir þá, hvorki meira né minna. Að sjálfsögðu mundu þeir sækja um inntöku í Verknámsskóla málmiðnaðarins til undirbúnings náms í sjónvarps- og útvarpsvirkjun og stunda þar nám í meðferð logsuðutækja, lóðbolta og þvingu í heilt ár og hefja síðan áframhaldandi nám í útvarps- og sjónvarpsvirkjun eftir að hafa fengið tveggja ára styttingu á námstíma sínum. Milli 30 og 40 ungir menn sóttu um aðgöngu að skólanum og fengu — og byrjuðu að logsjóða og rafsjóða og snúa þvingu. Að árinu liðnu komu þessir ungu sveinar á skrifstofu iðnfræðsluráðs og sögðu: Jæja, herrar mínir. Nú erum við búnir að ljúka Verknámsskóla málmiðnaðarins og nú langar okkur til að halda áfram og verða útvarps- og sjónvarpsvirkjar. Hvað eigum við nú að gera? — Við sögðum við þá: Þið eigið að fara út á vinnumarkaðinn, leita uppi meistara í útvarps- og sjónvarpsvirkjun og spyrja þá hvort þeir vilji ekki veita ykkur aðstöðu til þess að ljúka námi. — Þessir ungu menn þökkuðu fyrir sig og fóru síðan út á vinnumarkaðinn til að leita að meisturum í útvarps- og sjónvarpsvirkjun sem vildu taka við nemum sem kynnu að snúa þvingu. Sú leit varð töng, en ekki að sama skapi árangursrík, því allir þessir drengir, að undanskildum tveimur, komu á skrifstofu iðnfræðsluráðs og sögðu: Þeir útvarps- og sjónvarpsvirkjar, sem við höfum rætt við, vilja ekki taka okkur. Þeir segjast vilja velja sína nemendur sjálfir, og þeir segjast litla trú hafa á því, að sá nemi sé góður verðandi útvarpsvirki sem er duglegur að snúa þvingu. Hvað eigum við nú að gera? — Og yfirvöld iðnfræðslumála í landinu sögðu: Því miður, við getum engin ráð gefið. — Þá spurðu nemarnir í þvingusnúningnum: Er það virkilega svo, að hið opinbera sé búið að plata okkur til þess að eyða heilu ári af ævi okkar og öllu aflafé okkar árið áður í upphafsnám í iðngrein sem við höfum áhuga á og ætli síðan að skilja okkur eftir í blindgötum? — Við gátum ekki sagt annað en já. —

Þessi saga er að endurtaka sig í fjölbrautakerfinu. Samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum fengið um fjölbrautanám í fjölbrautaskólum á Íslandi, sjá menn Verknámsskóla málmiðnaðarins afturgenginn. Menn sjá afturgengið það sameiginlega grunnnám í iðngreinum sem ungt fólk er platað inn í af opinberum aðilum í ljósi þess að það sé þar að hefja skólanám sem geti leitt það beint til lokaprófs. Það stendur svo uppi eftir árið í algerri blindgötu, þar sem allir neita að taka við því. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi, t. d. það unga fólk sem hefur úr þessu framhaldsskólakerfi verið platað inn á hjúkrunarbrautir og látið eyða þar meira eða minna af ævi sinni í tilgangslaust nám vegna þess að þetta ágæta kerfi hefur verið að gefa loforð sem öllum er ljóst frá upphafi að það getur ekki efnt.

Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja, þótt fámennt og fátækt þjóðfélag geti ekki boðið öllum nám við sitt hæfi. En málin eru orðin alvarleg þegar þetta þjóðfélag er bókstaflega að plata ungmenni með því að búa til skólakerfi sem gefur fögur loforð sem allir, sem hlut eiga að máli, vita að skólakerfið getur ekki efnt. Og það er ábyrgðarhluti að vera að bjóða námsbrautir og námsfarvegi sem allir vita að leita út í hreina blindgötu, að vera að plata ungt fólk til þess að eyða hluta úr ævi sinni í nám sem ekki gengur upp.

Þessi mál verða aldrei leyst með lagasetningu á pappír. Þau verða aðeins leyst smátt og smátt eftir því sem þjóðin hefur efni og getu á, og það á ekki að skipuleggja þau mál þannig að ætla sér að lofa öllu í upphafi og geta síðan ekki staðið við neitt. En verknámsskólar málmiðnaðarins ganga aftur í öllu þessu fjölbrautakerfi með loforðunum sem frá upphafi hafa verið svik. Ég er sannfærður um að sá maður, sem ætlar að herma eftir þessari sænsku fyrirmynd, verður ekki heldur maður til þess að biðjast afsökunar frekar en sá sem hermdi eftir sænsku fyrirmyndinni um mengjakerfið.

Þegar fjölbrautaskólakerfið var tekið upp í Noregi — það er oft miðað við Noreg í þessu sambandi — var það gert í ljósi þess, að þá voru til bæði bóklegir og verklegir skólar sem störfuðu hver undir sinni skólastjórn. Fjölbrautaskólakerfið í Noregi var aðeins samræming á starfi þeirra stofnana sem þegar voru til, þannig að í sama fræðsluumdæmi voru settar undir sameiginlega stjórn skólastofnanir af ólíkum toga sem þegar höfðu verið byggðar upp. Þannig var möguleiki gefinn til þess að nemendur gætu farið á milli slíkra stofnana og eftir því sem hugur þeirra stóð til og jafnframt til þess að fjármagn og þekking mætti nýtast betur með samvinnu og samstarfi þessara stofnana.

Hér á Íslandi hefur málið hins vegar verið kynnt þannig, að menn mættu halda að þeir, sem það kynna, væru að gefa í skyn að kerfið sjálft byggði skólana, að fjölbrautakerfið byggði fjölbrautaskólana, að lagasetningin ein yrði til þess að út um allar jarðir, í öllum þorpum og öllum sýslum og öllum hreppum landsins, byggðum sem óbyggðum, spryttu upp skólastofnanir þar sem menn gætu lært allt frá skipstjórn upp í læknisfræði og út og suður í matreiðslu, feldskurð, myndskurð og ég veit ekki hvað. Slíkir skólar mundu sem sé spretta upp sjálfkrafa í öllum krummavíkum landsins uns allt Ísland væri orðið ein skólastofnun: Aðeins ef þú fellur fram og tilbiður fjölbrautaskólakerfið skal allt hitt veitast þér að auki.

Ég vil að menn geri sér fyllilega ljóst, að með slíku fjölbrautakerfi er ekki verið að breyta neinu í raun réttri. Það er verið að breyta því að vísu þannig, að hinu opinbera tekst efalaust að plata eitthvað af saklausu ungu fólki til þess að eyða hluta af ævi sinni í nám sem engan árangur ber. Það ber sjálfsagt þann árangur, að Háskóli Íslands verður fyrr eða síðar að taka upp þá skipan að efna til inntökuprófs fyrir nemendur sem lokið hafa námsferli á framhaldsskólastiginu. Það getur vel verið að það beri þann árangur, að evrópskar menntastofnanir, sem við höfum átt frjálsan aðgang að til þessa, neiti eftirleiðis að viðurkenna íslenska menntun nema menn gangist undir kennslufræðilega smásjá á meginlandi Evrópu o. s. frv., o. s. frv. En fjölbrautaskólakerfið kemur aldrei til með að gera það, sem iðnfræðslulögin frá 1966 gátu ekki og gamla fræðslulöggjöfin gat ekki, þ. e. a. s. að útvega peningana sem þetta skólakerfi stendur og fellur með. Það verður jafnerfitt verkefni eftir sem áður.

Þetta er flókið mál, en það er þannig fram sett að lagaramminn, sem utan um það er smíðaður með þessu frv., er ekki nema 38 greinar, auk eins ákvæðis til bráðabirgða, og er þannig að hver getur lagt sinn skilning í það eftir því hver les. En athyglisvert er að um eitt atriði eru nákvæmar útlistanir: á því hvernig silkihúfunum skuli skipað í kerfinu. Því er nákvæmlega lýst, m. a. s. hvaða rendur skuli vera á hverri húfu. Fyrst skal þar til að taka, að í hverjum framhaldsskóla skal vera nemendaráð sem hefur tillögu- og umsagnarrétt um markmið námsins, námstilhögun, námsefni og námsmat. Ofan á nemendaráð kemur svo skólastjórn undir oddvita, skólastjóra, með aðild fulltrúa kennara og nemenda. Verksvið skólastjórnar er að sjálfsögðu ósköp svipað og verksvið nemendaráðs, þ. e. tillögu og umsagnarréttur um markmið náms o. s. frv., o. s. frv. Ofan á skólastjórn kemur síðan silkihúfan skólanefnd fyrir hvern einstakan framhaldsskóla sem fræðsluumdæmið í heild stendur að ásamt ríkinu. Skólanefndin starfar í umboði fræðsluráðs og er m. a. ráðgefandi aðili um inntak og tilhögun náms hlutaðeigandi skóla. M. ö. o. er nemendaráðið ráðgefandi aðili til skólastjórnar, skólastjórn er ráðgefandi til skólanefndar, skólanefnd er síðan ráðgefandi aðill til fræðsluráðs, en fræðsluráð eru kjörin samkv. 11. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla, og eiga að fjalla um málefni framhaldsskóla hvert í sínu fræðsluumdæmi. Ofan á fræðsluráð kemur síðan silkihúfan námsbrautarnefnd. Námsbrautarnefnd á að vera fimm manna ráðgefandi nefnd, sem á að taka við ráðum fræðsluráðs, sem tekur við að ráðum skólanefndar, sem tekur við ráðum skólastjórnar, sem tekur við ráðum nemendaráðs. Ofan á námsbrautarnefnd kemur síðan silkihúfan námssviðsnefnd. Og hvað skyldu nú námssviðsnefndir eiga að gera? Jú, þær eiga að samræma störf námsbrautarnefnda og vera ráðgefandi og tillöguaðili um inntak og tilhögun málms hver á sínu námssviði. M. ö. o. tekur námssviðsnefnd við ráðgjöf námsbrautarnefndar eftir að námsbrautarnefnd hefur tekið við ráðgjöf fræðsluráðs, fræðsluráð tekið við ráðgjöf skólanefndar, skólanefnd tekið við ráðgjöf skólastjórnar, skólastjórn tekið við ráðgjöf nemendaráðs. — En svo eru enn fleiri ráð. Ofan á námssviðsnefnd stendur framhaldsskólaráð, m. a. skipað formönnum námssviðsnefnda, sem aftur eru skipaðar formönnum námsbrautarnefnda, eins og menn muna. Og hlutverk framhaldsskólaráðs, sem skipað er formönnum námssviðsnefnda, sem skipaðar eru formönnum námsbrautarnefnda, er að vera menntmrh. til ráðuneytis um inntak og tilhögun náms. Framhaldsskólaráð á sem sé að vera menntmrn. til ráðuneytis um inntak og skipulag náms eftir að framhaldsskólaráð hefur tekið við tillögum námssviðsnefnda, eftir að námssviðsnefndir hafa tekið við tillögum námsbrautarnefnda, eftir að námsbrautarnefndir hafa tekið við tillögum fræðsluráða, eftir að fræðsluráð hafa tekið við tillögum skólanefnda, eftir að skólanefndir hafa tekið við tillögum skólastjórna, eftir að skólastjórnir hafa tekið við tillögum nemendaráða. Og hver skyldi svo eiga að taka við öllum þessum tillögum? Það er hæstv. menntmrh. Og hvert skyldi hann svo eiga að skila tillögum sínum? Ætli menn fari ekki nærri um það, hvert hæstv. menntmrh. ætti að skila tillögum sínum og hvaða mark væri tekið á tillögum hæstv. menntmrh. í því rn. þar sem hann á að fara með æðstu stjórn?

Herra forseti. Ég sé enga ástæðu til þess í svo lauslegri rammasmíð sem þessi framhaldsskólafrumvarpssmíð er að gera ráð fyrir að af öllu, sem þar er á minnst, skuli svo ítarlegar reglur settar um öll ráðin sem þar er gert, enda ekki greint frá hver kostnaður fylgir öllu þessu makalausa silkihúfusafni. Þess vegna legg ég til að þetta verði gefið rúmt, eins og flest annað í frv., og lagt hæstv. menntmrh. í vald, ráðh. og ráðuneytisstjóra, að sjálfsögðu eftir að þingið hefur um fjallað og veitt það fé sem til þarf. Því legg ég til á þskj. 728 ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni, að sú breyting verði gerð, að allar umræddar silkihúfur verði ofan teknar en greinin hljóði þess í stað svo, með leyfi forseta:

Menntmrn. fer með yfirstjórn þeirra málefna, er lög þessi taka til, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum um einstakar námsstofnanir.

Rn. skal leita samráðs við samtök aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök kennara og skólastjóra á framhaldsskólastigi, samtök nemenda í framhaldsskólum svo og við aðra til þess bæra aðila um mótun og samræmingu meginstefnu í málefnum framhaldsskóla.

Setja má í reglugerð nánari fyrirmæli um ráðgjöf um inntak og tilhögun náms í framhaldsskólum, enda verði sérstaklega séð fyrir útgjöldum því samfara í fjárlögum.“

Þarna er sem sé ekki lokað á þann möguleika, að unnt verði að setja allar silkihúfurnar upp sem um ræðir í VII. kafla. Þarna er aðeins gefinn sá möguleiki, að unnt sé að taka einhverjar þeirra niður aftur.

Þá er auk þess gerð á þessu þskj.brtt. við orðalag 38. gr., að í stað þess sem þar segir, að lög þessi verði komin til framkvæmda eigi síðar en að liðnum 5 árum frá gildistöku án tillits til þess, hvað máttarvöld, Alþ. og fjvn. og aðrir slíkir aðilar, segja, verði breytt orðalag. Í staðinn fyrir „skuli“ komi: skal að því stefnt að framkvæmdin geti komið að fullu fram að liðnum 5 árum frá gildistöku o. s. frv.

Þriðja brtt. okkar félaga er við ákvæði til bráðabirgða, að við ákvæðið bætist ný mgr. er hljóði svo:

„Að liðnum 5 árum frá gildistöku laga þessara skal menntmrh. gefa Alþ. skýrslu um framkvæmd laganna, sem þá skulu tekin til endurskoðunar, þannig að Alþ. gefist á ný tækifæri til þess að álykta um stefnu þeirra.“

Ég vísa í þessu sambandi til þess, að þegar grunnskólalögin voru sett, sællar minningar að sumra áliti, ekki þó allra, var það ákvæði leitt í lög í ákvæði til bráðabirgða, að að liðnum 5 árum frá gildistöku grunnskólalöggjafar skyldi menntmrh. gefa Alþ. skýrslu um framkvæmd grunnskólalaganna, þannig að Alþ. gæfist kostur á að athuga sinn gang í ljósi fenginnar reynstu og álykta þá um ýmis meginefni málsins á ný. Ég tel algerlega útilokað að afgreiða frv. eins og það sem er hér til umr. án þess að sambærilegt bráðabirgðaákvæði sé í það frv. sett og samþykkt var í lögunum um grunnskóla, sem mönnum mun í fersku minni.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðleng,ja um þetta mál frekar að sinni.