16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4821 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979. Á fund n. komu hagsýslustjóri og ráðuneytisstjóri fjmrn. Enn fremur fékk n. til viðtals orkumálastjóra og rafmagnsveitustjóra ríkisins. Ástæðan fyrir því, að þeir voru sérstaklega boðaðir á fundinn, var sú, að n. taldi sérstaka ástæðu til þess að skoða orkumálakafla lánsfjáráætlunarinnar. Það hefur komið fram í umr. og ræðum bæði fjmrh. og iðnrh., að síðan lánsfjáráætlunin var samin og lögð fram, hafa aðstæður í orkumálum breyst á þann veg, að olíuverð hefur hækkað mjög mikið, og er ekki séð fyrir endann á þeim hækkunum enn þá og það veldur því, að mat á hagkvæmni framkvæmda hefur breyst. Á þessum fundi gáfu þessir embættismenn upplýsingar um nokkur atriði sem nm. spurðu þá sérstaklega um. Á fundi n. var enn fremur dreift álitsgerð frá iðnrh. um nokkur atriði sem sérstaklega eru til skoðunar hjá ríkisstj. í þessu sambandi.

Það, sem einkum var efst á baugi í huga nm., var að hraða lagningu raflína þar sem það gæti dregið mjög úr rekstri dísilstöðva. Enn fremur eru horfur á því að veturinn 1980–1981 verði of lítil raforka til í landinu til þess að fullnægja eftirspurn, þ. e. veturinn áður en fyrsta samstæða Hrauneyjafossvirkjunar kemst í gang, og þess vegna þurfi að huga að því, hvort ekki sé hægt að finna einhverja leið til þess að bæta við þessa orku, og þá er einkum staðnæmst við Kröfluvirkjun. Í þriðja lagi hafa menn áhuga á því að reynt sé að hraða hitaveituframkvæmdum sem gætu dregið úr upphitun húsa með olíu.

Í sambandi við tengingu með raflínum var sérstaklega spurst fyrir um línu sem gæti tengt Skeiðsfossvirkjunarsvæðið við byggðalínuna. Á þessu svæði, Skeiðsfossvirkjunarsvæðinu, er orðinn orkuskortur þannig að nú í vetur hefur þurft að framleiða mjög mikið af raforku í dísilstöðvum sem eru bæði á Siglufirði og Ólafsfirði. Samkv. áætlun, sem gerð hefur verið og raforkumálastjóri skýrði frá, kostar um 250 millj. kr. að leggja raflínu frá Dalvík til Ólafsfjarðar, 13 eða 14 km leið. Hins vegar þarf ekki að byggja nýja spennistöð í Ólafsfirði. Á áætlun er hins vegar ný spennistöð á Dalvík, þannig að þarna er aðeins um kostnaðinn við línuna að ræða. Áætlaður rekstrarkostnaður eða olíukostnaður dísilstöðvanna á þessu svæði á næsta vetri er 150–200 millj. kr. Þar að auki eru þær dísilstöðvar, sem reknar eru nú á Siglufirði, orðnar mjög gamlar þannig að ef treysta á á þær til framleiðslu á grunnorku mun þurfa að endurnýja eitthvað af þeim og þá bætist nokkuð við þennan kostnað til viðbótar. Það er sem sagt augljóst að kostnaðurinn við lagningu línunnar mun að mestu leyti fara í rekstrarkostnað á næsta vetri ef ekkert verður að gert.

Þá kom það fram hjá orkumálastjóra, að Orkustofnun hefur gert orkuspá næstu áratugina og þar reiknað út hagkvæmustu kosti sem um er að ræða. Kemur fram í þeirri spá, að ef hægt væri að fá full afköst í Kröfluvirkjun nú á næstu árum mundi það spara 4 milljarða kr. miðað við aðra þá kosti sem næsthagkvæmastir væru í sambandi við raforkuframleiðslu. Þetta hefði þau áhrif, að ekki þyrfti að hraða eins öðrum raforkuframkvæmdum, og þess vegna kemur þessi mismunur fram. Það er því mat n., að þrátt fyrir nokkra óvissu um árangur af borun við Kröflu og í sambandi við þessa áætlun, — í henni er gert ráð fyrir að ein af hverjum fjórum holum, sem boraðar kunna að verða þar, verði ónýtt af einhverjum ástæðum, — þá telur n. að nauðsynlegt sé að halda eitthvað áfram til þess að hægt sé að nýta það fjármagn sem í þetta hefur þegar verið varið. Með þetta í huga var haft samband við fjmrh., og ítrekaði hann það sem áður hefur komið fram í máli hans, að þessi mál séu til skoðunar og hann muni við þessa umr. gefa frekari áréttingar því sem áður hefur komið fram. Með tilliti til þess og einnig þess, að mjög mikið hefur dregist að Alþ. afgreiddi lánsfjáráætlun, til mjög mikils baga fyrir fjölmarga aðila, leggur n. til að frv. þetta verði samþ. óbreytt með fyrirvara um orkumálakaflann, en Eyjólfur K. Jónsson og Jón G. Sólnes skrifa undir nál. með fyrirvara.