16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4823 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 735 við frv. þetta og vil gera nokkra grein fyrir þessum brtt.

Það fer ekki á milli mála, að það er þörf á að hraða framkvæmdum í orkumálum landsins. Það hefur e. t. v. aldrei verið augljósara en nú á síðustu mánuðum, eftir að yfir dundi hin mikla olíuverðshækkun. Ég held að menn greini ekki á um þetta né um þjóðhagslegt gildi þeirra framkvæmda sem menn hafa einkum í huga þegar verið er að tala um að hraða framkvæmdum í orkumálum landsins.

Með tilliti til þessa flutti ég ásamt 11 öðrum samflokksmönnum mínum till. til þál. um að hraða framkvæmdum í orkumálum landsins. Ég flutti í Sþ. allítarlega framsögu fyrir þessu máli, og hæstv. iðnrh. flutti ræðu sem, ef eitthvað var, var enn ítarlegri. Ég sá ekki að nokkur ágreiningur kæmi fram í þessum umr. um mikilvægi og þýðingu þess að hraða framkvæmdum í orkumálum landsins. Þessi till., sem ég vitna til, var um það að auka framkvæmdir í orkumálum á árinu 1979.

Nú er það að þetta er ekkert nýtt mál. Það ber að á hverju ári með þeim hætti að Alþ. þarf að láta þessi mál taka til sín við afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar. Orkuráð, sem er stjórn aðalorkusjóðs landsins sem ber raunar nafnið Orkusjóður, gerir árlega tillögur sínar til stjórnvalda við fjárlagagerð fyrir hvert ár. S. l. vor gerði orkuráð till. sínar um framlög til Orkusjóðs á fjárl. ársins 1979. Orkuráð gerði samtals tillögur um að 2950 millj. yrðu fengnar Orkusjóði til handa samkv. fjárl. 1979, en aðeins voru veittar 900 millj. kr. Tillögur Orkuráðs voru gerðar á s. l. vori. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og ef einhverjir hafa verið í efa um mikilvægi þess að hraða framkvæmdum í hinum þýðingarmestu orkuframkvæmdum vorið 1979, þá hygg ég að þeir þurfi ekki að vera í vafa nú. Með tilliti til þessa hef ég leyft mér að flytja brtt. þær sem eru á þskj. 735. Þær eru fyrst og fremst fólgnar í því að gera tillögur um aukið fjármagn sem nemur þeirri upphæð sem skorin var niður við fjárlagagerð af tillögum orkuráðs s. l. vor.

Miðað við það, sem hefur skeð síðan, eru þessar till. ákaflega hógværar og naumast stætt á því að bera ekki fram hærri till. eins og nú er málum komið. En ef svo er, þá hygg ég að mönnum hljóti að vera ljóst, að það sé slæmur kostur ef hv. þm. láta sér koma til hugar að fella þessar till. nú.

Ég vík þá nokkrum orðum að hverri till. um sig.

1. till. fjallar um heimild til lántöku vegna jarðhitaleitar samkv. síðari ákvörðun ráðh. um lántökuaðila, alls 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Þessi upphæð; 100 millj. kr., er þannig fengin, að orkuráð gerði á sínum tíma till. um 450 millj., en samkv. fjárl. þessa árs eru Orkusjóði veittar 350 millj. Mismunur er 100 millj. og till. er gerð um að veita heimild til lántöku fyrir þessari upphæð.

Ég þarf ekki hér að flytja neina tölu um mikilvægi þess að hraða jarðhitaleit. Það er svo augljóst mál hve jarðhitinn er hagkvæmur orkugjafi til upphitunar húsa. Það er jafnaugljóst að það þarf að leita af sér allan grun um að það fáist jarðvarmi. Það þarf að hagnýta hann hvar sem við verður komið. Og þessi till. er þeim mun sjálfsagðari þar sem á sama tíma sem þessi þörf er á aukinni jarðhitaleit er það svo, að það er ekki fjármagn núna til þess að hagnýta alla þá jarðbora sem Jarðboranir ríkisins hafa yfir að ráða í þessu skyni.

Ég kem þá að 2. till. Hún er um að veitt verði heimild til lántöku til framkvæmda við hitaveitur, alls 2015 millj. kr., í staðinn fyrir 1345 millj. kr. sem í frv. er gert ráð fyrir. Mismunurinn, sem hér er á, 670 millj. kr., er mismunur á tillögum orkuráðs vorið 1978 og þess sem veitt var í fjárl. árið 1979. Nú er það svo, að án þess að ég ætli sérstaklega að fara að gera upp á milli mikilvægis þeirra framkvæmda sem ég er að fjalla um, þá er áreiðanlegt að það er ekkert nauðsynlegra en að hraða framkvæmdum við byggingu hitaveitna vegna þess að allar óþarfar tafir, sem eru á þessum framkvæmdum, eru ómælt tjón fyrir viðkomandi byggðarlög og þjóðfélagið í heild. Og það þurfa ekki að verða tafir ef fjármagn er fyrir hendi, vegna þess að hin þýðingarmestu mál eru í framkvæmd eða hafa verið hönnuð og undirbúin.

Þá kemur 3. till. á þskj. 735. Hún er varðandi heimild til lántöku vegna rafvæðingar. Þessi brtt. er í tvennu lagi. Í fyrsta lagi er hún um að lán til sveitarafvæðingar samkv. síðari ákvörðun ráðh. um lántökuaðila verði heimilað alls 300 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Þessi upphæð, 300 millj. kr., er fengin þannig að á s. l. vori lagði orkuráð til að það yrðu veittar 500 millj. kr. til þessa. Þá var ætlunin að á þessu ári yrði loks lokið sveitarafvæðingunni í þeim skilningi að þeir bæir, sem eftir væru og ættu að fá tengingu á samveitum, fengju hana á þessu ári. Þetta eru 50 bæir. En það var ekki orðið við þessum óskum. Í staðinn fyrir að veita 500 millj., sem tillaga var gerð um, var veitt heimild til 200 millj. kr. lántöku. Munurinn er 300 millj. og hér er gerð till. um að bæta úr þessu, og það er hægt að gera því að hinn venjulegi framkvæmdatími er ekki hafinn. Það er því raunhæft að veita þessa heimild. Auk þess sem það er mikið siðferðilegt réttlætismál, að þessir þegnar fái þá aðstöðu sem rafmagnið veitir, hefur það líka að sjálfsögðu mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þetta fólk og þjóðhagslega þýðingu einnig því að þá verður losnað við þá dísilkeyrslu sem þessir sveitabæir þurfa til þess að búa við það ófullkomna rafmagn sem þeir hafa eða kunna að hafa.

Þá er 2. tölul. 3. brtt. Hann er um að veita heimild til styrkingar rafdreifikerfi í sveitum samkv. síðari ákvörðun ráðh. um lántökuaðila, alls 780 millj, kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Hér er um að ræða ákaflega brýnt mál. Ég hef ekki orðið var við annað en allir, sem nokkur kynni hafa af þessu máli, séu sammála um að það sé nauðsynlegt að hefjast handa myndarlega um að styrkja rafdreifikerfið í sveitum landsins og mesta dreifbýlinu. Það kerfi, sem fyrir er, er sums staðar að brotna niður vegna þess að það annar ekki þeim þörfum sem eru fyrir rafmagn. Það kerfi, sem nú er, er hið svokallaða einfasa kerfi. En það er nauðsynlegt að breyta um þetta kerfi og koma upp þrífasakerfi til þess að bændum landsins og öðru dreifbýlisfólki verði þau not af rafmagninu sem nauðsynleg eru. Sérstaklega er þetta núna brýnt verkefni vegna eins af stærstu vandamálum íslensku þjóðarinnar í dag, landbúnaðarmálanna. Það er talað um að minnka landbúnaðarframleiðslu. Það er talað um að fækka ekki bændum. Það er talað um að minnka ekki tekjur bænda. Hvernig á að koma þessu öllu heim og saman? Við viljum ekki fækka bændum, vegna þess að við viljum hafa Ísland allt í byggð. (ÓRG: Landbrh. hefur lagt til að fækka bændum.) Hv. 3. landsk. þm. tetur sig vita, að landbrh. vilji fækka bændum. (ÓRG: Það er hér í þskj.) Ég man ekki betur — og þá er það líka í þskj. — en hæstv, landbrh. hafi beint tekið fram að það væri ekki áhugamál hans að fækka bændum. Og það, sem forsvarsmenn bændanna eru núna að tala um og m. a. hæstv. landbrh., er að auka fjölbreytni í atvinnulífi bænda. Þar eru náttúrlega mestu möguleikarnir, þegar fram í sækir að koma upp smáiðnaði í sveitum landsins. Það verður ekki gert nema með þeirri kerfisbreytingu sem ég gat um, að koma upp þrífasa kerfi um allt landið.

Ég veit að hv. þm. er þetta allt mjög ljóst og kunnugt, því að á s. l. vetri var lögð á borð þeirra mikil skýrsla frá orkuráði varðandi þetta mál. Hún fylgdi tillögum orkuráðs til stjórnvalda um að ráðist yrði í þessar framkvæmdir og þeim yrði lokið á 8 árum og veittar á hverju ári um 1100 millj. til þessara framkvæmda. Ef einhver alvara er í þessum fyrirætlunum og ef mönnum er alvara með það, þegar þeir segja að sé mikil þörf á þessu, þarf að sýna það í verki með því að samþykkja heimild til lántöku í þessu skyni. Þessi tala, 780 millj., er fengin á þann hátt, að orkuráð lagði til að veittar yrðu 1000 millj., en í fjárl. eru veittar 220 millj. Munurinn er 780 millj., og það er sú till. sem hér er gerð.

Þá kem ég að lokum að 3. tölul. 3. till. Hann er um að það verði veitt heimild til að taka lán til lagningar aðalháspennulína rafmagns samkv. síðari ákvörðun ráðh. um lántökuaðila, alls um 1000 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Það er öllum ljóst, og það kom m. a. fram í máli hæstv. fjmrh. áðan þegar hann var að ræða um linu milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, að mikil þörf er á að hraða slíkum framkvæmdum. Í sumum landshlutum veltur ákaflega mikið á framvindunni í þessum málum. Þá á ég sérstaklega við þann landshluta sem ekki er orðinn samtengdur aðalháspennukerfi landsins eins og aðrir landshlutar eru orðnir eftir lagningu Norðurlínu og Austurlínu, — ég á við Vestfirði og Vesturlínu. Gert var ráð fyrir því á sínum tíma, að þeirri línulagningu yrði lokið í lok ársins 1979. Nú er gert ráð fyrir því af hálfu stjórnvalda að það verði síðla á næsta ári. En það er þannig með mig og ýmsa fleiri sem erum kunnugir þessari framkvæmd, að við álitum að það þurfi, til þess að sú áætlun standist sem nú er uppi, að verja meira fé til framkvæmda á þessu ári en gert er ráð fyrir nú. Með tilliti til þessa og til annarra slíkra verkefna annars staðar á landinu er fram borin þessi till. um lántökuheimild, er nemi 1000 millj., til lagningar aðalháspennulína rafmagns.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessum till. Hver þessara till. hefði getað gefið tilefni til langrar ræðu. En ég skal ekki gera það, því að ég veit að hv. þm. eru mér sammála um mikilvægi þessara mála.

Hæstv. fjmrh. gaf hér nokkur fyrirheit varðandi lagningu raflínu milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Það er ákaflega gott að heyra það, að ráðh. sagðist ætla að beita sér fyrir því að þessi framkvæmd færi fram á þessu ári, og ég fagna því. Hæstv. ráðh. tók líka fram, að hann ætlar að taka til sérstakrar athugunar, eins og hann orðaði það, borun einnar holu til viðbótar við Kröflu. Þetta er líka mjög ánægjulegt að heyra. En ég tel að það sé ekki nóg að gert í þessu efni með þessu. Ég verð að segja það, að undirtektir hæstv. iðnrh. við þessi mál í umr. í Sþ. laugardag fyrir páska stinga nokkuð í augu hvað mig varðar því að eins og ég sagði áður: ég fann ekki að það væri neinn ágreiningur milli mín og hæstv. iðnrh. um mikilvægi þessara mála. Mér finnst að þau vilyrði — eða hvað á að kalla það, sem hæstv. fjmrh. kom fram með áðan, séu naumast í samræmi við þann anda sem ríkti í þeim umr. í Sþ. sem ég hef áður vitnað til og hæstv. iðnrh. var aðili að. Ég tel því að það sé meiri þörf en orð fá lýst að samþykkja þessa till. sem ég hef borið fram. Ég tók eftir því, að frsm. hv. fjh.- og viðskn. vék ekki að þessum till., og ég hef fregnað að n. hafi ekki tekið þessar till. til meðferðar á fundum sínum, þó að till. þessi hafi komið fram og verið lögð fram í gær. Ég er ekki að áfellast neinn fyrir þetta og síst formann hv. fjh.- og viðskn., þann samviskusama þm. En ég hef látið mér koma til hugar að það gætu verið skynsamleg vinnubrögð að ég tæki þessar till. til baka til 3. umr. og þá væri æskilegt ef hv. fjh.- og viðskn. vildi taka till. til meðferðar fyrir 3. umr., því að ekki vil ég trúa öðru en það sé ríkur skilningur á þessum málum í þeirri ágætu nefnd.