16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4827 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Eins og kom fram í nál. því sem hér er til umr., nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., höfum við hv. 5 þm. Norðurl. v. og ég skrifað undir nál. með fyrirvara og mun ég síðar í máli mínu gera grein fyrir fyrirvara mínum.

Málefni Kröfluvirkjunar voru allmikið til umræðu í hv. fjh.- og viðskn. þegar verið var að fjalla um þetta frv. um lánsfjáráætlun og langar mig í því sambandi að víkja nokkrum orðum að þessu máli.

Kröfluvirkjun hefur nú bráðum verið rekin í samtals 10 mánuði með 7–8 mw. afli út á línu. Rekstrartímabilin tvö hófust bæði fyrst í febr., hið fyrra í febr. 1978 og hið síðara í febr. 1979. Niðurstaða af rekstrarreynslu þessara tveggja rekstrartímabila sýnir og sannar að tæknilegur vélabúnaður allur hefur reynst mjög vel. Smávægilegir vankantar hafa komið í ljós, sem eðlilegt má teljast, og hafa nær allir átt rætur sínar að rekja til hins lága hundraðshluta aflgetu vélasamstæðu nr. 1 sem hún hefur verið keyrð á vegna skorts á gufu.

Kröfluvirkjun er eina virkjun sinnar tegundar sem er á slóðum mikils vetrarríkis. Vetrarríkið í Kröflu hefur valdið nokkrum byrjunarörðugleikum við rekstur virkjunarinnar. Flestir þessara erfiðleika eru bundnir vetrarrekstri gufuveitunnar. Rekstrarreynsla sú, sem fengist hefur, hefur gert mögulegt að leysa flest stærstu vandamálanna og hin verða lagfærð á upptektarstoppi í sumar.

Á rekstrartímabili ársins 1978 var talsvert um rekstrartruflanir sem stöfuðu eingöngu af óstöðugleika holu sem kölluð er KJ-11 og ónógu afli. Lagfæring á fyrri holu KJ-11 haustið 1978 og borun nýrrar holu, sem nefnd er KG-12, olli tímamörkum í rekstraröryggi Kröfluvirkjunar þannig að núverandi gangtími virkjunar með fullu 8 mw. afli er um 93%. Auk framangreinds hefur rekstrarreynslan verið ómetanlegur liður í starfsþjálfun vélgæsluliðs og rekstrarstjórnar virkjunarinnar almennt. Rekstraráætlanir virkjunarinnar sýna að um það bil 10–11 mw. afl frá vél nægir til þess að standa undir rekstrarkostnaði hennar að undanskildum kostnaði vegna afborgunar og vaxta af stofnkostnaði. Þessu marki mætti ná með borun og tengingu einnar eða tveggja hola í ár, og kostnaður við það, miðað við verðlag í upphafi yfirstandandi árs, yrði um 660 millj. kr. vegna tveggja hola.

Spár orkuspárnefndar gefa til kynna að árinu 1979–1982 verði þjóðinni mjög erfið nema til komi verulegt viðbótarafi og það mjög skjótlega. Er þetta mjög alvarlegt ástand í ljósi nauðsynlegra takmarkana á sjávarafla og æskilegrar aukningar á fjölbreytni atvinnuvega þjóðar vorrar sem af því leiðir og getur ekki orðið nema með aukinni raforkuþörf. Viðbótarafl verður ekki fengið í tæka tíð til þess að afstýra vandræðum nema í sambandi við aukna rafmagnsframleiðslu, annaðhvort að auka rafmagnsframleiðslu með dísilkeyrslu eða með markvissri borun til gufuöflunar fyrir Kröflu.

Eins og kom fram í ræðu hv. 6. þm. Suðurl., frsm. fjh.- og viðskn., mættu á fundum n. þeir orkumálastjóri og rafmagnsveitustjóri ríkisins. Hv. rafmagnsveitustjóri upplýsti á fundi n. að rekstur Kröflu með þessari litlu framleiðslu á s. l. vetri hefði verulega bætt úr og aukið rekstraröryggi byggðalínunnar. Enn fremur taldi rafmagnsveitustjóri enn þá brýnna að hafa þessa framleiðslu örugga og aukna fyrir næsta vetur.

Ég vil í sambandi við þessi mál leyfa mér að lesa upp símskeyti sem mér barst í morgun, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hr. alþm. Jón G. Sólnes,

Alþingi,

Reykjavík.

Höfum í dag sent svo hljóðandi símskeyti til formanns fjh.- og viðskn. Ed.:

Stjórn Laxárvirkjunar hefur samþ. eftirfarandi ályktun:

Vegna ört vaxandi raforkunotkunar á Norður- og Austurlandi og þar af leiðandi vaxandi þýðingar Norðurlínu fyrir svæðin, þá telur stjórn Laxárvirkjunar brýna nauðsyn að unnið sé á þessu ári að frekari gufuöflun fyrir Kröfluvirkjun, enda ódýrasti valkostur í virkjunarmálum fyrir þessa landshluta. Auk þess tryggir þessi framkvæmd betur en nú er orkuafhendingu til þessara svæða og eykur um leið varaaflið vegna Norðurlínu, ef um rekstrartruflanir á henni verður að ræða.

Fyrir hönd Laxárvirkjunarstjórnar,

Knútur Otterstedt.“

Þá þykir mér rétt að benda á þá staðreynd í sambandi við þetta mál sem er fyrir hendi, en það er álit Orkustofnunar þar sem fjallað er um nauðsynina á því að tryggja aukningu rafmagnsframleiðslunnar á næsta vetri. Kemur fram í þeirri umsögn að stofnunin hefur áhyggjur af þessu, og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Umtalsverð aukning í afköstum Kröflu getur gerbreytt þessu óvissuástandi, og frekari borun þar, sem er einasta leiðin til að auka afköst virkjunarinnar, verður þannig beinlínis til að spara olíu hér á landi þann vetur, 1980–1981. Þangað til eru tvær borvertíðar, 1979 og 1980. Það þarf að nota þær báðar. Verði ekkert borað við Kröflu í ár og eingöngu treyst á boranir 1980 gefst mjög naumur tími til að prófa og mæla holur áður en þær eru tengdar virkjuninni og þarf að starfa að lagningu gufuveitu frá þeim áður en vitað er um afköst, sem eru í rauninni óhæf vinnubrögð. Því er lagt til að í ár, 1979, verði boraðar tvær holur við Kröflu í því skyni að draga úr eða útrýma nær alveg notkun olíu til raforkuvinnslu hér á landi veturinn 1980–1981 og útvegaðar verði 650 millj. kr. í því skyni. Gert er ráð fyrir að tenging bíði til 1980. En auk sjálfrar borunarinnar þarf að kosta nokkru fé í ár til vegagerðar að væntanlegum borstæðum í suðurhlíðum Kröflu.

Þess má að lökum geta, að Jötunn mun bora holu í Bjarnarflagi í sumar, í næsta nágrenni Kröflu, en hefur ekki önnur verkefni í ár. Það er slæm nýting á dýru tæki að láta það bíða aðgerðalaust í næsta nágrenni Kröflu þegar þörf er á frekari borun þar.“

Þannig er þá þessum málum háttað. Að dómi allra hinna færustu sérfræðinga þjóðarinnar í þessum málum er yfirvofandi mikil óvissa ef ekkert er að gert í rafmagnsmálum þjóðarinnar á næstu tveimur vetrum. Það liggur einnig skýrt fyrir, að einu öruggu úrræðin til þess að afstýra þessum vanda er að hefja nú þegar á þessu sumri boranir við Kröflu. Þá liggur fyrir að fjármagnið, sem þarf til þess að tryggja viðunandi ástand í þessum málum, er sáralítið miðað við það hversu miklir hagsmunir eru í húfi. Okkur hefur verið tjáð að beinn kostnaður við jarðborinn Jötunn, hvort sem hann er látinn starfa eða starfa ekki, sé um 200 millj. á ári. Manni virðist því dæmið liggja ljóst fyrir, að það sé mikil skammsýni sem felist í því að vilja ekki samþykkja nauðsynlegt fjármagn til slíkrar aðgerðar sem hér er um að ræða. Ég verð að segja það, að mér finnst það vera svo ótrúleg þvermóðska og skammsýni að hefjast nú ekki handa, og það er varla hægt að lýsa því með orðum hvernig getur staðið á andstöðu við jafnbráðnauðsynlega framkvæmd.

Úr því að ég er farinn að ræða þessi Kröflumál hér, þá vænti ég að mér forlátist þó að ég eyði nokkrum mínútum deildarinnar til að ræða þetta frekar.

Þegar Kröflunefnd, sú fræga n., á sínum tíma tók til starfa var henni ljóst að ef vel ætti að fara um framkvæmdir á þessu svæði yrði eitt höfuðatriðið að virkjunin ætti jarðbor sem væri eingöngu undir stjórn virkjunarinnar og til umráða fyrir hana. Haustið 1974 hafði Kröflunefnd útvegað mjög hagstætt tilboð í jarðbor, að vísu notaðan, en að dómi sérfræðinga mjög hæfilegan og vel nothæfan. Kaupverð þessa bors var um 90 millj. kr. Þessu tilboði fylgdi einnig að hægt var að fá nýjar borstengur fyrir borinn með öllum úfbúnaði innan 6 mánaða. Kröflunefnd gerði ítrekaðar tilraunir til þess að fá heimild til að kaupa þetta tæki. Því miður tókst það ekki. Ég þarf ekki að spyrja hv. þm. þessarar d. hvílíkum sköpum það hefði valdið í öllum þessum málum ef farið hefði verið að tillögum Kröflunefndar á þeim tíma, því að það er enginn vafi á því að þá hefði verið búið að þjálfa fullkomna boráhöfn á þennan bor, virkjunin hefði getað sinnt sínum þörfum, fyrir utan það að slíkt tæki hefði verið búið að vera til ómetanlegs gagns fyrir nálæg héruð. Á ég þá sérstaklega við framkvæmdir á Akureyri sem hefðu getað orðið miklu ódýrari en þær hafa orðið.

Enn fremur þykir mér hlýða að nefna hversu erfitt hefur verið að vinna að öllum lánamálum í sambandi við þessa margumtöluðu virkjun. Við í Kröflunefnd vildum fá heimild ríkisstj. til að taka með hagstæðum kjörum erlend lán til virkjunarinnar, sem yrði tekið með svipuðum hætti og gengur og gerist t. a. m. við virkjunarframkvæmdir hjá Landsvirkjun. Því miður sáu stjórnvöld sér ekki fært að verða við óskum Kröflunefndar og framkvæmdaaðila í þessum málum. Í þessu sambandi er fróðlegt fyrir hv. þm. þessarar d. að vita að stór hluti af lánum, sem hafa gengið til þessara framkvæmda, hafa verið svokölluð vísitölutryggð lán, einhver allra dýrustu og óhagstæðustu lán sem hægt er að fá í sambandi við hvaða framkvæmd sem um er að ræða. Í ofanálag við þetta hefur ekki verið hægt að fá samkomulag við fjármagnsyfirvöld þjóðarinnar um það, að höfuðstóll lána vegna þessara framkvæmda fengi að standa svona á framkvæmdatímabilinu. Nei, heldur hefur verið tekin upp í hverri lánsfjáráætlun afborgun af slíkum lánum. þó að framkvæmdum sé engan veginn lokið og megi segja að á sumum sviðum sé um algert brautryðjendastarf að ræða. Þá hafa þessir fjármunir, sem komið hafa fram á lánsfjáráætlun, verið kallaðir fjármagnskostnaður og auðvitað básúnað af andstæðingum þessarar framkvæmdar hvílík gífurleg skattpíning kostnaður vegna þessara framkvæmda sé á þjóðinni, þó að verulegur hluti af þeirri upphæð, sem í lánsfjáráætlun hefur staðið, hafi verið afborganir af vörukaupalánum og lánum sem tekin hafa verið vegna virkjunarinnar.

Í sambandi við þetta mál langar mig aðeins til að nefna dæmi um það, hversu mismunandi viðhorf og sjónarmið ráða því, hvernig staðið er að verklegum framkvæmdum og virkjunarframkvæmdum á þessu landi. Ég hef í máli mínu hér á undan lýst því, við hvaða kjör við höfum orðið að sætta okkur, við sem hefur verið falið það hlutverk að standa fyrir framkvæmdum við Kröfluvirkjun. Ég hef hins vegar hér fyrir framan mig plagg sem skýrir nokkuð hvernig t. a. m. háttað er um framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Þá er það í sambandi við Sigöldu, að í janúar 1974 er gengið frá láni af hálfu Landsvirkjunar vegna virkjunar Sigöldu. Lánsupphæðin var 30 millj. dollara. Lánið er til 10 ára, en afborganir verða svo sem hér segir-og ég vil biðja hv. þm. að taka vel eftir: Fyrsta afborgun af þessu láni, sem er um 30 millj. dollara, á ekki að fara fram fyrr en 1981, þá á að greiða af henni 3 millj. dollara. 3 millj. dollara eiga svo að dragast af þessu láni 1982, 3 millj. dollara eiga að greiðast af þessu láni 1983. Þá er eftir 21 millj. dollara af þessu láni sem áætlað er að verði greitt 1984. Á þessu skjali, sem ég er hér með, stendur enn fremur: „Þegar gengið var frá þessu láni þótti ljóst og um það rætt við lánveitendur, að „konvertera“ yrði greiðslu þeirri sem fram á að fara á árinu 1984.“

Þarna er staðið almennilega að málum. Ég er ekki að tilgreina þessar tölur hér og þennan gang mála vegna neinnar öfundar eða slíks. Aðeins er ég að skýra frá því, að þarna er dæmigert hvernig á að standa að fjármögnun á slíkum framkvæmdum eins og ég hef verið hér í dag að gera að umtalsefni.

Þá kemur upp í huga mér spurningin: Fyrsta virkjunarframkvæmd þjóðarinnar í því að hagnýta sér í ríkum og stórum mæli jarðgufu, sem er alger brautryðjendastarfsemi hjá þjóðinni, — átti ekki slík framkvæmd rétt á því að fjármagnslega yrði staðið að henni með sem hagkvæmustum hætti? Ég held að ef þannig hefði verið staðið að fjármögnun framkvæmdanna við Kröflu hefði mörgum vandræðum og leiðindum, sem hafa verið í sambandi við þessa framkvæmd, verið útrýmt. Og yfirleitt held ég að nú sé að vaxa skilningur hjá þjóðinni um að virkjunarframkvæmdir, ef eitthvert vit á að vera í slíkum framkvæmdum, verði undir engum kringumstæðum fjármagnaðar á þann hátt sem átt hefur sér stað t. a. m. með þær framkvæmdir sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa staðið að og ég hef verið hér að greina að hluta til um Kröflu.

Herra forseti. Ég skal nú reyna að fara að stytta mál mitt. Aðeins vil ég enn ítreka þetta: Það er ómótmælanleg staðreynd, að fyrir smáupphæð getum við fim þjóðina þeirri ógnvekjandi hættu sem blasir við ef ekkert er að gert veturinn 1980—1981. Miðað við fregnir og staðreyndir um þróun olíuverðs á heimsmarkaði og annað kalla ég það mikið ábyrgðarleysi þeirra aðila sem fastast hafa staðið á móti því og gert það að trúaratriði á ofstækisfullan hátt að standa gegn öllum framkvæmdum við það þjóðþrifafyrirtæki sem hér er um að ræða.

Ég vil í sambandi við þær umr., sem fóru fram í hv. fjh.- og viðskn., geta þess, að óskum okkar, sem vildum stuðla að því að tekin yrði í lánsfjáráætlun upphæð til borunar í sumar við Kröflu, var tekið af miklum skilningi og velvild af öllum nm. Hins vegar get ég vel skilið það, að vegna þess stjórnarástands, sem ríkir hér í þinginu, er ákaflega erfitt tæknilega séð, — og ég get vel skilið það, — það er ákaflega erfitt tæknilega séð fyrir stjórnvöld með jafnskamman tíma og þau hafa til umráða að fá breytingar á þessari lánsfjáráætlun, þannig að hún þurfi að fara aftur til Nd. Þessa aðstöðu skil ég. Í ljósi þess met ég þá yfirlýsingu sem hæstv. fjmrh. hefur í dag gefið í sambandi við þetta mál. Ég vil færa honum þakkir fyrir þessa yfirlýsingu. Ég lít á yfirlýsingu hæstv. fjmrh. sem viljayfirlýsingu um það, að þegar þessi mál fara betur að skýrast og þegar séð verður fram á að borinn Jötunn hefur lokið því verkefni sem honum var ætlað að vinna fyrir Kísiliðjuna, þá liggi ljóst fyrir að það sé allra hagur að haldið verði áfram framkvæmdum þarna upp frá. Og það var í trausti á farsælar lyktir þess máls að ég skrifaði undir þetta meirihlutaálit hv. fjh.- og viðskn. þó með fyrirvara sé.