16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4823 í B-deild Alþingistíðinda. (4097)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það hefur áður komið fram í framsöguræðum fyrir þessu máli, bæði í Nd. og einnig í þessari hv. þd., að eðlilegt væri með tilliti til nýrra viðhorfa í orkumálum vegna olíuverðshækkananna að taka til athugunar að hraða vissum framkvæmdum á sviði orkumála sem spara innflutning á olíuvörum. Og í framhaldi af þessu og í samræmi við umr., sem áttu sér stað í hv. fjh.- og viðskn. og nefndin hafði samband við mig um, vil ég lýsa því yfir við þessa umr., að ég mun beita mér fyrir útvegun fjármagns til lagningar raflínu milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og taka til sérstakrar skoðunar útvegun fjármagns til borunar einnar holu við Kröflu og til þess að flýta öðrum framkvæmdum sem spara olíunotkun. Þetta er bundið þeim takmörkunum, að ekki verði breytt um heildarstefnu í fjárfestingu þannig að hún verði eftir sem áður innan við fjórðung af vergum þjóðartekjum. Þar sem miðað er við þá heildarstefnu í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni álít ég nú vera svigrúm í þessu efni þar sem vergar þjóðartekjur verða hærri í krónum en gert var ráð fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni, þannig að ég álít að það sé svigrúm til þessa. Það, sem þarf að gerast í þessum málum, er að það þarf að liggja fyrir ríkisstj. og réttum aðilum allur undirbúningur að möguleikum á að flýta framkvæmdum. Það þarf að liggja fyrir, hversu mikið fjármagn þarf til þess á þessu ári og ýmislegt fleira, áður en hægt er að taka ákvarðanir í þessu efni. En að gefnu tilefni og í samráði við hv. fjh.- og viðskn. vildi ég láta þetta koma hér fram.