16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4835 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða eitt af þeim fjölmörgu umbótamálum, sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar lét undirbúa að koma í gegnum Alþingi. Þetta frv. er eitt af þeim sem samið var um í júnímánuði 1977, þ. e. að greiða fyrir samkomulagi launþega um lífeyrismál, og hefur verið starfandi að þessum málum 17 manna n. um langan tíma. Það var algjör eining um þetta frv. þar til kom að fjármögnun þess. En þá, eins og gengur, upphófust nokkrar deilur um það, hver skyldi greiða kostnaðinn.

Í n. höfum við mikið um það rætt, hvernig ætti að fara með fjármögnunina, og ýmsar till. komu þar fram. Ekki hefur náðst sú eining að hægt væri að fá þetta frv. þannig í gegnum Alþ. að það tæki gildi 1. sept., eins og til stóð. — Hins vegar eru allir á einu máli um að þetta sé gott mál og nauðsynjamál og því fyrr sem það komist til framkvæmda því betra. Mig langar til að leggja áherslu á ákvæði til bráðabirgða og lesa það upp. „Fyrir 1. jan. 1980 skal ríkisstj. leggja fram frv. til laga sem létti greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna.“ Þegar þetta ákvæði var samþ. af viðkomandi aðilum fannst mér að það væri mjög mikið unnið og það varð raunverulega til þess að við gátum allir í n. verið sammála um að styðja þetta frv. í þessu formi.

Það verður að segjast, að hér er um að ræða mál sem um langan tíma hefur valdið einu mesta efnahagsmisrétti í þessu landi, þ. e. a. s. eftirlaun aldraðra, laun og eftirlaun þess fólks sem er komið að sjötugu eða meira. Þetta er fólkið sem ötullegast hefur unnið að uppbyggingu þessa lands, hefur í raun og veru breytt landinu úr örreytiskoti í hina blómlegustu byggð á jarðríki. Það er í raun og veru óskaplega ósanngjarnt hve illa hefur verið búið að þessu fólki, en það hefur að mjög verulegu leyti byggst á því erfiða fjárhagsástandi og þeirri geysilegu verðbólgu sem verið hefur hér á síðustu áratugum. Þetta hefur leitt til þess að sjóðir, sem fólk hefur aflað sér á sinni starfsævi, hafa rýrnað og rýrnað, og ekki er því að neita, að stjórnvöld hafa í raun og veru fram að síðustu árum staðið ötullega gegn því að á þessu yrði ráðin nokkur bót.

Hér í þinginu hefur legið á undanförnum árum og liggur enn frv. sem hefði getað ráðið bót á þessu ef það hefði náð fram að ganga. Það er frv. þar sem er gert ráð fyrir gegnumstreymi, þ. e. a. s. eftirlaunum í raun og veru í svipuðu formi og laun Tryggingastofnunarinnar til aldraðra eru nú. En úr því að ekki næst samkomulag um að fá það frv. í gegnum þingið, þá tel ég að það sé vel farið að þessar þúsundir manna, sem þetta frv. nær til, fái nú nokkra umbun. Þá er enn eftir nokkur hópur, 4–5 þús. manns, sem njóta ekki enn annarra eftirlauna en frá Tryggingastofnuninni, og það er ástæða til að ætla að á næsta Alþ. verði einnig gengið frá aukatekjum til þessa fólks.