16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4836 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til l. umr. lýsti ég yfir fullum stuðningi við það. Þetta er áfangi að því takmarki að senn verði að veruleika verðtryggðir lífeyrissjóðir fyrir alla landsmenn. Það lét einhver þau orð falla við 1. umr. um þetta mál, að ef ekki yrði gerð sú breyting að verðtryggja lífeyrissjóði yrði ekki langur tími þangað til allflestir lífeyrissjóðir landsins yrðu gjaldþrota.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. er þetta mál tekið sérstaklega fyrir, þar sem ákveðið er að vinna að því að einn verðtryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn verði að veruleika, og er það vel.

Hér er um áfanga að ræða sem ber að fagna. Ég gerði athugasemd við 1. umr. um fjáröflunarleiðina og sérstaklega að því er varðar sveitarfélögin, þ. e. Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég vakti athygli á því, að það er viss árátta hjá stjórnvöldum sérstaklega að ganga í þennan sjóð, eina verðtryggða tekjustofninn sem sveitarfélög í landinu hafa, og láta hann fá útgjaldahlutverk án þess að sveitarfélögin hafi þar nokkuð um að segja. Þessu áformi vildi ég mótmæla, enda kom það á daginn að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga lagði fram mótmæli gegn þessu ákvæði í frv. og hefur að sjálfsögðu gert nefndinni grein fyrir afstöðu sinni.

Út af fyrir sig get ég fellt mig við ákvæði til bráðabirgða sem n. hefur orðið sammála um, að fyrir 1. jan. 1980 skuli ríkisstj. leggja fram frv. til laga sem létti greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna. Þetta er vissulega jákvæð afstaða og um leið viðurkenning á því að áformið í frv. var rangt. Ég lýsi því yfir, að í trausti þess að staðið verði við þetta mun ég að sjálfsögðu fylgja málinu. En ég undirstrika það, að þetta er fjáröflunarleið sem ekki er hægt að fara nema til komi auknar tekjur í Jöfnunarsjóð á móti fyrir sveitarfélögin.

Að öðru leyti endurtek ég, að ég lýsi fyllsta stuðningi við frv. til laga um eftirlaun til aldraðra og tel það vera merkan áfanga að því takmarki sem ég tel að við eigum að stefna að, að sem fyrst verði lífeyrissjóðamálið eða lífeyristryggingamálið leyst á þann veg að allir njóti sama réttar í þessu þjóðfélagi. Það er réttlætismál.