16.05.1979
Efri deild: 104. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4840 í B-deild Alþingistíðinda. (4131)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú augljóst mál að það virðast allir, sem hafa tjáð sig um brtt. mínar við þetta frv., vera þeim samþykkir. Ég get ekki skilið annað en allir teldu að best væri að þær yrðu samþykktar og ríkisstj. fengnar í hendur þær heimildir sem þar er gert ráð fyrir til fjáröflunar. Samt treysta menn sér ekki til að mæla með þessu, eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Suðurl., formanns hv. fjh.- og viðskn. sem nú á milli 2. og 3. umr. tekur brtt. mínar til meðferðar. Hv. 6. þm. Suðurl. sagði að þeir í hv. fjh.- og viðskn. treystu sér ekki að mæla með samþykkt brtt. minna vegna þess að þá þyrfti málið að fara í hv. Nd. og sá dráttur mundi leiða til vandræða. Við getum haft okkar skoðanir á hv. Nd. Allir höfum við þá skoðun að við jöfnum henni ekki við hv. Ed. En ég hygg samt að það sé nokkuð mikið vantraust á hv. Nd. að ætla að það sé ofverkið hennar að skila þessu máli í höfn þó að við gerum svo sjálfsagðar breytingar sem brtt. mínar gera ráð fyrir. En ég verð að taka nokkurt tillit til þess sem hv. fjh.- og viðskn. segir í þessu máli. Mig uggir að ef það fer fram atkvgr. um þessar till., þá geti svo farið að þær verði felldar. Til þess að forða ágætum stuðningsmönnum þessara till. frá þeim örlögum að fella till. tel ég rétt eftir atvikum að draga till. mínar til baka, en þó á þeirri forsendu, að það verði eftir því tekið og það hafi raunhæfa þýðingu að hv. fjh.- og viðskn. mælir með þessum till. við ríkisstj. þegar ríkisstj. gerir þær ráðstafanir er hún hyggst gera til þess að hraða ýmsum orkuframkvæmdum.

Hv. 6. þm. Suðurl. sagði að n. mundi mæla með till. mínum við ríkisstj. ef ég drægi þær til baka, eins og hann orðaði það. Ég vænti þess, að þetta eigi ekki að skilja sem eitthvert skilyrði eða úrslitakosti af hálfu hv. fjh.- og viðskn., að hv. fjh.- og viðskn. hefði fylgt sannfæringu sinni og mælt með þessum till. jafnvel þó að ég drægi þær ekki til baka. En ég tel rétt, eins og ég sagði, að draga till. til baka. Ég legg ákaflega mikið upp úr áliti hv. fjh.- og viðskn. Það var víst einhvern tíma sagt um einhvern mætan mann, að ádráttur af hans hálfu væri betri en loforð frá öðrum. Ég held að þegar fulltrúar í n., sem er skipuð svo ágætum og áhrifamiklum mönnum sem fjh.- og viðskn. Ed., sameinast í vilja sínum til þess að koma í framkvæmd till. sem felast í brtt. mínum, þá megi vænta þess að það verði gert. Í því trausti dreg ég till. til baka.